Langdreginn faraldur eykur óvissu

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikilvægt er að fjármálafyrirtæki vinni markvisst að endurskipulagningu útlána og nýti það svigrúm sem aðgerðir Seðlabanka og stjórnvalda hafa skapað til að styðja við heimili og fyrirtæki. Þetta segir í tilkynningu frá fjármálastöðugleikanefnd.

Segir að baráttan við kórónuveiruna hafi reynst langdregnari en vonir voru bundnar við, og með því aukist óvissan sem hefur neikvæð áhrif á útlánasögn fjármálafyrirtækja.

Sveiflujöfnunarauki áfram núll

Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að sveiflujöfnunarauki á fjármálafyrirtæki verði óbreyttur næstu sex mánuði, eða núll prósent. Sveiflujöfnunaraukanum var aflétt 18. mars.

Sveiflujöfnunarauki er álag sem bætist ofan á eiginfjárkröfur banka, en beitingu hans er ætlað að mæta sveiflutengdri kerfisáhættu. Í upptakti fjármálasveiflu á hann að koma í veg fyrir áhættumyndun vegna óhóflegrar skuldsetningar. Með lækkun hans í niðursveiflu ffá fjármálafyrirtæki aftur á móti aukið svigrúm til að vinna úr auknu útlánatapi og á það að draga úr neikvæðum áhrifum á útlánastarfsemi. 

Fjármálastöðugleikanefnd.
Fjármálastöðugleikanefnd. Ljósmynd/Aðsend

Í tilkynningu nefndarinnar segir að aðgerðir Seðlabankans hafi rýmkað verulega aðgengi stóru bankanna þriggja að lausu fé og vaxtaálag á erlendum lánsfjársmörkuðum hafi lækkað. Eigin- og lausafjárstaða bankanna sé því sterk og þeir hafi aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum sem geri þeim kleift að búa yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við afleiðingar kórónuveirufaraldursins.

Í tilkynningunni segir að lágvaxtaumhverfi skapi nýjar áskoranir fyrir starfsemi lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Þar sem lífeyrissjóðir séu ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði sé þörf á að skoða frekar umgjörð og áhættu tengda þeim.

Tilkynningin í heild sinni:

Baráttan við farsóttina er langdregnari en vonir voru bundnar við sem eykur óvissu og hefur neikvæð áhrif á útlánasöfn fjármálafyrirtækja. Mikilvægt er að fjármálafyrirtæki vinni markvisst að endurskipulagningu útlána og nýti það svigrúm sem aðgerðir Seðlabankans og stjórnvalda hafa skapað til að styðja við heimili og fyrirtæki.

Eiginfjár- og lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Aðgerðir Seðlabankans hafa rýmkað verulega aðgengi þeirra að lausu fé og vaxtaálag á erlendum lánsfjármörkuðum hefur lækkað. Bankarnir hafa því greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum. Þeir eiga því að búa yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við afleiðingar farsóttarinnar.

Lágvaxtaumhverfi skapar nýjar áskoranir fyrir starfsemi lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja. Lífeyrissjóðir eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og því er þörf á að skoða frekar umgjörð og áhættu tengda þeim.

Fjármálastöðugleikanefnd skal ársfjórðungslega ákveða gildi á sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Í samræmi við yfirlýsingu nefndarinnar frá 18. mars sl. hefur nefndin ákveðið að halda aukanum óbreyttum næstu 6 mánuði.

Slökun á taumhaldi peningastefnunnar hefur stutt við fjármálastöðugleika við núverandi aðstæður.

Nefndin ítrekar að hún er reiðubúin að beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK