Ásgeir Jónsson: Var ekki að vísa í tveggja manna tal

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fjallaði í viðtalinu almennt um samskipti þessara tveggja embætta, Seðlabankans og ríkissáttasemjara, en ekki í tveggja manna tal eins og haldið hefur verið fram.“

Þetta segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í samtali við Morgunblaðið. Nokkuð hefur verið fjallað um viðtal sem birtist við Ásgeir í Morgunblaðinu í gærmorgun, fimmtudag.

Í viðtalinu er meðal annars rætt um ábyrgð aðila vinnumarkaðarins og rifjað upp hversu erfiðlega gekk að klára gerð kjarasamninga í vetur. Ásgeir greinir frá því í viðtalinu að ríkissáttasemjari hafi reynt að hafa áhrif á vaxtaákvarðanir Seðlabankans og það hvenær vaxtaákvörðunarfundir yrðu haldnir. Þessi ummæli Ásgeirs hafa sem fyrr segir vakið athygli og hafa margir gagnrýnt hann fyrir að vísa í tveggja manna tal.

„Ég var ekki að vísa í trúnaðarsamtal tveggja manna, heldur samskipti á milli þessara embætta sem fyrr segir. Það hefur áður komið fram í fjölmiðlum, og fyrrverandi ríkissáttasemjari hefur upplýst um það sjálfur opinberlega, að samskipti hafi átt sér stað á milli þessara tveggja embætta. Sú upplýsingagjöf var algerlega í óþökk minni enda var Seðlabankinn gerður að blóraböggli fyrir því að slitnað hefði upp úr viðræðum á þessum tíma,“ segir Ásgeir þegar hann er beðinn um að útskýra þetta nánar.

„Það hvað átti sér stað í þessum samskiptum er ekki aðalatriði, heldur miklu frekar að þau hafi átt sér stað með þessum hætti. Seðlabankinn á ekki að þurfa að sæta þrýstingi utanaðkomandi aðila, hvort sem um er að ræða stjórnvöld, önnur embætti ríkisins eða aðilar vinnumarkaðarins,“ segir Ásgeir.

Greindi sjálfur frá samskiptum við Seðlabankann

Hvað fjölmiðlaumfjöllun varðar frá þessum tíma og spurður nánar um það hvernig ríkissáttasemjari vísaði í fyrrnefnd samkipti, þá vísar Ásgeir til fréttaflutnings frá því í lok nóvember á síðasta ári, nánar til tekið 24. og 25. nóvember, í kjölfar ákvörðunar Seðlabankans um að hækka stýrivexti daginn áður, 23. nóvember. Sú ákvörðun bankans setti kjaraviðræður, sem þá voru á viðkvæmum stað í uppnám og var viðræðum slitið í kjölfarið. Fimmtudaginn 24. nóvember boðaði forsætisráðherra aðila vinnumarkaðarins til fundar í stjórnarráðinu í þeim tilgangi að fá þá aftur að samningaborðinu.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sama dag upplýsti Aðalsteinn Leifsson, sem þá var ríkissáttasemjari, að embættið hefði verið í samskiptum við Seðlabankann.

„Það er eitt af hlutverkum ríkissáttasemjara að halda stjórnvöldum og öðrum upplýstum um framgang viðræðna hér. Það er alveg hárrétt að seðlabankastjóri var upplýstur um framgang viðræðna hér í þessu húsi,“ sagði Aðalsteinn í fréttatímanum.

Daginn eftir, föstudaginn 25. nóvember, var fjallað um stöðu viðræðna í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins (RÚV). Þar var rætt við Aðalstein sem sagði að samningsaðilar hefðu verið í góðu samtali.

„Síðan var það þannig að í stað þess að gefa eðlilegt svigrúm fyrir þetta samtal þá var upplifun aðila beggja vegna borðsins að Seðlabankinn hafi með ákvörðun sinni, og sérstaklega yfirlýsingu Seðlabankastjóra, gert viðræður sem voru erfiðar og flóknar ennþá erfiðari og flóknari fyrir aðila báðu megin borðsins,“ sagði Aðalsteinn í fréttatímanum.

Spurður um það hvort að útspil Seðlabankans hefði haft þau áhrif að upp úr viðræðum slitnaði svaraði Aðalsteinn því til að Seðlabankinn væri sjálfstæð stofnun og það beri að virða.

„En Seðlabankinn er ekki eyland, og við þurfum öll að vinna saman og vera þátttakendur í virku samtali til þess að ná þessu markmiði, að ýta upp lífskjörum og á sama tíma ná stöðugleika og ná hér niður vöxtum,“ bætti Aðalsteinn við.

Fréttamaður RÚV spurði Aðalstein í framhaldinu hvort hann væri að kalla eftir því að Seðlabankinn gefi samningsaðilum svigrúm til að reyna að ná samningum áður en vextir yrðu aftur hækkaðir.

„Punkturinn er þessi að við höfum öll hlutverk í þessu samfélagi. Það er algjört lykilatriði að við virðum ábyrgð og vinnu hvors annars [...] við þurfum öll að gæta þess að sýna ábyrgð og virðingu og það á einnig við um seðlabankastjóra,“ var svar Aðalsteins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK