Gefa bjór en selja heimsendinguna

Eins og þekkt er má ríkið eitt selja áfengi til …
Eins og þekkt er má ríkið eitt selja áfengi til einstaklinga á Íslandi. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Bjórfyrirtækið Bjórland, sem sér um að selja og aka til fyrirtækja, sem hafa vínveitingaleyfi, bjór, auglýsti á fésbókarsíðu sinni í morgun að vegna lítillar eftirspurnar í kjölfar kórónuveirunnar safnaðist upp hjá fyrirtækinu bjór sem fyrirhugað væri að myndi skemmast. Því væri nú hægt að skrá sig hjá fyrirtækinu og fá gefins bjór, en að vísu þyrfti að greiða þrjú þúsund krónur fyrir heimsendinguna. 

„Á gráu svæði“

Í samtali við mbl.is segir Þórgnýr Thoroddsen, eigandi Bjórlands, að ekki hafi einungis fyrirtækjum verið heimilt að fá gefins bjór, heldur hafi einstaklingar einnig getað skráð sig. Eins og fram kemur á vefsíðu Bjórlands er fyrirtækinu einungis heimilt samkvæmt gildandi rétti að selja áfengi til fyrirtækja og segir Þórgnýr, spurður hvort hér sé ekki verið að reyna að komast framhjá reglum um smásölu áfengis til einstaklinga, að þetta sé á gráu svæði. „Ég skal alveg viðurkenna að þetta er á gráu svæði. En víðs vegar tíðkast það mjög gjarnan að gefa áfengi. Það mætti alveg færa rök fyrir því að hér sé verið að fela gjaldið í sendingarkostnaðinum en hann er staðlaður og þetta skilar engan veginn hagnaði. Í raun og veru erum við bara að minnka tapið.“

Hjónin Þórgnýr Thoroddsen og Rúna Vala Þorgrímsdóttir.
Hjónin Þórgnýr Thoroddsen og Rúna Vala Þorgrímsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Hann bætir þó við að heilmikil eftirspurn sé eftir þessari þjónustu. „Þótt við ætlum ekki að veita hana, nema ef vera skyldi í tilviki eins og þessu, þá erum við tilbúin og viljug til að sinna áfengissölu á vefnum þegar löggjöf um slíkt fer í gegn,“ segir hann og tekur þar þátt í umræðu sem hefur verið sérstaklega lifandi eftir að dómsmálaráðherra lagði í fyrra fram frumvarp um breytingu á áfengislögum. „Það er hreinlega sjálfsagt og eðlilegt að slík þjónusta sé í boði.“

Við lok samtalsins kemst blaðamaður ekki hjá því að spyrja hvort enn sé eitthvað eftir til að næla sér í en því svarar Þórgnýr neitandi. Um óverulegt magn hafi verið að ræða sem að mestu leyti sé komið út og var Þórgnýr að pakka saman síðustu kippunum um það leyti sem samtalinu lauk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK