15% verðhækkun hjá World Class

World Class.
World Class. Kristinn Magnússon

Líkamsræktarkeðjan World Class hefur hækkað verð á almennum kortum um 15%. Verðið hafði verið óbreytt frá ársbyrjun 2014.

Björn Leifsson, stofnandi og einn eigenda World Class á Íslandi, segir það hafa verið óhjákvæmilegt að hækka verðið. Til að mynda hafi launavísitala hækkað um 56% frá ársbyrjun 2014 og vísitala neysluverðs hækkað um 15,2%, en kortin staðið í stað. Þá hafi til dæmis gjald fyrir sundferð hækkað um 102% á tímabilinu.

„Það hlýtur að segja sitt um að það hafi skapast þörf fyrir hækkun. Jafnframt reyndist kórónuveiran okkur dýr. Það eru sex og hálft ár síðan ég hækkaði verðið síðast. Það er sennilega ekkert fyrirtæki á Íslandi sem getur státað af því. Ég var orðinn ódýrastur á markaðnum. Önnur fyrirtæki sem eru með lægra þjónustustig en við vorum orðin dýrari,“ segir Björn.

Fær meira fyrir þjónustu

„Við höfum opnað margar stöðvar síðan í ársbyrjun 2014. Fólk er því að fá miklu meira fyrir peninginn en fyrir sex og hálfu ári,“ segir Björn um þjónustustigið.

Eftir hækkunina fer mánaðarleg áskrift úr 6.830 krónum í 7.850 krónur og hækkar því um 15%. Um leið hækkar baðstofukortið í Laugum úr 19.900 í 22.000 á mánuði. Það er um 10% hækkun. Þegar verðið hækkaði síðast 2. janúar 2014 hækkuðu almennu árskortin um 2,8%. Björn segir að síðan hafi húsnæðiskostnaður, rafmagn og vatn hækkað í verði og laun hækkað mikið.

Opna nýjar stöðvar

Fram kom í samtali ViðskiptaMoggans við Björn í lok maí að World Class hefði tapað um 600 milljónum króna vegna kórónuveirufaraldursins. Félagið hefði fjármagnað uppbygginguna í samkomubanninu með 500 milljóna yfirdrætti hjá viðskiptabanka.

Björn segir áformað að taka nýja stöð við sundlaugina á Hellu í notkun í lok júlí. Þá verði ný World Class-stöð opnuð í Grósku í Vatnsmýri í lok ágúst og ný stöð við Kringluna í lok september. Jafnframt sé verið að leggja lokahönd á stækkun World Class-stöðvar í Vallahverfinu í Hafnarfirði.

Aðspurður segir hann kórónukreppuna ekki hafa haft önnur áhrif á uppbyggingu félagsins en að fresta stækkun stöðvarinnar við sundlaugina á Selfossi.

Velta World Class var um 3,6 milljarðar í fyrra og var launakostnaður um 500 milljónir. Korthafar voru um 49.300 í mars, fyrir faraldurinn, en eru nú um 46.500.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK