Góður tími fyrir breytingar í rekstri Isavia

Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia. Ljósmynd/Isavia

„Það verða breytingar og tilfærslur á verkefnum en markmiðið með þessum breytingum er ekki að leggja eitthvað niður eða draga úr einhverju. Við erum bara að koma verkefnunum á betri stað,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, um fyrirhugaðar breytingar á rekstri Isavia í samtali við mbl.is.

Um áramótin verður rekstri Isavia, sem hingað til hefur verið rekinn af einu móðurfélagi, skipt í þrennt með stofnun dótturfélaga um innanlandsflugvallakerfið og flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi. Móðurfélagið mun áfram sjá um rekstur Keflavíkurflugvallar og stoðdeilda.

Stoðsviðin hafi verið að uppfylla ólíkar þarfir

Sveinbjörn segir að þessar þrjár kjarnaeiningar, þ.e. rekstur Keflavíkurflugvallar, innanlandsflugvalla og flugleiðsögukerfið séu mjög ólíkar rekstrareiningar. „Svo höfum við verið með stoðsviðin sem hafa verið að reyna uppfylla ólíkar þarfir allra einhvernveginn þannig við sáum að það væri haganlegra að gera skýrari skil á milli þessara kjarnaeininga og ég held að tímapunkturinn núna sé nokkuð góður til þess að ráðast í það verkefni,“ segir Sveinbjörn.

Dótturfélögin munu í framhaldinu kaupa stoðþjónustu af móðurfélaginu sem mun reka fjármálasvið, mannauðssvið og öryggis og gæðasvið svo dæmi séu tekin.

Öll félögin verða opinber hlutafélög

Isavia hefur rekið innanlandsflugvallakerfið í gegnum þjónustusamning við ríkið og mun gera það áfram en á næsta ári verður sá samningur við dótturfélag Isavia. „Þetta verður allt rekið undir sömu samstæðu þannig þetta verður áfram hluti af Isavia ohf. og öll dótturfélög verða opinber félög,“ segir Sveinbjörn spurður um félagaformið.

„Samhliða þessu erum við að leggja niður stoðsvið sem við höfum kallað Þróun og stjórnun. Það svið var á sínum tíma stofnað til að vera límið á milli kjarnaeininganna þannig að verkefni þróunar og stjórnunar munu færast á milli. Einhver verkefni munu fara inn á Keflavíkurflugvöll og einhver inn á önnur stoðsvið en við erum ekki að leggja niður verkefni heldur er þetta tilfærsla,“ útskýrir forstjórinn.

Engar fyrirhugaðar breytingar á starfsmannafjölda

Hann segir skipulagsbreytingarnar ekki til þess fallnar að Isavia þurfi, eða ætli að skera niður í starfsmannafjölda eða bæta í hann.

„Það er mjög mikilvægt líka að gæta þess að þarna erum við að fara úr einu félagi í þrjú félög og við þurfum að standa vörð um að það verði ekki til nýr kostnaður eða ný umsvif sem tengjast því,“ bætir hann við að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK