„Öfug“ orkuskipti eiga sér stað á Íslandi

„Rafverktakar okkar hafa verið í öfugum orkuskiptum þvert á markmið stjórnvalda þar sem þeir hafa verið að aftengja rafmagn á fiskimjölsverksmiðjum og tengja aftur olíuna.“

Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í viðtali í Dagmálum þar sem rætt er um fyrirhuguð orkuskipti sem stjórnvöld vilja koma að fullu til leiðar fyrir árið 2040 eða á næstu 17 árum.

Árni Sigurjónsson, formaður SI er einnig gestur þáttarins og segir hann að það hafi komið nokkuð á óvart á Iðnþingi þegar ráðherrar töluðu eins og að meira hefði verið gert í átt að orkuskiptum ef skýrar hefði verið kveðið að orði um orkuskortinn sem blasir við nú um þessar mundir.

„Það er vont að vera eins og biluð plata nema ef lagið er gott þá er gott að spila það mjög reglulega. En við höfum verið að hamra á þessu síðustu ár líka og því var áhugavert að heyra ráðherrana tala um það, jæja ef menn hefðu talað svona skýrt fyrir nokkrum árum þá væri kannski meira búið að gerast. Ég veit það ekki en að okkar mati er búið að tala um þetta í býsna langan tíma og það er bara komið að þessari stundu að það verður mögulega að taka erfiðar ákvarðanir, en það verður að taka þær,“ segir Árni.

Auka þarf framleiðsluna um 80%

Á næstu 17 árum þarf að auka orkuframleiðslu í landinu um 80% ef orkuskipti eiga að komast til framkvæmda. Þá er ekki tekið tillit til aukinna þarfa iðnaðarins í uppbyggingarstarfi komandi ára. Sigurður segir að á næstu 5 til 10 árum sé lítið í pípunum sem bendi til þess að framleiðslan muni aukast til muna en að upp úr því verði vonandi meira að frétta. Að þessum tíma liðnum verða hins vegar aðeins 7 ár í að markmið um kolefnishlutleysi Íslands eiga að verða að veruleika.

„Það eru allir sammála meira og minna um markmiðið um orkuskipti. Við erum öll sammála um að það þurfi auka raforku til þess að fara í orkuskiptin. Sú orka sem við höfum núna dugar ekki til. Við getum deilt um stærðargráðuna og tíminn verður að leiða í ljós hvernig tækninni vindur fram. Getum við sparað meiri orku eða nýtt hana betur með fjárfestingum. Við þekkjum það ekki nákvæmlega. Stóra málið er hins vegar að við verðum að hefjast handa strax og meðgöngutími svona verkefna er býsna langur,“ segir Sigurður.

Árni segir að eina leiðin að markinu séu erfiðar ákvarðanir sem leiði til aukinnar orkuframleiðslu. Ekki sé raunhæft að draga úr afhendingu raforku til stóriðjunnar í landinu, enda myndi það kalla á skert lífsgæði í landinu og samdrátt á útflutningstekjum.

Í október í fyrra stóðu Samtök iðnaðarins ásamt verkfræðistofunni Eflu, Landsvirkjun og Samorku að opnun nýs vefs sem útskýrir á mannamáli hvað þurfi til svo að orkuskipti geti orðið. Vefinn má sjá hér:

Orkuskipti.is

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK