Kyrrstaða á fasteignamarkaði

Óvenjugott veður á höfuborgarsvæðinu í júní og júlí þetta árið …
Óvenjugott veður á höfuborgarsvæðinu í júní og júlí þetta árið kann að hafa haft áhrif á að viðskipti með fasteignir voru óvenjulítil. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikil kyrrstaða virðist nú vera á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri Hagsjá hagdeildar Landsbankans. Samkvæmt  tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,2% milli maí og júní. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,3% og verð á sérbýli lækkaði um 0,5%.

Þegar horft er yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,4% og verð á sérbýli um 1,8%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 3,4% og er það 0,4 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði.

Viðskipti með fjölbýli skipta hvað mestu máli við mælingar á þróun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Þannig voru viðskipti með fjölbýli um 82% allra viðskipta með íbúðarhúsnæði á árinu 2018. Á síðustu sex mánuðum hefur verð á fjölbýli hækkað um 1% og skiptir 1% verðlækkun í febrúar miklu í því sambandi. Samsvarandi tala fyrir árið 2018 var 1,9% og 11,9% fyrir árið 2017. Eru þessar tölur enn ein birtingarmynd þess að fasteignamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er í mikilli kyrrstöðu.

Segir í Hagsjánni að viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í júní hafi verið mun minni en verið hefur lengi, að undanskildum desember á síðasta ári. Fjöldi viðskipta fyrstu sex mánuði þessa árs voru um 4% minni en á sama tíma fyrir ári og voru viðskiptin í júní í ár um 23% minni en í júní 2018. „Það má því segja að fasteignamarkaðurinn hafi gefið töluvert eftir hvað fjölda viðskipta varðar.“

Þegar horft er til meðalfjölda viðskipta á fyrstu sex mánuðum ársins eru þau um 6% minni en var á öllu árinu 2018.

Óvenjugott veður á höfuborgarsvæðinu í júní og júli þetta árið kann að hafa haft áhrif á að viðskipti með fasteignir voru óvenjulítil, en óvissa í efnahagslífinu er þó einnig talin líkleg skýring. „Þar má bæði nefna óvissu vegna kjarasamninga og áfallið sem hagkerfið varð fyrir í kjölfar gjaldþrots WOW air. Þá hefur framboð íbúða á sölumarkaði aukist verulega og þá er einnig að vænta mikillar aukningar á framboði leiguhúsnæðis.

Allt kann þetta að hafa leitt til biðstöðu á markaðnum. Fólk vill kannski sjá framtíðina betur fyrir sér áður en stórar ákvarðanir eru teknar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK