Einstakt tækifæri fyrir ástríðufullt ungt fólk

Blómleg stúlka hér á ferð.
Blómleg stúlka hér á ferð.

Lokahátíð Skapandi sumarstarfa í Kópavogi verður haldin í Molanum, Hábraut 2, klukkan 20 í kvöld. Á hátíðinni kennir ýmissa grasa en auk léttra veitinga og listaverkasýninga verður meðal annars boðið upp á heimildarmyndina „200 Hjólabretti“, prjónalistamaðurinn Ýr Jóhannsdóttur sem hefur hannað fyrir Reykjavíkurdætur mun flytja gjörning og hópurinn Dúó mun frumflytja raftónlistarverk.

 „Skapandi sumarstörf eru dásamlegt verkefni. Það er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvað það er mikil lyftistöng fyrir samfélagið að auka hlutfall bæjarlistamanna yfir sumartímann en enn fremur hvað það er einstakt tækifæri fyrir ungt fólk að vinna sjálfstætt að eigin listsköpun,“ segir Sólveig Ásta Sigurðardóttir, umsjónarmaður Skapandi sumarstarfa í Kópavogi, og bendir á að mikill fjöldi þeirra listamanna sem Íslendingar njóta í dag tóku sín fyrstu skref í Skapandi sumarstörfum hjá sínu bæjarfélagi.

 „Í ár fengum við sérlega margar og vandaðar umsóknir,“ segir Sólveig. Hún segir að 13 verkefni hafi verið valin en þátttakendur eru alls 28 talsins og á aldrinum 18 til 25 ára. „Það getur verið virkilega erfitt að velja úr umsóknum en á endanum er nauðsynlegt að hafa fjölbreyttan hóp verkefna sem hvert um sig hefur skýra stefnu,“ segir Sólveig og tekur fram að heildarsvip starfsins sé ætlað að endurspegla þann fjölbreytileika sem einkennir menningu ungs fólks í Kópavogi. Eins segir hún tímaáætlanir umsækjenda spila inn í auk þess sem rík áhersla sé lögð á að hafa kynjahlutfall hópsins sem jafnast. „Enn fremur snýst þetta um að finna einstaklinga sem hafa ástríðu fyrir verkefnum sínum en von okkar er að hugmyndir þeirra munu hafa áhrif á samfélagið um ókominn tíma.“

„Sveigjanleiki er dyggð“

Fjölbreytni innan hópsins er svo sannarlega áberandi en hann er byggður upp af ungum listamönnum úr öllum áttum t.a.m. tónlistarmönnum, vöruhönnuðum og kvikmyndagerðarmönnum auk hóps sem hefur smíðað sinn eigin spilakassa.

„Í ár er eftirtektarvert hversu mörg verkefni voru yfirgripsmikil og byggðu á samvinnu ólíkra þátta. Einn hópurinn, tveir klarinettuleikarar, fengu á annan tug tónsmiða til að semja verk fyrir sig en síðan frumfluttu þær verkin í óhefðbundnum rýmum í Kópavogi. Þannig virkjuðu þær listamenn í kringum sig en lögðu sig einnig fram um að koma verkum þeirra áfram til fólks sem myndi ekki endilega sækja tónleika þar sem klassísk nútímatónlist er leikin,“ segir Sólveig. „Einnig tökum við eftir að það er mjög mikil gróska í kvikmynda- og stuttmyndagerð. Því var frábært að einn hópurinn gat komið til móts við unga kvikmynda- og stuttmyndagerðarmenn og skipulagt fyrstu stuttmyndahátíð Molans, ungmennahúss í Kópavogi,“ segir Sólveig en umrædd hátíð bar yfirskriftina Gullmolinn og var haldin 17. júlí síðastliðinn  í samstarfi við kvikmyndahátíðina RIFF.

Spurð hvort sumarið hafi gengið snurðulaust fyrir sig segir Sólveig vissulega alltaf vera eitthvað sem betur má fara enda sé það hluti af sköpunarferlinu og góður skóli. „Það getur verið mjög krefjandi að setja sér verkefni sem hægt er að klára á átta vikum og stundum ganga áætlanir ekki upp. Einnig geta verkefnin tekið aðra stefnu en upphaflega var lagt upp með. Í sumar setti veðrið auðvitað strik í reikning margra hópa sem höfðu ætlað að vinna utandyra en það er hluti af því að búa á Íslandi, sveigjanleikinn er dyggð.“

Sólveig Ásta segir Skapandi sumarstörf mikla lyftistöng fyrir samfélagið.
Sólveig Ásta segir Skapandi sumarstörf mikla lyftistöng fyrir samfélagið.
Hjólabrettamenning í Kópavogi var viðfang þessara herramanna.
Hjólabrettamenning í Kópavogi var viðfang þessara herramanna.
Sigurvegarar Gullmolans ásamt dómurum.
Sigurvegarar Gullmolans ásamt dómurum.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler