Strætóskýli sem gleðja stóra sem smáa

Strætóskýlið við Sundlaugaveg í Laugardal hefur verið sett í nýjan …
Strætóskýlið við Sundlaugaveg í Laugardal hefur verið sett í nýjan búning en það lítur nú út eins og piparkökuhús. Kristinn Magnússon

Krónan hefur í samstarfi við auglýsingastofuna Tvist og Signa breytt tveimur strætóskýlum á höfuðborgarsvæðinu í piparkökuhús. Skýlin eru hluti af jólaherferð Krónunnar, „Ekkert ves í des“, sem hefur þann tilgang að gleðja fólk og kalla fram bros. Þetta segir Brynja Guðjónsdóttir, staðgengill markaðsstjóra Krónunnar, í samtali við mbl.is.

„Þegar jólaandinn fór að færast nær langaði okkur að gleðja bæði litla og stóra vegfarendur,“ segir Brynja.

Auglýsingastofan Tvist sá um útfærslu á hugmyndinni um piparkökustrætóskýlin.
Auglýsingastofan Tvist sá um útfærslu á hugmyndinni um piparkökustrætóskýlin. Ljósmynd/Aðsend

Eitt hús í Laugardal og annað í Hafnarfirði

Innt eftir því segir hún auglýsingastofuna Tvist hafa komið með útfærsluna á hugmyndinni en Krónan hafi svo unnið hörðum höndum með Signa að því að láta piparkökuhúsið lifna við.

Þá var hugmyndin og framkvæmdin einnig unnin í samstarfi við fyrirtækið Buzz, sem sér um rekstur biðskýla fyrir strætisvagna í höfuðborginni, að sögn Brynju.

Við þurfum að fylgja vissum skilyrðum frá Buzz hvað varðar öryggi farþega en þau voru meira en til í að leyfa okkur að láta hugmyndaflugið ráða för við hönnun skýlanna.“

Annað strætóskýlið er við Sundlaugarveg hjá Laugardalslaug og hitt er á gatnamótum Reykjavíkurvegs og Flatahrauns í Hafnarfirði og verða þau þar til og með 20. desember næstkomandi.

Hvers vegna urðu þessar tvær tilteknu staðsetningar fyrir valinu?

„Við völdum strætóskýlið í Laugardalnum því það býður upp á gott pláss til að ganga um og skoða skýlið. Þar er líka vanalega margt fólk á ferðinni og fannst okkur kjörið að ná til þeirra, hvort sem það er í bílnum, á leiðinni í sund eða í göngutúr. Síðan varð Hafnarfjörður fyrir valinu þar sem bærinn er þekktur jólabær og því tilvalið að skreyta eitt strætóskýli í anda jólanna í bæjarfélaginu.“

Piparkökuhúsin eru hluti af jólaherferð Krónunnar „Ekkert ves í des“.
Piparkökuhúsin eru hluti af jólaherferð Krónunnar „Ekkert ves í des“. Kristinn Magnússon

Vekja sérstaka lukku hjá yngri vegfarendum

Skýlin hafa fram að þessu vakið mikla lukku vegfaranda, sérstaklega hjá börnum, að sögn Brynju.

„Þá er takmarkinu náð. Okkar markmið var að kalla fram bros og er þetta verkefni í takt við áherslu Krónunnar um að reyna minnka jólastressið og kalla fram jólaandann, ekki aðeins í verslunum okkar heldur utan hennar líka.“

Mega borgarbúar eiga von á því að sjá fleiri strætóskýli skreytt með þessum hætti?

„Við ákváðum að skreyta aðeins tvö skýli þessi jólin en það er aldrei að vita nema fleiri strætóskýli fái álíka skreytingar næstu jól, sérstaklega í ljósi þess hversu jákvæð viðbrögðin hafa verið hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK