Besti árangur í fjárfestingum frá skráningu VÍS

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS. Mynd/mbl.is

Tryggingafélagið VÍS hagnaðist um 1,8 milljarð króna á síðasta ári og dróst hagnaðurinn því saman frá árinu 2019 þegar hagnaðurinn var 2,5 milljarðar króna. Undirliggjandi tryggingarekstur síðasta árs var góður, m.a. vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.

Iðgjöld síðasta árs breyttust lítið miðað við árið á undan en þau voru 22,5 milljarðar í fyrra en 23,3 milljarðar árið 2019. Fjárfestingartekjur jukust nokkuð og voru 5,3 milljarðar samanborið við 3,5 milljarða árið 2019. Arðsemi eigin fjár var jákvæð um 12% og lækkaði því um 5,2% milli ára. Hagnaður á hlut var 0,95 en var 1,33 árið áður.

Afkoma af vátryggingarekstri var þó neikvæð um 804 milljónir á fjórða ársfjórðungi samanborið við 240 milljóna króna jákvæða afkomu á sama tíma árið 2019.

Endurkaupaáætlun nemur 500 milljónum króna

„Árið 2020 var sérstakt fyrir margra hluta sakir. Undirliggjandi tryggingarekstur ársins var góður m.a. vegna áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Neikvæð matsþróun undanfarin ár leiddi til þess að aðferðafræði við tryggingafræðilega útreikninga á tjónaskuld var aðlöguð og endurskoðuð til að lágmarka neikvæða matsþróun til framtíðar. Styrking tjónaskuldar, matsbreytingar og endurskoðuð aðferðafræði er stærsta ástæða þess að tjónaskuldin hækkaði um tæpa þrjá milljarða króna sem hafði veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu síðasta árs,“ er haft eftir Helga í tilkynningu.

Stjórn félagsins hefur samþykkt endurkaupaáætlun að fjárhæð allt að 500 milljónir króna með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Þá leggur stjórn til við aðalfund félagsins að samþykkt verði arðgreiðsla til hluthafa upp á rúmlega 1,6 milljarð króna.

Fjárfestingaeignir námu 41 milljarði króna

„Árangur í fjárfestingum á síðasta ári var sá besti frá skráningu félagsins. Fjárfestingatekjur ársins voru 5,3 ma.kr. eða 14,0% nafnávöxtun yfir tímabilið. Skráð hlutabréf skiluðu rúmlega 35% ávöxtun á árinu. Erlend skuldabréf skiluðu góðri afkomu á fjórða ársfjórðungi, sem og árinu í heild,en erlendar fjárfestingar telja nú um 10% af heildarsafni félagsins. Þess ber að geta að þær eru gengisvarðar að fullu. Fjárfestingaeignir í lok ársins námu 41 ma.kr. Um 37% af safninu eru í hlutabréfum og þar af 27% í skráðum innlendum hlutabréfum,“ er einnig haft eftir Helga.

Kynningarfundur vegna uppgjörsins  fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 26. febrúar, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK