Reginn gerir yfirtökutilboð í Eik

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri …
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, og Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags. Samsett mynd

Stjórn fasteignafélagsins Regins hf. ætlar að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. Er þetta gert með það fyrir augum að sameina félögin, en verði tilboðið samþykkt myndu hluthafar í Eik eignast 46% hlut í Regin með útgáfu nýs hlutafjár í Regin. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar núna eftir miðnætti.

Þar segir að skiptahlutfallið endurspegli markaðsvirði hvors félags fyrir sig miðað við síðasta viðskiptaverð í viðskiptum í dag. Markaðsvirði Eikar var í dag metið á 35,5 milljarða en markaðsverð Regins á 41,6 milljarða. Sameiginlegt markaðsvirði félaganna tveggja yrði, miðað við gengi þeirra á markaði í dag, um 77 milljarðar króna. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair nú um 76 milljarðar króna og virði Kviku banka um 79 milljarðar króna.

Að mestu í eigu lífeyrissjóða

Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur Regins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) á um 11,4% hlut í félaginu, Lífeyirssjóður verslunarmanna (LIVE) um 10,6% hlut, Birta um 9% hlut, Brú um 8,6% og Gildi tæp 8%.

Stærsti eigandi Eikar er eignarhaldsfélagið Brimgarðar ehf., dótturfélags Langasjós, sem er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Systkinin er iðulega kennd við fyrirtækið Mata og Matfugl. Brimgarðar eiga um 16,5% hlut í Eik. Þá heldur Arion banki á tæplega 10% hlut (það má ætla að það sé fyrir hönd viðskiptavina í gegnum framvirka samninga) og lífeyrissjóðurinn Gildi um 9,5% hlut.

Brimgarðar yrðu að öllu óbreyttu stærsti hluthafi sameinaðs félags, með um 9,6% hlut. Aftur á móti munu lífeyrissjóðir eiga um 55% hlut í sameinuðu félagi.

Meirihluti hluthafa Eikar jákvæður

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að forsvarsmenn Regins hafi nálgast stóra hluthafa í Eik með markaðsþreifingum og lýst mögulegum viðskiptum og framtíðarsýn fyrir sameinað félag. Í kjölfarið hafi hluthafar sem fara með meirihluta hlutafjár Eikar lýst yfir jákvæðum viðbrögðum gagnvart áformunum.

„Með viðskiptunum verður til stærsta skráða fasteignafélag landsins með getu til að leiða uppbyggingu sjálfbærra kjarna og sérhæfingu á sviði útleigu og fasteignarekstrar til að mæta auknum kröfum viðskiptavina. Félagið hyggst sækja fram undir nýju nafni,“ segir í tilkynningunni.

Áætla 300-500 milljóna samlegðaráhrif

Þá segir að Reginn áætli að árleg samlegð geti numið 300-500 milljónum þegar frá líður. Jafnframt segir að gangi viðskiptin eftir megi gera ráð fyrir því að „fasteignasafn Eikar verði straumlínulagað með hliðsjón af stefnumörkun Regins um uppbyggingu á sterkum kjörnum og sjálfbærni.“ Felur það í sér sölu ákveðinna eigna auk þess að þær eignir sem teljast til þróunareigna verða þróaðar í samstarfi við sérhæfðan aðila með það að markmiði að hámarka verðmæti.

„Reginn hefur byggt upp skilgreindan farveg fyrir þróunareignir í samstarfi við Klasa sem er eitt reynslumesta fasteignaþróunarfélag landsins. Gert er ráð fyrir að um þriðjungur af stærð eignasafns Eikar falli undir ofangreinda straumlínulögun sem ráðgert er að geti tekið allt að 36 mánuði,“ segir í tilkynningunni.

Eignir á sömu kjarnasvæðum

Halldór Benjamín Þorbergsson tók nýverið við sem forstjóri Regins, en haft er eftir honum að með auknu bolmagni væri t.d. hægt að ráðast í uppbyggingu þjónustuíbúða fyrir eldri aldurshópa.

„Við sjáum fyrir okkur nýja sókn þessara tveggja félaga undir nýju nafni og merki. Uppbygging höfuðborgarsvæðisins er þjóðhagsleg áskorun sem krefst sterkra bakhjarla. Íbúafjöldi höfuðborgarsvæðis hefur aukist um 45 þúsund frá árinu 2012 og samkvæmt spám mun þeim fjölga um 40 þúsund til ársins 2040. Það þýðir verulega aukna verslun, fjölgun skrifstofa og þörf fyrir margs konar annað atvinnuhúsnæði. Þá kallar breytt aldurssamsetning þjóðarinnar á fasteignafélag með mikið bolmagn, til dæmis til að byggja upp þjónustuhúsnæði fyrir eldri aldurshópa. Við höfum lagt áherslu á opinbera aðila og skráð fyrirtæki sem viðskiptavini og stefnum á að yfir 40% tekna félagsins komi frá þessum aðilum. Félagið verður á meðal stærstu félaga í kauphöllinni og álitlegur fjárfestingarkostur fyrir þá sem vilja taka stöðu með íslensku efnahagslífi og fjárfesta í félagi með blöndu af verðtryggðu og veltutengdu fjárflæði,“ er haft eftir honum.

Haft er eftir Tómasi Kristjánssyni, stjórnarformanni Regins, að bæði félögin eigi eignir á sömu kjarnasvæðum, eins og í Smáranum, miðborg Reykjavíkur og í Borgartúni. „Þetta verður sterkt félag með eftirsóttar lykileignir, litla endurfjármögnunarþörf næstu tvö árin og gott orðspor á sviði sjálfbærni. Útkoman er stærra félag með skýra stefnu sem getur boðið viðskiptavinum betri lausnir með aukinni arðsemi og félag sem höfðar til fjölbreyttari hóps fjárfesta,“ er haft eftir honum.

Boða hluthafafund á næstu vikum

Nánari upplýsingar um tilboðið verða birtar á næstu vikum að fengnu samþykki fjármálaeftirlits Seðlabankans. Tilboðið verður meðal annars háð skilyrðum um að samþykki fáist frá viðeigandi yfirvöldum, svo sem Samkeppniseftirlitinu, og að handhafar að lágmarki 67% atkvæðaréttar Eikar samþykki tilboðið.

Stjórn Regins hyggst á næstu dögum boða til hluthafafundar í félaginu. Á fundinum, sem mun fara fram á næstu vikum, verður meðal annars kosið um tillögu um að veita stjórn heimild til útgáfu nýs hlutafjár í Regin til þess að standa við uppgjör á tilboðinu.

Yrði stærsta fasteignafélagið

Reginn á í dag um 100 fasteignir sem eru alls um 373 þúsund fermetrar. Reginn og Eik eru tvö af þremur fasteignafélögum sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallarinnar, en auk þeirra er þar félagið Reitir. Markaðsverðmæti Reita er um 57 milljarðar og yrði sameinað félag því um þriðjungi stærra en Reitir. Þá er Kaldalón skráð á First North markaðinn en hefur gefið út að félagið stefni á Aðalmarkað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK