Nær 10% hafa sótt um greiðslufrest

„Eins og staðan er núna erum við komin með 1.153 …
„Eins og staðan er núna erum við komin með 1.153 umsóknir um frestun hjá einstaklingum. Við erum að afgreiða þetta hratt og vel núna,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir í samtali við mbl.is. mbl.is/Golli

Á tólfta hundrað viðskiptavina Landsbankans hafa sótt um greiðslufrest hjá bankanum, flestir vegna íbúðalána. Bankastjóri Landsbankans býst við því að tíu prósent allra sem eru með íbúðalán hjá bankanum verði búin að sækja um greiðslufrest eftir helgina.

„Eins og staðan er núna erum við komin með 1.143 umsóknir um frestun hjá einstaklingum. Við erum að afgreiða þetta hratt og vel núna,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir í samtali við mbl.is.

Í kjölfar lagabreytingar um þinglýsingar býður bankinn upp á að fólk geti samþykkt þessa breytingu á lánum sínum rafrænt. „Að öllu jöfnu þyrfti svona breyting á útláni að fara strax í þinglýsingu til að hún taki gildi, en nú geturðu sótt um frestunina á vefnum okkar. Þegar búið er að sækja um, og ef fólk er skilvíst og ekki í viðvarandi vanskilum, þá fer þetta beint í skjalagerð og fólk fær skjalið sent og undirritar með rafrænum skilríkjum og þetta tekur þá strax gildi,“ útskýrir Lilja.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/​Hari

„Í framhaldinu förum með allan bunkann, vonandi rafrænt, og komum honum áleiðis til sýslumanns sem getur svo unnið úr þessu næstu mánuði, en þetta tekur þó strax gildi með þessari nýju lagabreytingu. Þetta er orðið mjög gott ferli og fólk á að geta gert þetta án þess að þurfa að standa í röð fyrir utan sýslumann.“

Lilja segir að strax og bankinn hafi farið að bjóða greiðslufrest vegna kórónuveirufaraldursins og áhrifa hans á atvinnulífið hafi þau farið að sjá um 50 umsóknir á dag og að þær hafi haldið áfram að berast jafnt og þétt. „Okkur sýnist að í flestum tilfellum sé fólk að sækja um frestun sem þarf á frestun að halda, það hefur orðið fyrir tekjumissi.“

Hafi ekki áhyggjur af því að lenda í vanskilum

„Við vissum svo sem ekki hve margir myndu sækja um en það sem er að gerast varðandi atvinnuleysisumsóknir- og tryggingar sýnir okkur vel að það eru margir að lenda í tímabundnum greiðsluvandræðum og þetta er alveg í samræmi við það. Það er um það bil 13 þúsund fjölskyldur með húsnæðislánin sín hjá okkur og nú eru komnar 1.143 umsóknir. Þetta verða orðin 10% eftir helgi.“

Lilja býst við að umsóknir hafi verið flestar nú fyrir eða um mánaðamót en að það megi alveg eins búast við fleiri þegar líður á og fólk fer að átta sig betur á áhrifunum sem faraldurinn hefur á efnahag þess.

Að lokum vill Lilja benda á að fólk sem hafi sótt um frestun fyrir mánaðamótin en hafi ekki fengið hana samþykkta í tæka tíð vegna mikils álags á starfsfólk bankans þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að lenda í vanskilum.

„Við höfum gripið til ráðstafana þannig að þessi lán lenda ekki í vanskilum ef búið er að sækja um frest. Það er líka mikilvægt fyrir fólk að vita að þó svo að það náist ekki að vinna úr þessu öllu fyrir mánaðamót, þá er fólk ekki að lenda í greiðsluvandræðum. Fólk hefur nóg annað að hugsa um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK