„Þarf að endurskoða þetta frá grunni“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist taka undir orð Ásgeir Jónssonar seðlabankastjóra um að skoða þurfi allt lífeyrissjóðskerfið upp á nýtt, en þau orð lét Ásgeir falla á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun. Segir Ragnar að bæði þurfi að endurskoða hvernig stjórn sé skipuð í sjóðunum sem og kerfislega stöðu lífeyrissjóðanna í íslensku hagkerfi.

Vill að sjóðsfélagar kjósi stjórn beint

„Ég er algjörlega sammála Ásgeiri í þessu,“ segir Ragnar spurður um orð Ásgeirs, en Ásgeir hafði sérstaklega beint orðum sínum að því að vegna þess að hagsmunaaðilar, þ.e. bæði verkalýðsfélög og atvinnurekendur, væru að skipa stjórnarmenn í sjóðina gætu aðrir hagsmunir en sjóðsfélaga ráðið för.

Ragnar segir að í sínum huga sé málið ekki flókið. Sjóðsfélagar, eigendur sjóðanna, eigi að fá að kjósa beint um stjórnarmenn. Í dag sé staðan hins vegar sú að sjóðsfélagarnir sjálfir hafi hvað minnst um stjórn sjóðanna að segja.

Segir sjóðina hafa verið notaðar í þágu valdablokka

Segir hann að einfalt eigi að vera að breyta þessu með lagabreytingum, en hingað til hafi atvinnurekendur ekki viljað taka þetta skref. „Mér er alveg sama að gefa eftir skipunarsæti til sjóðsfélaga. En af hverju ætli þetta sé þá svona?“ spyr Ragnar og svarar sjálfur að atvinnulífið hafi ekki viljað gefa þessi völd eftir. „Þeir hafa notað sjóðina þegar illa gengur í atvinnulífinu og þeir eru mikilvægir í þeim valdablokkum sem eru í íslensku valdalífi,“ segir Ragnar. „Það hafa aðilar getað stýrt stórum félögum í skugga lítils eignarhluta,“ segir hann og vísar til að lífeyrissjóðirnir hafi verið þögulir eigendur.

Ragnar telur að það séu þó ekki bara skipunarmál stjórna sjóðsins sem þurfi að skoða. Það séu líka kerfislegar breytingar og stjórnkerfislegar breytingar. Þannig þurfi að velta fyrir sér hvort sjóðsöfnunarkerfið sem nú sé í gangi mun ganga upp til lengdar. Veltir hann fyrir sér hvort taka þurfi upp einhverskonar blöndu við sjóðsstreymiskerfi, sem finna má víða erlendis.

Æskilegt að erlend fjárfesting sjóðanna verði nær 80%

Tengt því þurfi að velta fyrir sér hvort trappa eigi niður fjárfestingar þegar aðstæður í hagkerfinu séu með þeim hætti að lítið sé um fjárfestingatækifæri. Í dag sé staðan þannig að lífeyrissjóðirnir séu orðnir allt of stórir innan hagkerfisins og að æskilegt væri til lengri tíma að erlend fjárfesting þeirra væri nær 80% af eignum sjóðanna en tæplega 40% eins og hún er í dag.

Ragnar segist gera sér grein fyrir að slíkt skref yrði þó erfitt, nema yfir lengra tímabil, því annars myndi gjaldmiðillinn hrynja.

Segir hann að staðan í dag, þar sem sjóðirnir séu stórir í flestum hlutafélögum búa til þá stöðu að stóru sjóðirnir geti illa hreyft sig. Nefnir hann í því samhengi að VR hafi átt erfitt með að hreyfa sig innan Icelandair, meðan minni fjárfestar og minni lífeyrissjóðir gátu gert það. Slík staða dragi úr frelsi fjárfesta til að hreyfa sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK