530 fasteignasalar að störfum á landinu

Mjóddin og Breiðholtið í Reykjavík.
Mjóddin og Breiðholtið í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Fimm hundruð og þrjátíu fasteignasalar starfa á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Félagi fasteignasala. Til viðbótar sitja 150 á skólabekk hjá Endurmenntun Háskóla Íslands til löggildingar í faginu. Þá eru 110 fasteignasölur á landinu. Þær eru af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá einyrkjum upp í stórar fasteignasölur með 30-40 fasteignasölum.

Eins og Kjartan Hallgeirsson formaður félagsins segir í samtali við Morgunblaðið varð stór breyting á umhverfinu þegar fest var í lög árið 2015 að allir sem hefðu milligöngu um fasteignaviðskipti þyrftu að hafa löggildingu til starfans.

Grétar Jónasson framkvæmdastjóri félagsins segir í samtali við Morgunblaðið, spurður um nýliðun í greininni, að búast megi við að 50-60 manns komi nýir inn í fagið á hverju ári. Fjöldinn sem stundar nám um þessar mundir sé þó óvenju mikill. „Áður en lögin voru sett árið 2015 voru kannski 70% allra sem störfuðu við fasteignasölu ófaglærð. Nú eru u.þ.b. 80% allra löggiltir fasteignasalar og um 20% starfsfólk sem er þeim til aðstoðar.“

Nemar með auknar heimildir

Að auki segir Grétar að nemar í löggildingu hafi auknar heimildir til að aðstoða fasteignasala, umfram óbreytt starfsfólk. „Lögin leiddu til þess að það fjölgaði mjög mikið í hópi löggiltra fasteignasala og ófaglærðir hafa að stórum hluta horfið úr faginu.“

Nokkur hluti ófaglærðra fór í nám þegar lögin voru sett og var þeim sem höfðu starfað lengi í greininni gert auðveldara fyrir að komast inn í námið. Til dæmis var ekki krafist stúdentsprófs, að sögn Grétars. „En eins og gefur að skilja heltust margir úr lestinni.“

Þónokkuð er um einyrkja á markaðnum sem sinna fasteignasölu samhliða öðrum störfum, þar á meðal lögmenn. „Hér áður fyrr fékkstu sjálfkrafa réttindi til að vera fasteignasali ef þú hafðir lögmannsréttindi. Svo er ekki lengur. Til dæmis eru núna 15-20 lögfræðingar í löggildingarnáminu, en þeir fá auðvitað hluta námsins metinn.“

50-60% háskólamenntaðir

Námið er fjögur misseri og er krefjandi að sögn Grétars. „Samsetning nemenda hefur breyst töluvert undanfarin misseri. Það er t.d. óvenjulega hátt hlutfall háskólamenntaðra eða á bilinu 50-60%.“

Fyrir utan lögfræðinám, er einhver sérstakur bakgrunnur betri en annar fyrir fasteignasala?

„Viðskipta- og markaðsfræðiþekking nýtist vel. Svo er ekki verra að þekkja vel til uppbyggingar fasteigna. Það eru til dæmis nokkrir iðnaðarmenn í náminu núna.“

Er fjöldi fasteignasala eðlilegur miðað við stærð markaðarins?

„Það sýnist sitt hverjum um það, en markaðurinn tekur á því í sjálfu sér. Eins og í öðrum greinum gengur betur hjá sumum en hjá öðrum er meira hark.“

Kjartan segir að hvergi sé meiri samkeppni en meðal fasteignasala og kúnninn njóti góðs af því. „En markaðurinn er sveiflukenndur. Það er annaðhvort of mikið eða of lítið framboð af fasteignum. Því er oft erfitt fyrir fólk að gera áætlanir.“

Meiri vinna en fólk heldur

Hann segir að það taki tíma að komast inn í fagið og ná stöðugleika og festu. „Ég held að flestir sem koma nýir inn átti sig á að þetta er miklu meiri vinna en þeir gerðu ráð fyrir fyrirfram og meiri kröfur eru gerðar til hvers og eins. Ég hef fengið töluvert af fólki í vinnu sem hefur gefist upp út af vinnuálagi. Fasteignasalar gera meira í dag en þeir gerðu fyrir 10-20 árum.“

Aðspurður segir Kjartan að menn keppi bæði í þóknunum en einnig á þekkingu og reynslu. „Þeir sem eru búnir að vera lengi hafa forskot.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK