Krónan flytur í Borgartún

Krónan rekur 24 verslanir eftir breytinguna og tvær Kr. verslanir …
Krónan rekur 24 verslanir eftir breytinguna og tvær Kr. verslanir að auki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samvæmt heimildum mbl.is mun Krónan innan skamms opna nýja matvöruverslun í Borgartúni 26, þar sem fiskverslunin Fylgifiskar er nú til húsa.

Fylgifiskar verða eftir breytinguna einungis með eina verslun, á Nýbýlavegi 4 í Kópavogi, en þeirri verslun verður veitt andlitslyfting vegna breytinganna. 

Krónuverslunin í Borgartúni verður tuttugasta og fimmta verslun Krónunnar.

Uppfært

Í fréttinni var upphaflega talað um að Festi, móðurfélagi Krónunnar, hafi verið gert skylt að loka verslun sinni í Nóatúni, sem er steinsnar frá Borgartúni 26, vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið í tengslum við samruna félaganna sem ráku m.a. Krónuna, N1, Elko, Nóatún, Kjarval og vöruhúsið Bakkann árið 2017. 

Í athugasemd frá Samkeppniseftirlitinu segir engin skylda hafi hvílt á Festi til þess að selja verslun Krónunnar í Nóatúni í Reykjavík samkvæmt sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið.

„Var sá rekstur, ólíkt verslun félagsins á Hellu, ekki meðal þeirra eigna sem Festi lagði til að yrðu seldar frá félaginu til úrbóta á þeim samkeppnisröskunum sem samruni N1 og Festi hefði í för með sér, sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2019,“ segir einnig í athugasemd Samkeppniseftirlitsins.

Krónan hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem staðfest er að hún ætlar að opna nýja verslun í Borgartúni á fyrrihluta næsta árs. 

Verslunarrýmið verður um 700 fermetrar að stærð auk bakrýma og munu framkvæmdir á rýminu hefjast fljótlega, segir í tilkynningunni.

Krónan verður til húsa að Borgartúni 26.
Krónan verður til húsa að Borgartúni 26. Ljósmynd/Aðsend

Krónan rekur í dag 24 verslanir víðs vegar um landið, auk Snjallverslun Krónunnar og verður verslunin í Borgartúni því sú 25. í röðinni. 

„Við hlökkum mikið til að mæta aftur til leiks á þessu líflega svæði á besta stað í Reykjavík sem er í mikilli uppbyggingu. Enn sem áður verður í boði fjölbreytt vöruúrval á góðu verði þar sem lögð verður áhersla á ferskvöru, hollustu og umhverfismál. Svo munum við að sjálfsögðu innleiða þar snjöllu afgreiðslulausnina okkar Skannað og skundað. Það verður gott að komast aftur í hverfið - og vonum við að sú tilfinning sé gagnkvæm hjá okkar viðskiptavinum,” segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK