Yfirsýn yfir reikningsupplýsingar frá öðrum bönkum í Arion-appinu

Arion banki hefur opnað á aðgengi að reiknings- og kortaupplýsingum …
Arion banki hefur opnað á aðgengi að reiknings- og kortaupplýsingum frá öðrum bönkum í Arion banka-appinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arion banki hefur opnað á aðgengi að reiknings- og kortaupplýsingum frá öðrum bönkum í Arion banka-appinu og er þetta í fyrsta skipti sem boðið er upp á slíkt í fjármálaþjónustu hér á landi. Allir, sem eru með reikninga eða kort hjá fleiri en einum banka og veita heimild fyrir flutningi gagna, geta fengið heildstæða yfirsýn yfir fjármál og útgjöld heimilisins á einum stað í Arion-appinu. Þessi nýja þjónusta er unnin í samstarfi við Meniga.

Á hverjum degi nýta að meðaltali 40 þúsund viðskiptavinir sér appið. „Við vitum að íslenskir neytendur eru fljótir að tileinka sér nýjungar og nýta sér stafrænar lausnir. Við viljum stöðugt bæta okkar þjónustu og appið er ein mikilvægasta og vinsælasta þjónustuleiðin okkar. Það er því sérstaklega ánægjulegt að kynna þessa nýjung og að hún standi öllum til boða, óháð því hvort fólk er með reikninga eða kort hjá okkur eða öðrum bönkum,“ er haft eftir Iðu Brá Benediktsdóttur, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs, í tilkynningu. 

Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka.
Iða Brá Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka. Ljósmynd/Aðsend

Nýjung sem er opin öllum

Þessi nýjung er ekki aðeins fyrir viðskiptavini Arion banka heldur er hún öllum opin. Það eina sem þarf að gera er að sækja Arion-appið, skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og tengja þá reikninga og kort sem hver og einn vill sjá. Einstaklingur, sem er t.d. með debetkort hjá Arion banka en kreditkort hjá öðrum bönkum, getur þannig séð stöðu og hreyfingar á öllum sínum kortum í Arion-appinu.

Að auki eru þessar upplýsingar teknar saman og flokkaðar eftir útgjaldaliðum heimilisins. Hver og einn getur svo unnið með flokkunina, endurflokkað tilteknar færslur og lagað að eigin þörfum. Þannig fæst einstök yfirsýn yfir tekjur og útgjöld heimilisins og þróun þeirra yfir ákveðið tímaskeið.

Með nýjunginni er tekið mikilvægt skref í þágu neytenda. Um er að ræða notendavæna og þægilega lausn sem er í anda opinnar bankaþjónustu og nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu (PSD2) sem verður innleidd hér á landi á næstu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK