Hagvöxtur 1,9% í fyrra en landsframleiðsla á mann lækkaði

Hagvöxtur á síðasta ári nam 1,9%.
Hagvöxtur á síðasta ári nam 1,9%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi síðasta árs mældist 4,7% samanborið við sama ársfjórðung árið 2018 og yfir árið í heild 1,9%. Vöxtur einkaneyslu mældist 1% á tímabilinu, vöxtur samneyslu 3,8% en 3% samdráttur mældist í fjármunamyndun. Að teknu tilliti til áhrifa birgðabreytinga jukust þjóðarútgjöld um 0,1% á tímabilinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar.

Vöxtur landsframleiðslunnar skýrist af jákvæðum áhrifum utanríkisviðskipta, en innflutningur dróst saman um 10,2% á tímabilinu meðan útflutningur jókst um 0,5%. Vöruútflutningur dróst saman um 3,1% en þrátt fyrir umtalsverðan samdrátt í útfluttri ferðaþjónustu og tengdri þjónustu jókst útflutningur þjónustu í heild hins vegar um 3,7% á 4. ársfjórðungi. Rekja má aukningu útflutnings annarrar þjónustu, m.a. til viðskiptaþjónustu og sölu áhugverkaréttindum.

Byggt á ársfjórðungslegum mælingum er nú áætlað að landsframleiðslan hafi aukist um 1,9% að raungildi á árinu 2019 borið saman við fyrra ár. Þrátt fyrir 5% samdrátt í útflutningi á árinu reyndist samdráttur í innflutningi talsvert meiri eða sem nemur 9,9% að raungildi.

Landsframleiðsla á mann dróst saman um 0,3% að raungildi að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,2% á árinu 2019, borið saman við 1,1% vöxt árið 2018. Þjóðarútgjöld drógust saman um 0,1% á árinu 2019. Vöxtur einkaneyslu mældist 1,6%, vöxtur samneyslu 4,1% en 6,3% samdráttur mældist í fjármunamyndun á árinu. Frá árinu 2011 til ársins 2018 jukust þjóðarútgjöld að raungildi á hverju ári, eða um 4,6% að meðaltali milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK