Líklegustu einhyrningarnir

Guðmundur Hafsteinsson og Guðmundur Kristjánsson á Slush.
Guðmundur Hafsteinsson og Guðmundur Kristjánsson á Slush.

Íslensku hugbúnaðarfyrirtækin Lucinity og Fractal 5 munu í dag kynna starfsemi sína á nýsköpunarráðstefnunni Slush í Helsinki í Finnlandi. Slush er ein stærsta ráðstefna af þessu tagi í Evrópu ár hvert.

Von er á tæplega níu þúsund gestum en fjöldinn er minni í ár vegna faraldursins. Alla jafna sækja Slush um tuttugu og fimm þúsund manns.

Hluti af Nordic Showcase

Kynning fyrirtækjanna tveggja er hluti af „Nordic Showcase“, eða Norrænum vettvangi, í lauslegri þýðingu. Tíu fyrirtæki, tvö frá hverju Norðurlandanna, eru valin inn í þann flokk á hverju ári. „Þetta eru þau fyrirtæki í löndunum fimm sem eru talin líklegust til að verða einhyrningar,“ segir Guðmundur Hafsteinsson framkvæmdastjóri Fractal 5 í samtali við Morgunblaðið.

Hugtakið einhyrningur er notað um ung fyrirtæki sem eru meira en einn milljarður Bandaríkjadala að markaðsvirði, jafnvirði 130 ma. kr.

Breiðþotur leigðar undir gesti

Meðal fyrirtækja sem áður hafa komið fram á Nordic Showcase eru kennslufyrirtækið Kahoot og danska leigubílafyrirtækið Bolt. Bæði félögin eru í dag orðin stórfyrirtæki.

„Slush er samkomustaður þar sem lítil sprotafyrirtæki, stærri tæknifyrirtæki, fjárfestar og annað áhugafólk hittist til að sjá það allra nýjasta í heimi nýsköpunar,“ útskýrir Guðmundur Hafsteinsson. „Oft hafa heilu breiðþoturnar verið leigðar undir gesti sem fljúga inn víðs vegar að úr heiminum, úr öllum heimsálfum.“

Guðmundur Kristjánsson segir að hann og nafni hans muni kynna fyrirtæki sín, vörur og framtíðarsýn á Norræna vettvangnum. „Yfirskriftin í ár er fyrirtæki sem safnað hafa minna en tíu milljónum dala í fjármögnun, sem á við fyrirtæki okkar beggja.“

Þeir nafnarnir eru sammála um að það sé talsverð upphefð í því fólgin að vera valdir til að tala á ráðstefnunni.

Spurður nánar um þýðinguna segir Guðmundur Hafsteinsson að það sé mikilvægt að ná augum og eyrum fjárfesta og annarra. „Við erum lítið sjö manna fyrirtækið að þróa samskiptalausnina Break. Ég mun bæði ræða þróun vörunnar, hvernig Break auðveldar fólki að eiga raunveruleg samskipti við stærri hóp af fólki en áður, en einnig hvernig ég sé fyrir mér að samkeppnisumhverfið sé að breytast. Í leiðinni ætlum við að setja í loftið nýja útgáfu af appinu okkar, sem hægt er að sækja í snjallsímann á break.is frá og með deginum í dag. Markmiðið er að koma okkur á kortið og halda svo áfram til sóknar.“

Finna framtíðarstarfsfólk

Guðmundur Kristjánsson segir að markmið hans sé að ná athygli nýrra fjártæknifyrirtækja. „Það er mikið að gerast í fjártækniheiminum og hundruðir nýrra fyrirtækja að verða til á hverju ári. Á ráðstefnunni verða margir fulltrúar slíkra fyrirtækja og við viljum ná í gegn hjá þeim.“

Einnig vonast Guðmundur til þess að ná athygli fjárfesta og framtíðarstarfsfólks. „Við erum alþjóðlegt fyrirtæki sem þurfum gott starfsfólk víða um heim. Slush er mjög góður vettvangur til að ná til þess.“

Blaðamaður biður nafnana að útskýra hvaða vörur og þjónustu Lucinity og Fractal 5 bjóða upp á. Guðmundur Hafsteinsson verður fyrri til svars. „Fyrirtækið er stofnað í upphafi faraldursins. Ég og meðstofnandi minn, Björgvin Guðmundsson, fórum að velta fyrir okkur hvernig við tölum við annað fólk og höldum sambandi við það í miðjum samkomutakmörkunum, þegar félagslífinu hefur verið kippt frá okkur. Við veltum fyrir okkur hvernig vinir, samstarfsfólk eða fjölskylda ættu að geta hist án mikillar fyrirhafnar, eiga óformleg samskipti og hvernig maður gæti rekist á fólk sem maður þekkti án þess að það þyrfti mikla skipulagningu, mörg textaskilaboð, símtöl eða senda eitthvað sem líktist formlegu fundarboði. Þó að það séu til ýmsir samfélagsmiðlar þá fannst okkur vanta miðil mitt á milli þess að senda beint skilaboð á fólk eða á alla vini á samfélagsmiðlum. Við viljum kalla okkur „Social life“ en ekki „Social media“, því þar er þitt raunverulega félagslíf eins og þú upplifir á kaffihúsinu.“

Guðmundur segir að til dæmis geti maður gefið menntaskólavinum, vinnufélögum og fleiri hópum merki um að vilja hitta þá. „Einhver réttir þá upp hönd ef hann er til í spjall. Break bætir félagslíf fólks og þú getur auðveldlega fylgst með hvað er að gerast í þínum vinahópum og meldað þig með ef þú hefur tíma og áhuga.“

Á blússandi siglingu

Lucinity á sér lítið eitt lengri sögu en Fractal 5 eins og Guðmundur Kristjánsson útskýrir. Fyrirtækið framleiðir gervigreindarhugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum að berjast gegn peningaþvætti. „Við erum á blússandi siglingu. Ég var einn árið 2019 en nú eru starfsmenn orðnir 48. Við erum komin með fjölda þekktra viðskiptavina og erum að fara að tilkynna um enn fleiri á næstunni. Einn af stóru viðskiptavinunum sem bættust við nýverið er Currencycloud sem greiðslumiðlunarfyrirtækið Visa keypti á dögunum á einn milljarð Bandaríkjadala.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK