Hvetja SÍ til þess að lækka stýrivexti

Samtök iðnaðarins segja þrengt að vexti fyrirtækja og telja að …
Samtök iðnaðarins segja þrengt að vexti fyrirtækja og telja að svigrúm sé til að Seðlabanki Íslands lækki frekar stýrivexti sína nú í desember. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Samtök iðnaðarins telja að svigrúm sé fyrir peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að lækka stýrivexti bankans enn frekar og draga þar með úr áhrifum samdráttar í hagkerfinu, að því er fram kemur í tilkynningu á vef samtakanna. Næsta vaxtaákvörðun bankans verður kynnt 12. desember.

Færa Samtök iðnaðarins rök fyrir lækkun stýrivaxta með því að vísa til þess að „verðbólga og verðbólguvæntingar hafa verið að lækka og eru nú við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Líkur eru taldar á því að verðbólgan haldi áfram að lækka á næstunni og fari undir verðbólgumarkmið bankans í upphafi næsta árs.“

Niðursveiflan í efnahagslífinu er vaxandi og horfur um hagvöxt fyrir næsta ár hafa verið að versna, að sögn samtakanna sem fagna því að stýrivextir hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentustig frá í maí og eru þeir nú 3%. Þá er það talið „mikið hagsmunamál fyrir fyrirtæki og almenning að stýrivextir bankans séu lækkaðir nægjanlega hratt og mikið við þessar aðstæður“.

Þrengir að fyrirtækjunum

Í tilkynningunni er sagt frá því að á sama tíma og stýrivextir hafa lækkað hefur dregið úr framboði lánsfjár. „Það hefur meðal annars þrengt að vaxtarmöguleikum fyrirtækja og komið fram í samdrætti í fjárfestingum þeirra.“

Þá hefur yfirstandandi niðursveifla í efnahagslífinu verið fremur mild, að mati Samtaka iðnaðarins, sérstaklega í samanburði við fyrri niðursveiflur. Jafnframt er lág skuldastaða fyrirtækja, heimila og hins opinbera sögð gefa efnahagslífinu talsverðan viðnámsþrótt. Auk þess er bent á að hrein staða þjóðarbúsins við útlönd mælist um fjórðungur af landsframleiðslu og sagt að viðbrögð hagstjórnar hafi dregið úr niðursveiflunni.

Hins vegar sé útlit fyrir lítinn hagvöxt á næsta ári og hefur atvinnuleysi farið vaxandi. „Telja Samtök iðnaðarins að frekari hagstjórnaraðgerða sé þörf til þess að beina hagkerfinu inn á nýtt hagvaxtarskeið. Halda verður áfram því lækkunarferli sem nú er hafið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK