Evrópsk hlutabréf á uppleið sjöttu vikuna í röð

Þrátt fyrir afkomuviðvörun Daimler eru horfur á að Stoxx Europe …
Þrátt fyrir afkomuviðvörun Daimler eru horfur á að Stoxx Europe 600 hækki þessa vikuna. AFP

Evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600, sem mælir verðþróun hlutabréfa 600 fyrirtækja í 17 Evrópulöndum, seig upp á við í morgun og eru allar horfur á að við lokun markaða seinna í dag muni vísitalan hafa hækkað í sex vikur samfleytt.

Í umfjöllun Reuters um málið er bent á að jákvæðni í evrópskum kauphöllum í dag kunni að skýrast af því að Larry Kudlow, efnahagsráðgjafi Hvíta hússins, lét hafa eftir sér á fimmtudag að bandarísk og kínversk stjórnvöld hefðu færst nær samkomulagi um að binda enda á tollastríð þjóðanna.

Liðnir eru sextán mánuðir frá því fyrstu skotunum var hleypt af í deilum Kína og Bandaríkjanna og hafa þær haft dempandi áhrif á allt alþjóðahagkerfið. Takist að finna farsæla lausn gæti það orðið til þess að auka bjartsýni fyrirtækja um allan heim og örva milliríkjaviðskipti.

Það hefur skemmt fyrir Stoxx Europe 600 þessa vikuna að erfið pattstaða kom upp í stjórnmálum Spánar í kjölfar þingkosninga sem haldnar voru þar í landi síðastliðinn sunnudag. Þá gaf þýski bílarisinn Daimler út afkomuviðvörun á fimmtudag, m.a. vegna neikvæðra áhrifa strangari útblástursreglna á efnahagsreikning félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK