Kennararnir banka upp á um helgar

Náinn vinskapur myndast meðal staðnema á Hólum.
Náinn vinskapur myndast meðal staðnema á Hólum.

Nú þegar líða tekur að voru er margur menntaskólaneminn eflaust farin að íhuga næstu skref á skólagöngu sinni. Á Íslandi eru alls sjö háskólar en sá minnsti er Háskólinn á Hólum. Anna Margrét Jakobsdóttir er formaður Stúdentafélags Hólaskóla og hún segir gríðarlega heillandi að fá að stunda nám í jafn litlu og kósý samfélagi. 

„Mér finnst fátt eins notalegt og að geta gengið um skólann og alltaf mætt fólki sem ég kannast við eða þekki. Mér finnst líka mikill stuðningur í því að geta gengið inn á skrifstofuna hjá starfsfólki og kennurum svona nánast eftir hentisemi, ekki bara til þess að ræða um skólann endilega, það er bara eitthvað svo heimilislegt,“ segir Anna Margrét. 

 Anna segir samskipti við kennara almennt mjög góð enda sé einstakt að vita að háskólakennarinn sinn þekki alla með nafni. „Svo rekst maður nú einstaka sinnum á þá á Bjórsetri Íslands og það getur myndast þrælgóð stemning meðal nemenda og kennara þar.“ Hún segir kennurum þó haldið utan við félagslífið að mestu leiti ef frá er talið þegar þeir banka upp á um helgar og biðja um svefnfrið. „Það er kannski svona óbein þátttaka í félagslífinu,“ segir Anna Margrét og hlær.

Anna segist í raun hafa endað í skólanum fyrir slysni. Hún þekkti engann haustið 2012 þegar hún hóf nám við skólann í ferðamálafræði og viðburðarstjórnun en það var fljótt að breytast og fyrir jólinn 2012 var hún orðinn formaður stúdentafélagsins.

Frábært félagslíf í fámennum hópi

Um 200 manns sækja nám við skólann en langflestir eru fjarnemar. Ferðamálafræðin er stærsta námsbrautin innan skólans og segir Anna um 15 til 20 staðnema vera í greininni hverju sinni. „Fyrir vikið erum við nánari sem hópur myndi ég segja. Svo eru náttúrulega krakkarnir í hestafræðinni öll á staðnum og þau gefa að sjálfsögðu lífinu lit. Fiskeldisfræðin er líka fátækleg þessa stundina, en við trúum því að það muni breytast smátt og smátt.“

Flestir staðnemanna búa á Hólum en þar er hægt að leigja allt frá einstaklingsherbergjum og upp í fjögurra manna íbúðir. „Við höfum oft fengið spurningar eins og hvort það sé ekki ótrúlega dýrt að búa hér, ég get aldrei séð afhverju það ætti að vera dýrara að búa hér en í bænum. Ég held að þetta sé bara í heildina ódýrara, þ.e.a.s ef þú ert ekki að leigja stíu undir hestana þína,“ segir Anna.

 „Félagslífið er mjög gott og við hjá Stúdentafélaginu reynum að passa okkur að halda viðburði nógu oft, án þess samt að fólk fái leið á því,“ segir Anna Margrét og hlær. Hún nefnir í því samhengi pubquiz og íþróttamót og í fyrra var í fyrsta skipti farið í vísindaferð á Akureyri sem þykir sérlega góð viðbót við félagslífið. „Svo er það bara þetta klassíska; árshátíð og jólahlaðborð þar sem deildirnar mæta með þrælskemmtileg skaup og gera grín af ákveðnum atburðum, kennurum eða vinum,“ segir hún og bætir við að allt þetta verði svo sannarlega til þess að fólk dragi sig saman og að Hólapörin hafi eflaust verið ansi mörg í gegnum tíðina. 

Anna Margrét segir langt því frá aðeins sveitakrakka á Hólum enda sé skólinn ekki bændaskóli eins og áður. „Ég held að Háskólinn á Hólum sé ekkert meiri svona sveitaskóli heldur en bara Háskólinn á Akureyri sem dæmi,“ segir Anna Margrét og áréttar að meirihluti nemenda komi einmitt af höfuðborgarsvæðinu. 

„Ég hef eignast rosalega góða vini hérna og vini sem ég hef mikla trú á að verði vinir mínir fyrir lífstíð. Ég held að það séu áhrifin af því hvað staðurinn er lítill, það myndast sterkari bönd.“

Litlu gæjarnir yrðu undir

„Mér finnst ferðamálafræði snilld,“ segir Anna um námið. „Þetta er svo margslungið nám, mér finnst ég eiginlega vera að læra bara allt. Við tölum meðal annars um markaðsfræði, fjármál, hvernig á að búa til göngustíga og leggja á borð. Mér finnst þetta opna gríðarlega mikla möguleika fyrir mig upp á mastersnám að gera.“

Eins og áður segir eru staðnemarnir ekki margir og Anna segir það mikinn kost að tímarnir séu fámennir. „Kennarinn kemst ekki upp með að sýna okkur ekki athygli sem nemendum og eins komumst við ekki upp með að sýna kennurunum okkar þeirra verðskulduðu athygli.“ 

Þegar talið beinist að hugmyndum um sameiningu Hólaskóla og Háskóla Íslands er Anna Margrét frekar á bremsunni líkt og flestir aðrir nemendur á Hólum. 

„Ég held að við litlu gæjarnir hérna á Hólum yrðum kannski svolítið undir, án þess kannski að hafa eitthvað mikið fyrir mér í því. Þegar maður er lítill þá þarf maður oft bara að vera aðeins háværari og ekki liggja á sínu,“ segir Anna Margrét.

Hvað framtíðina varðar segist Anna Margrét sjá ýmislegt fyrir sér en nefnir bæði hótelbransann og ferðaskrifstofurekstur sem áhugaverða möguleika. Eftir fyrsta árið sitt í skólanum fékk hún landvarðarréttindi og hún segir ekki loku fyrir það skotið að hún verði landvörður einhversstaðar á hálendinu.

Anna Margrét er formaður Stúdentafélags Hólaskóla
Anna Margrét er formaður Stúdentafélags Hólaskóla
See no evil, say no evil, hear no evil...smell no …
See no evil, say no evil, hear no evil...smell no evil?
Þessar stúlkur eru sérlega sáttar á Hólum.
Þessar stúlkur eru sérlega sáttar á Hólum.
Þessar misstu sig gjörsamlega í Bingó
Þessar misstu sig gjörsamlega í Bingó
Herramenn Hóla stilla sér upp á árshátíð skólans.
Herramenn Hóla stilla sér upp á árshátíð skólans.
Glæsilegur hópur.
Glæsilegur hópur.
Sáttir á kantinum.
Sáttir á kantinum.
Sveitalífið er með því ljúfara sem gerist eins og sjá …
Sveitalífið er með því ljúfara sem gerist eins og sjá má á þessari mynd.
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler