Norwegian Air tapaði 337 milljörðum árið 2020

Jacob Schram, forstjóri Norwegian Air, er ekki búinn að gefast …
Jacob Schram, forstjóri Norwegian Air, er ekki búinn að gefast upp þá að staða flugfélagsins sé mjög slæm. AFP

Lággjaldaflugfélagið Norwegian Air, sem sótt hefur um greiðslustöðvun bæði í Noregi og Írlandi, greindi í dag frá mettapi félagsins í ársuppgjöri síðasta árs. Tapið má að miklu leyti rekja til áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemina.

Flugfélagið tapaði 23 milljörðum norskra króna, um 2,2 milljörðum evra á síðasta ári, sem er 15 sinnum meira en tap ársins 2019. Það jafngildir um 337 milljörðum króna.

Flugfélagið átti 140 flugvélar fyrir faraldur og gerir ráð fyrir því að selja 87 vélar á næstunni, að því gefnu að kaupendur finnist, rifta leigusamningum og kaupum á nýjum vélum.

Þá vinnur félagið að því að semja um afskriftir skulda við helstu lánardrottna en markmiðið er að lækka skuldir úr 67 milljörðum norskra króna niður í 20 milljarða nkr.

Ef félaginu tekst að halda sér á floti verða töluverðar breytingar á leiðakerfinu en félagið hefur nú þegar gefið út að það muni hætta með lengri áætlunarflug og einbeita sér að styttri ferðum.

„2020 var fádæma erfitt ár fyrir flugiðnaðinn og fyrir Norwegian. Núna erum við að reyna allt til að koma okkur aftur af stað með meiri fjárhagslegan stöðugleika og betri samkeppnishæfni,“ sagði forstjóri Norwegian, Jacob Schram, í yfirlýsingu sem gefin var út samhliða uppgjörinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK