Brottförum fækkaði um 18,4% í október

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í október eða um fimmtungur brottfara en …
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í október eða um fimmtungur brottfara en þar á eftir komu Bretar eða um 12,6% af heild. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 163 þúsund í októbermánuði eða um 36 þúsund færri en í október árið 2018. Fækkun milli ára nemur 18,4%. 

Samkvæmt niðurstöðum talninga Ferðamálastofu á skiptingu þjóðerna munar mest um fækkun Bandaríkjamanna, en brottförum þeirra fækkaði um 25 þúsund frá því í október 2018 eða um 42% milli ára.

Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum. Í janúar nam hún 5,8%, í febrúar 6,9%, í mars 1,7%, í apríl 18,5%, í maí 23,6%, í júní 16,7%, í júlí 17%, 13,5% í ágúst og 20,7% í september.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í október eða um fimmtungur brottfara en þar á eftir komu Bretar eða um 12,6% af heild. Í þriðja sæti voru brottfarir Kínverja, tæp 10.800 talsins og fjölgaði þeim um 24,3% milli ára. Frá áramótum hafa um 1,7 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 14,7% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Um 57 þúsund Íslendingar fóru utan í október í ár eða 11% færri en í október 2018. Frá áramótum hafa um 522.600 Íslendingar farið utan eða 7,8% færri en á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu Ferðamálastofu er vakin athygli á því að frá og með 1. október voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi talningar brottfararfarþega eftir þjóðerni á Keflavíkurflugvelli. Í stað handtalningar á öllum farþegum á leið úr landi verður þjóðernasamsetning framvegis metin út frá kerfisbundnu úrtaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK