Kolefnissporið 65% minna en 2016

Ölgerðin Egill Skallagrímsson.
Ölgerðin Egill Skallagrímsson. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Kolefnisspor Ölgerðarinnar hefur minnkað um 65% frá árinu 2016. Árangurinn má rekja beint til markvissra aðgerða fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ölgerðinni.

Orkuskipti í framleiðslu, rafbílavæðing bílaflota fyrirtækisins og bestun á leiðarkerfinu eru meðal þeirra verkefna sem leitt hafa til þess að 87% af starfssemi fyrirtækisins notar endurnýjanlega orku. Árið 2016 var það hlutfall 60%.

„Við vinnum sífellt að því að verða sjálfbær Ölgerð. Á síðasta ári kom fyrirtækið þannig með enn fleiri umhverfisvænar umbúðir á markað og markviss vinna starfsmanna í vöruþróun hefur skilað hollari valkostum til neytenda. Þá vöktu ferðatakmarkanir vegna Covid-19 faraldursins starfsfólkið einnig til meðvitundar um aðra valmöguleika en flugferðir og slík breyting á hugarástandi skilar sínu,“ er haft eftir Málfríði Guðný Kolbeinsdóttur, sem fer fyrir sjálfbærni Ölgerðarinnar.

Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni hjá Ölgerðinni.
Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni hjá Ölgerðinni. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfbærni skipti neytendur máli

Einnig kemur fram í tilkynningunni að langtímamarkmið Ölgerðarinnar sé að mæta núverandi þörf neytenda og jafnframt þeim kröfum að komandi kynslóðir geti mætt sínum þörfum til hagsbóta fyrir umhverfið og samfélagið.

„Viðskiptavinir Ölgerðarinnar og neytendur almennt gera sífellt meiri kröfur um að versla við sjálfbær fyrirtæki og slík fyrirtæki þurfa að hafa á hæfu starfsfólki að skipa sem leitar sífellt leiða til að gera enn betur. Ölgerðin horfir til framtíðar sem íslenskt framleiðslufyrirtæki sem hugar að sjálfbærni í allri virðiskeðjunni,“ segir Málfríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK