Lækkun fasteignaverðs ábending til lánveitenda

Lækkun fasteignaverðs í Noregi nam 2,2 prósentum í nóvember sem …
Lækkun fasteignaverðs í Noregi nam 2,2 prósentum í nóvember sem kemur sérfræðingum lítið á óvart. Yfirhagfræðingur DNB reiknar með verðhækkun með rísandi sól í vor, fasteignasali segir upplagt að kaupa núna. Ljósmynd/Wikipedia.org/John Christian Fjellestad

Lækkun fasteignaverðs í Noregi um 2,2 prósent í nóvember kom helstu sérfræðingum á þeim vettvangi ekki á óvart í heimi síhækkandi vaxta undanfarin misseri. Hins vegar benda þeir á að í þessari þróun felist ábending til lánveitenda um að auðvelda aðgengi að lánsfé til fasteignakaupa.

„Í raun hefði það komið okkur meira á óvart hefði verðið ekki lækkað,“ segir André Kallåk Anundsen, rannsakandi við Oslo Met-háskólann, „Nú sjáum við áhrif vaxtanna sem raunar tóku lengri tíma en reiknað var með.“

Hann bendir á að nú um stundir sé erfiðara að standast greiðslumat lánastofnana en áður þar sem margir umsækjendur nái ekki gegnum „álagsprófið“ svokallaða sem gengur út á að lántakandi geti staðið af sér fimm prósenta vaxtahækkun á lánstímanum miðað við tekjur sínar.

Álagsprófið óraunhæft

Grethe Meier, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Privatmegleren tekur í sama streng og Anundsen, lánakröfur dagsins séu einfaldlega of stífar til að fasteignamarkaðurinn gangi á öllum strokkum. Slaka þurfi á kröfunum eða hreinlega semja nýjar frá grunni.

„Með fimm prósenta álagsprófinu er ætlast til að þú getir staðið undir nær tíu prósenta vöxtum sem er ekki raunhæft að gerist nokkurn tímann,“ segir Meier og bætir því við að fallist bankarnir ekki á nýjar kröfur þurfi þeir að minnsta kosti að hækka kvótann á því hve mörgum umsækjendum þeir mega veita undanþágu frá kröfum sínum.

Sá kvóti er um þessar mundir átta prósent í Ósló og tíu annars staðar í Noregi. „Fasteignaverðslækkun á bilinu fimm til tíu prósent kæmi sér illa fyrir fjármálastöðugleikann. Nú er ekki verið að byggja mikið af íbúðarhúsnæði og þær framkvæmdir eru ekki á leið upp á við. Eigi vextirnir að nálgast verðbólgumarkmiðið verða fjármálaráðuneytið og seðlabankinn að líta á heildarmyndina,“ segir framkvæmdastjórinn.

Svipað og fyrir faraldur

Verðlækkunin kemur yfirhagfræðingi DNB-bankans, Kjersti Haugland, heldur ekki í opna skjöldu. „Þetta er algjörlega í samræmi við spár okkar. Greinileg lækkun er fullkomlega eðlileg með hliðsjón af örum vaxtahækkunum í sumar og haust auk þess sem nauðsynjavara hefur almennt hækkað í verði,“ segir hagfræðingurinn.

Hún segir lækkunina ekki eiga að koma sérstaklega á óvart. „Nú er verð og sölutími að nálgast það sem var fyrir heimsfaraldurinn,“ segir hún og vekur athygli á því að fjöldi fasteignaviðskipta í nýliðnum nóvembermánuði sé minni en tíðkaðist í faraldrinum en meiri en í nóvember 2019, rétt fyrir faraldur. Auk þess sé framboð íbúða ekki áberandi hátt um þessar mundir.

Haugland spáir lágu fasteignaverði áfram í vetur áður en það taki að rísa á ný með sólinni í vor þegar mesta óvissuástandið verði að baki.

Kjörinn tími til viðskipta

Meier hjá Privatmegleren er sammála því að verðlækkunin verði ekki langvinn. Fólk ákveði oft að bíða með kaup og sjá hvað gerist þegar fasteignaverð byrjar að lækka. Nú sé hins vegar kjörinn tími til fasteignakaupa.

„Þeir sem þora að fara inn á markaðinn núna munu standa með pálmann í höndunum. Nú er lag að sleppa við gagntilboð fram og til baka og semja strax við seljandann. Ég hugsa að gera megi mjög góð kaup næstu þrjá til sex mánuðina. Eftir það verður lækkunartímabilið líklega afstaðið,“ segir Meier.

E24

Dagens Næringsliv

Adressa

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK