Sáttaleiðin orðin að bitbeini

Zaptec-hleðslustöð frá N1 í nýjum bílakjallara í Reykjavík. Sífellt fleiri …
Zaptec-hleðslustöð frá N1 í nýjum bílakjallara í Reykjavík. Sífellt fleiri kjósa nú rafbíla og hleðslustöðvum fjölgar hratt. mbl.is/Baldur

Þegar reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar var breytt árið 2019 var tekið mið af ábendingum og kvörtunum vegna fyrirkomulags við val á söluaðila raforku og söluaðilaskipta. Breytingarnar hafa hins vegar orðið tilefni nýrra deilna.

Nánar tiltekið hafa keppinautar N1 rafmagns [áður Íslenskrar orkumiðlunar] gagnrýnt verðlagningu fyrirtækisins sem söluaðila til þrautavara. Þvert á leiðbeinandi reglur Orkustofnunar hafi fyrirtækið ekki boðið lægsta verðið. Fulltrúar N1 rafmagns hafa brugðist við þessari gagnrýni með því að bjóðast til að endurgreiða mun á auglýstu og ásettu verði frá og með 1. nóvember síðastliðnum.

Skilið á milli

Við setningu raforkulaga árið 2003 var ákveðið að aðskilja flutning og framleiðslu á raforku og stuðla að samkeppni á markaði. Í kjölfarið voru settar ýmsar reglugerðir, m.a. reglugerð um raforkuviðskipti og mælingar sem tók gildi 2004. Var þar m.a. kveðið á um upphaf raforkuviðskipta og skipti á sölufyrirtæki. Reglugerðin var uppfærð með reglugerð nr. 1150/2019 og tók hún gildi í ársbyrjun 2020. Meginbreytingin var að auknar skyldur voru lagðar á sölufyrirtæki og dreifiveitur um að upplýsa neytendur um rétt sinn til að velja sér söluaðila, leiðbeina þeim með aðgengilegum hætti og gæta jafnræðis í hvívetna þannig að til dæmis væri ekki vakin athygli notenda á einu sölufyrirtæki umfram annað.

Úrskurðarnefnd raforkumála rekur forsögu þessara breytinga í úrskurði (nr. 3 2020) en þar er fjallað um athugasemdir Orkustofnunar varðandi tilefni þess að ákvæðið um söluaðila til þrautavara var sett. Átta fyrirtæki hafi þá selt rafmagn í smásölu á raforkumarkaði og voru sex þeirra tengd dreifiveitum.

Í úrskurðinum er rifjað upp að Orkustofnun hafi borist kvörtun frá Orku heimilanna „um að dreifiveitur brytu lög með því að setja alla nýja notendur rafmagns, án þess að kanna vilja þeirra, í sölu hjá því sölufyrirtæki sem væri í eignatengslum við dreifiveitu“. Að mati Orku heimilanna hefðu sölufyrirtæki tengd dreifiveitum samkeppnisforskot á önnur dreififyrirtæki enda hefðu þær frá upphafi hunsað ákvæði raforkulaga um söluaðilaskipti.

Settir sjálfkrafa í viðskipti

„Hafi dreifiveitur sett bæði alla nýja notendur neysluveitna sjálfgefið í viðskipti við tengt sölufyrirtæki og þótt notendur hefðu valið sér annan söluaðila en hið tengda sölufyrirtæki hafi notendur verið færðir gegn vilja sínum í viðskipti við sölufyrirtæki tengt dreifiveitu. Þannig hafi dreifiveitur viðhaldið markaðshlutdeild tengds sölufyrirtækis inni á sínu dreifiveitusvæði og komið í veg fyrir samkeppni,“ sagði í áðurnefndum úrskurði.

Niðurstaða Orkustofnunar hafi verið að allar dreifiveitur hefðu gerst brotlegar við ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. þágildandi reglugerðar (nr. 1050/2004) „með því að setja notendur í sjálfgefin viðskipti hjá tengdum sölufyrirtækjum ef viðskiptavinir hefðu ekki valið sér sölufyrirtæki, þeir flust innan dreifiveitusvæðis eða inn á svæðið frá annarri dreifiveitu“.

„Þá hafi komið fram sú afstaða dreifiveitna að þágildandi reglugerð hefði skapað mikla óvild hjá viðskiptavinum þar sem dreifiveitum hafi verið gert skylt að leggja á álag á viðskiptavini sem ekki hefðu valið sér söluaðila innan tilskilins frests,“ sagði um athugasemdir Orkustofnunar í umræddum úrskurði.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 27. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK