„Holskefla sem kom yfir okkur á einni nóttu“

Gríðarleg spurn var eftir þyrluflugi yfir eldgosið í Geldingadölum á …
Gríðarleg spurn var eftir þyrluflugi yfir eldgosið í Geldingadölum á meðan það stóð enn yfir. Ljósmynd/Heli Austria

Mikil áskorun reyndist fyrir íslensk þyrlufyrirtæki að anna spurn eftir útsýnisflugi yfir gosið í Geldingadölum á meðan það stóð yfir. „Eftirspurnin var gríðarleg,“ segir Þórunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri þyrlufyrirtækisins Heli Austria, í samtali við mbl.is.

Tuttugu ferðir yfir gossvæðið á hverjum degi

Aukinni eftirspurn fylgdu miklir vaxtaverkir en Heli Austria fór allt að tuttugu ferðir yfir gossvæðið á hverjum degi, að sögn Þórunnar.

„Það var mikið álag á alla starfsmenn og þurftum við að kalla út auka mannskap til að anna eftirspurn og sinna daglegum störfum.“

Hún segir það því hafa verið hálfgert lán í óláni að á sama tíma og gosið hófst hafi mikil uppsveifla verið í kórónuveirufaraldrinum og þar af leiðandi færri ferðamenn á landinu.

„Fyrst um sinn voru aðallega fréttamiðlar og ljósmyndarar sem fengu að fara í flug yfir svæðið. Þegar á leið nutu svo bólusettir eldri borgarar og fjölskyldur forgangs í flug á okkar vegum.“

Þyrlur Heli Austria við eldgosið í Geldingadölum.
Þyrlur Heli Austria við eldgosið í Geldingadölum. Ljósmynd/Heli Austria

Þótt faraldurinn hafi vissulega haft mikil áhrif á reksturinn hafi fyrirtækinu tekist vel til að laga sig að breyttum aðstæðum hverju sinni, að sögn Þórunnar.

„Sóttvarnir okkar voru og eru mjög sterkar. Þegar gosið stóð yfir reyndum við að forðast það að sameina ókunnuga í vélarnar og enn í dag biðjum við kúnna okkar að láta okkur vita ef þeir finna fyrir einhverjum covid-einkennum svo starfsfólkið okkar og aðrir kúnnar séu vel varðir.“

Lærðuð þið eitthvað af þessu æði í kringum eldgosið í Geldingadölum?

„Já, við lærðum alveg ótrúlega margt. Álagið var mikið og því var þetta gríðarlega góð æfing. Það var þó einstaklega ánægjulegt að sjá hvað allar öryggisráðstafanir gengu upp þegar á reyndi enda er öryggi ávallt í forgangi hjá okkur,“ segir Þórunn.

„Starfsfólkið var vel þjálfað, vann einstaklega vel saman og stóð vaktina með sóma. Við erum ávallt tilbúin í ný ævintýri og getum aukið umsvif og dregið saman eftir þörfum svo ég segi bara bring it on,“ bætir hún við.

Þurftu að rífa fyrirtækið upp á afturendanum

Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugi, tekur í sama streng og Þórunn og segir algera sprengingu hafa orðið í spurn eftir flugi með fyrirtækinu í kjölfar gossins.

„Við vorum þarna að reka fyrirtæki í miðjum heimsfaraldri sem við þurftum svo að rífa upp á afturendanum til að geta flogið 6-8 ferðir upp að gosi á dag. Það er ekkert einfalt fyrir flugfélag.“

Til að mæta aukinni eftirspurn þurfti að snarfjölga starfsmönnum hjá fyrirtækinu. Það eitt hafi verið áskorun út af fyrir sig, að sögn Birgis.

„Það þurfti allt að gerast á fáeinum vikum sem er ekki einfalt í flugrekstri því það felst mikil þjálfun í því sem við erum að gera. En við erum með svo gott teymi af fólki hjá okkur þannig við fundum leiðir til að gera þetta vel,“ segir hann.

Þessi fagurbláa „EC130“ þyrla Norðurflugs hefur farið ófáar ferðir yfir …
Þessi fagurbláa „EC130“ þyrla Norðurflugs hefur farið ófáar ferðir yfir eldgosið í Geldingadölum. Ljósmynd/Benjamin Hardman

Spurður segir Birgir fólk enn sækja í flug yfir gossvæðið, þrátt fyrir að lítið sem ekkert líf sé eftir í gosinu. Það sé þó í mun minna mæli en áður.

„Hvort það sé vegna þess að gosinu er lokið, það sé tregða hjá fólki til að ferðast vegna faraldursins eða vegna þess að dagsbirtan er mjög stutt á þessum tíma ársins veit ég ekki. Ég held það sé samblanda af þessum þáttum sem veldur því að fólk sæki minna þangað núna.“

Inntur eftir því segir Birgir starfsfólk Norðurflugs draga lærdóm af öllu því sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur, þar með talið flugferðum yfir eldgos.

„Við erum alltaf að verða betri og betri í þessu. Það hefði þó þurft að setja miklu stífara verklag hvað varðar flug yfir gos eins og var í Geldingadölum. Þar voru drónar, atvinnuflugmenn og einkaflugmenn allir í einu kraðaki, í tiltölulega litlu loftrými og hálf ótrúlegt að þar hafi ekki orðið óhapp.“

Hefðu viljað hafa fleiri þyrlur í flotanum

Sama var upp á teningnum hjá þyrluþjónustunni Helo en starfsfólk fyrirtækisins hafði hreinlega ekki undan við að svara fyrirspurnum fólks sem var æst í að fljúga yfir gosið á meðan það stóð enn yfir, samkvæmt Friðgeiri Guðjónssyni, framkvæmdastjóra Helo.

„Við vorum langt undir eftirspurn. Hún var miklu meiri en við náðum að anna. Sérstaklega framanaf, þá höfðum við hreinlega ekki undan við að svara bæði símtölum og tölvupóstum.“

Rétt eins og Heli Austria og Norðurflug þurfti Helo að ráða fleiri starfsmenn á meðan æsingurinn yfir gosinu var í hámarki. Inntur eftir því segir Friðgeir fyrirtækið einnig hafa íhugað að bæta þyrlum í flotann en að það sé hægara sagt en gert.

„Það var alveg skoðað en það tekur allt tíma. Að kaupa þyrlu er ekki eins og að kaupa bíl. Það getur verið nokkra vikna-, jafnvel mánaðarferli að ná sér í vél og koma henni svo til landsins.“

Þyrla Helo á ferð og flugi yfir eldgosinu.
Þyrla Helo á ferð og flugi yfir eldgosinu. Ljósmynd/Helo

Þó mun minna sé um bókanir í flug yfir gossvæðið núna er enn nóg að gera hjá Helo, að sögn Friðgeirs.

„Við erum bókaðir í flug á hverjum einasta degi þegar veður leyfir. Svo erum við að bæta tveimur vélum í flotann svo við verðum með þrjár á næsta ári.“

Helsti lærdómurinn sem starfsmenn Helo drógu af eldgosinu í Geldingadölum var það hve fljótt eftirspurnin getur breyst á stuttum tíma, segir Friðgeir inntur eftir því.

„Þessi holskefla sem kom yfir okkur á einni nóttu kom okkur mjög á óvart. Það var skrítið að fara úr rólegheitunum vegna faraldursins yfir í það að hafa ekki undan. Við hefðum allavega viljað hafa fleiri þyrlur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK