Novator og Lego fjárfesta í nýjum íslenskum tölvuleik

Björgólfur Thor Björgólfsson er einn eiganda Novator.
Björgólfur Thor Björgólfsson er einn eiganda Novator. mbl.is/RAX

Tölvuleikjafyrirtækið Klang hefur safnað 22,33 milljónum Bandaríkjadala í fjárfestingalotu sem leidd var af Novator, en meðal annarra fjárfesta er Lego Ventures, fjárfestingaarmur Lego-veldisins. Klang er staðsett í Berlín í Þýskalandi en var stofnað af Íslendingum og er framkvæmdastjóri þess Guðmundur Hallgrímsson, sem þekktur er sem Mundi Vondi og fékkst meðal annars við fatahönnun áður fyrr.

Fjármögnunin núna nemur um 2,7 milljörðum íslenskra króna, en Klang vinnur að gerð tölvuleiksins Seed, sem verður fjölspilunarnetleikur (MMO). Í heild hefur Klang safnað 37,42 milljón dölum til að þróa leikinn.

Á vefsíðunni Venturebeat er haft eftir Birgi Ragnarssyni hjá Novator Partners að sé framarlega í þróun og tækni og að stjórnendur fyrirtækisins skilji þarfir og vilja tölvuleikjaspilara. Birgir tekur við sem stjórnarformaður fyrirtækisins, en hann hefur áður verið stjórnarformaður CCP og situr í dag í stjórnum tölvuleikjafyrirtækjanna Machine Zone, Zwift og Lockwood Publishing.

Leikurinn Seed er í þróun hjá íslenska-þýska leikjafyrirtækinu Klang games.
Leikurinn Seed er í þróun hjá íslenska-þýska leikjafyrirtækinu Klang games. Klang Games

Novator partners er í eigu Birg­is Más Ragn­ars­son­ar, Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar, Andra Sveins­son­ar og tveggja annarra meðeig­enda. Þeir hafa meðal annars fjárfest í tæknifyrirtækinu Catapult, Si­dekick health, sem er íslenskur leikjavæddur hugbúnaður sem ýtir und­ir lífstíls­breyt­ing­ar til að draga úr lífstíls­sjúk­dóm­um og Zwift sem gef­ur út sam­nefnd­an hjóla­tölvu­leik. Í tilefni af fjárfestingunni í Zwift sagði Birgir í viðtali við mbl.is að fyrirtækið hefði þá stefnu að fjár­festa í leikj­um sem byggi á sam­fé­lag­steng­ingu. 

Fleiri Íslendingar hafa fjárfest í fyrirtækinu, meðal annars Davíð Helgason, stofnandi og fyrrverandi forstjóri Unity, og Aðalsteinn Rúnar Óttarsson, fyrrverandi þróunarstjóri Riot Games, en fyrirtækið gefur meðal annars út hinn geysivinsæla tölvuleik League of Legends.

Hjá Klang eru í dag 44 starfsmenn, en eins og fyrr segir er fyrirtækið staðsett í Berlín.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK