Boeing hyggst taka 1.250 milljarða lán

Boeing 737 MAX-vélarnar voru kyrr­sett­ar í mars síðastliðnum. Framleiðsla vélanna …
Boeing 737 MAX-vélarnar voru kyrr­sett­ar í mars síðastliðnum. Framleiðsla vélanna var stöðvuð tímabundið fyrr í þessum mánuði. AFP

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing vinnur nú að því með ráðgjöfum sínum að tryggja sér lán að fjárhæð 10 milljarða dollara, jafnvirði 1.250 ma. króna, til þess að styrkja fjárhagsstöðu sína. Hún hefur versnað mjög í kjölfar þess að Boeing 737-MAX-vélar fyrirtækisins voru kyrrsettar um allan heim í mars 2019. Enn hefur harðnað á dalnum hjá fyrirtækinu eftir að það neyddist til þess að hætta framleiðslu á sömu vélartegund í byrjun þessa árs.

Kyrrsettar Boeing 737 MAX-flugvélar í eigu Southwest-flugfélagsins í Bandaríkjunum.
Kyrrsettar Boeing 737 MAX-flugvélar í eigu Southwest-flugfélagsins í Bandaríkjunum. AFP

Í kjölfar kyrrsetningar vélanna hefur Boeing lýst því yfir að það muni bæta þeim flugfélögum sem keypt höfðu MAX-þotur þann skaða sem þau hafa orðið fyrir. Í þeim hópi er Icelandair Group sem samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hefur nú þegar náð ákveðnum áföngum í samkomulagsátt við Boeing.

Skuldirnar tvöfaldast

Fitch Ratings hefur gefið út mat þess efnis að skuldir Boeing hafi tvöfaldast á síðasta ári og hafi numið 27 milljörðum dollara í lok ársins. Financial Times bendir í því sambandi á að frjálst sjóðstreymi fyrirtækisins hafi þurrkast upp þar sem fyrirtækið hafi haldið áfram að framleiða MAX-vélarnar þótt ekki hafi verið unnt að afhenda eina einustu vél frá marsmánuði. Þannig fór sjóðstreymið úr því að vera jákvætt um 11,1 milljarð dollara á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 í að verða neikvætt um 1,6 milljarða dollara yfir sama tímabil í fyrra.

Financial Times hefur heimildir fyrir því að nokkrir stórir bankar hafi skuldbundið sig til þess að koma að lánveitingunni til Boeing. Þar á meðal séu Bank of America, Citigroup, JPMorgan Chase, Wells Fargo og Morgan Stanley. Þá segir FT að um sé að ræða lán sem standi Boeing opið til tveggja ára og að hægt sé að draga það yfir tímabilið eftir þörfum.

Lánshæfismatið versnar

Craig Fraser hjá Fitch Ratings segir í samtali við FT að með lántökunni geti Boeing mætt neikvæðu fjárstreymi fyrsta ársfjórðungs ársins og einnig endurfjármagnað önnur lán sem orðið hafa óhagstæðari eftir því sem lánshæfismat fyrirtækisins hefur versnað.

Meðal þess sem mun reyna talsvert á fjárhagsstöðu Boeing á árinu er að til stendur að greiða 4,2 milljarða dollara í tengslum við yfirtöku fyrirtækisins á brasilíska flugvélaframleiðandanum Embraer en til stendur að þau viðskipti gangi endanlega í gegn í maí næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK