Reiðubúið að veita Norwegian ríkisaðstoð

Norwegian Air sést hér á leið til lendingar á Arlanda-flugvelli …
Norwegian Air sést hér á leið til lendingar á Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi. AFP

Norska ríkið er reiðubúið til að veita Norwegian Air ríkisaðstoð eftir að flugfélagið kynnti nýja aðgerðaráætlun um hvernig það ætli sér að standa af sér kórónuveirufaraldurinn. 

Iselin Nybø, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs, greindi frá þessu í dag en flugfélagið hefur orðið mjög illa úti í faraldrinum. Það glímdi einnig við fjárhagsvanda fyrir Covid-19. Norwegian sótti um greiðslustöðvun bæði í Noregi og Írlandi í desember. Það var gert til þess að hægt yrði að vinna að lausn fjárhagsvanda félagsins með aðkomu lánadrottna. 

Flugfélagið kynnti áætlanir sínar 14. janúar en þar kemur meðal annars fram að hætt verði að fljúga lengri flugleiðir og það muni einbeita sér að Evrópumarkaði.

Nybø segir þessa nýju áætlun mun kröftugri en sú sem var kynnt í október og þess vegna sé ríkið reiðubúið til þess að taka þátt og veita aðstoð. 

Hlutabréf Norwegian hækkuðu um tæp 16% í verði í morgun þegar þetta fréttist en þau eru samt sem áður 98% lægri en fyrir ári síðan. 

Ríkissjóður Noregs veitti flugfélaginu ríkisábyrgð fyrir sem nemur 3 milljörðum norskra króna í fyrra og er gert ráð fyrir að nú verði lán veitt sem hægt er að breyta í hlutafé síðar. Aftur á móti hefur ríkið ekki áhuga á að eignast Norwegian. 

Nybø segir að Norwegian þurfi fyrst og fremst á hluthöfum að halda sem eru með skýra framtíðarsýn. „Ríkið hefur engan metnað fyrir því að gerast hluthafi,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK