„Önnur bylgjan“ ekki sett strik í reikninginn

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þetta eru tveir mikilvægir áfangar í þessu ferli,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, en félagið greindi frá því seint í gærkvöldi að samningar hefðu tekist við alla kröfuhafa. Einnig var greint frá endanlegu samkomulagi við flugvélaframleiðandann Boeing um bætur vegna kyrrsetningar MAX-flugvéla.

Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins er því á síðustu metrunum en Bogi segir stefnt að því að ljúka öllu í þessum mánuði:

„Tímalínan sem við höfum verið að vinna eftir og gáfum út fyrir einhverju síðan er sú að við stefnum að því að klára þetta í ágústmánuði. Eins og við höfum sagt svo oft þá er þetta flókið og viðamikið ferli og margir hagsmunaaðilar,“ segir Bogi.

Viðræður við ís­lensk stjórn­völd um út­færslu á slíkri lánalínu í sam­vinnu við Íslands­banka og Lands­bank­ann eru langt komn­ar en  forsendan fyrir lánalínu stjórnvalda er sú að útboð félagsins klárist. 

„Við erum í þeim viðræðum enn þá og erum að stilla þetta af. Vonandi klárast þær viðræður á næstu dögum og við stefnum að því að senda frá okkur kynningargögn til fjárfesta á næstu dögum. Það er margt í vinnslu hjá okkur,“ segir forstjórinn sem vill ekki tjá sig um upphæðir vegna lánalínu stjórnvalda.

Meira flogið en gert var ráð fyrir

Bogi segir aðra bylgju kórónuveirunnar hér á landi ekki hafa haft áhrif á vinnu félagsins undanfarna daga og viku en grunnsviðsmyndin frá því í vor gerir ráð fyrir lítilli framleiðslu fram á næsta vor.

„Það sem við höfum verið að fljúga síðustu vikur og frá miðjum júlí er meira en við gerðum ráð fyrir í þessari sviðsmynd,“ segir Bogi og bætir við að gert hafi verið ráð fyrir breytilegri stöðu; jákvæðum og neikvæðum frétt á víxl í einhvern tíma.

„Við höfum búið okkur undir það og þetta sem er í gangi núna kemur ekki á óvart og er í takt við það módel sem við stillum upp.“

Eins og fram kom í tilkynningu Icelandair í gærkvöldi er bótafjárhæð sem Icelandair hefur orðið fyrir vegna kyrr­setn­ing­ar MAX-vél­anna trúnaðarmál en Bogi segist ánægður með samkomulagið.

„Við hefðum að sjálfsögðu ekki skrifað undir samning ef við værum ekki sátt. Við erum að fá viðbótarbætur fyrir tjónið og jafnframt fækka pöntunum og minnka skuldbindingar félagsins til næstu mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK