Mikilvægt að lyfta keppninni á hærra plan

Verzlunarskóli Íslands sigraði í MORFÍs í fyrra.
Verzlunarskóli Íslands sigraði í MORFÍs í fyrra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Úrslit MORFÍs ráðast á föstudaginn kemur þegar lið Flensborgarskólans mætir liði Menntaskólans við Sund. Athygli vekur að kynjahlutföll keppenda eru jöfn en í liði MS eru þrír keppendanna kvenkyns og í liði Flensborgar er einn kvenkynskeppandi. Aðeins tvisvar sinnum áður hefur sú staða komið upp í tuttugu ára sögu MORFÍs, fyrst árið 1994 og svo aftur árið 1995. 

„Við fyrstu sýn lítur út fyrir að vera góð þróun í kynjahlutföllum,“ segir Tryggvi Björnsson, stjórnarmaður í MORFÍs. „Ég vona að fólk í MORFÍs sé hætt að hugsa um kyn því það á ekki að skipta máli. Fullt jafnrétti kynjanna næst ekki fyrr en allir hætta að hugsa um hvort maður sé karl eða kona og meta mann frekar að eigin verðleikum, þá hlýtur þetta að núllast út.“

Kynjahlutfall í keppninni í ár var langt því frá jafnt en þó nokkuð nær lagi en í öðrum keppnum framhaldsskólanna á milli svo sem Gettu betur og Söngkeppni framhaldsskólanna. Í þeim 19 liðum sem tóku þátt voru 29 keppendanna kvenkyns en 47 karlkyns. Í þeim 17 keppnum sem fram fóru var ræðumaður kvöldsins hinsvegar 12 sinnum kvenkyns en aðeins fimm sinnum karlkyns.

Tryggvi telur ekki þörf á kynjakvótum í MORFÍs sem stendur en eins og frægt er orðið munu framhaldsskólarnir þurfa að skipa í Gettu betur eftir kynjakvótum á næsta skólaári.

„Það er frábært ef kynjakvótar geta gefið fyrirmyndir þegar það hallar verulega á annað kynið en við getum ekki búið við kynjakvóta að eilífu,“ segir Tryggvi en hann telur gott gengi stúlkna í keppninni geta blásið öðrum stúlkum keppnisandann í brjóst.

Þrátt fyrir batnandi kynjahlutfall í keppninni liggja þó fyrir stjórn MORFÍs önnur málefni kynjanna sem Tryggvi segir mikilvægt að finna lausn á. Fyrr í vetur spannst mikil umræða um siðareglur keppninnar þegar stúlka í liði MA varð fyrir áreitni af hálfu liðsmanns MÍ bæði á meðan á keppni stóð og fyrir hana. Í kjölfarið komu fram fleiri stúlkur sem einnig höfðu orðið fyrir áreitni sem keppendur í MORFÍs. Tryggvi segir stjórn MORFÍs skorta úrræði til að grípa til þegar svona mál koma upp.

„Við töluðum mikið saman eftir þetta og við stjórnin höfum ákveðið að á næsta aðalfundi MORFÍs verði þetta tekið rækilega fyrir og lögð verði drög að siðarreglum,“ segir Tryggvi. „Það þarf að setja keppnina á hærra plan. Svona hegðun er algjörlega ólíðandi og MORFÍs á að vera fyrirmyndarkeppni þegar kemur að því að vera málefnaleg og sýna virðingu.“

Tryggvi segist vita til þess að margir hafi óbeit á keppninni og tengi hana gjarnan við stjórnmál. Hann segir of oft gleymast að MORFÍs geti fært fólki víðtæka þekkingu og hæfileikann til að nálgast viðfangsefnin frá ólíkum sjónarhólum. Þess vegna sé mikilvægt að keppendur sýni hver öðrum virðingu.

„Það skiptir engu máli hvaða kyn er uppi í pontu,“ segir Tryggvi. „Ég held að áhuginn hjá kynjunum sé jafn. Þegar stúlkur eru í meirihluta í liði er fólk almennt opið fyrir því og það er helst að minnst sé á hvað það er óvenjulegt, en af hverju ætti  það að vera óvenjulegt?“

Tryggvi Björnsson er stjórnarmaður í MORFÍs
Tryggvi Björnsson er stjórnarmaður í MORFÍs Atli Arnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant