Þreytt börn sýna allt önnur einkenni

Erla Björnsdóttir sálfræðingur.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Sálfræðingurinn Erla Björnsdóttir er sérfróð um svefnvandamál, en í ár gaf hún út fræðsluritið Svefn. Að auki er Erla fjögurra barna móðir og hefur því einu sinni eða tvisvar þurft að eiga við börn sem vilja alls ekki fara í bólið. En hver eru helstu einkenni svefnvanda barna og eru þau mismunandi eftir aldursflokkum? 

Þetta er auðvitað mjög misjafnt eftir aldri. Hjá yngstu börnunum er það helst að þau ná ekki að sofa alla nóttina og vakna oft upp, sem er svo sem alveg eðlilegt fyrsta æviárið. Þegar börnin verða eldri geta þau óttast að sofa ein. Börn fá þá martraðir, eru hrædd eða ganga í svefni. Þau geta einnig fengið næturtrylling þar sem þau vakna upp skelfingu lostin og muna svo ekkert eftir því daginn eftir. Svo eiga sum börn einfaldlega erfitt með að festa svefn og eru lengi að sofna á kvöldin. Mörg börn vakna einnig oft upp á nóttunni og koma þá gjarnan upp í til foreldra sinna. Það er ótrúlega margt sem getur bjátað á, en í mörgum tilvikum er þetta eitthvað sem eldist sjálfkrafa af þeim. Þá sér í lagi svefngangan, næturtryllingurinn og að vakna oft upp. Stundum þarf þó að hjálpa þeim aðeins, til að mynda ef þau þjást af ótta við að sofa ein eða eiga erfitt með að sofna á kvöldin,“ segir Erla, en hvar liggja mörkin? Hvenær er svefnvandinn hættur að vera eðlilegur og farinn að vera vandamál sem þarf að taka á?

„Það þarf að skoða hvort þetta hafi áhrif á líðan barnsins og hegðun yfir daginn. Þegar börn eru illa sofin sýna þau gjarnan allt önnur einkenni en fullorðið fólk. Við verðum syfjuð og þreytt, en börn verða frekar pirruð og eirðarlaus. Einnig sýna þau stundum einkenni sem líkja eftir ADHD. Það er svolítið erfitt að segja til um það hvenær þetta er almennt hætt að vera eðlilegt ástand. Það þarf að taka mið af því hvaða áhrif þetta hefur á daglegt líf barnsins, sem og fjölskyldunnar,“ segir Erla og bætir við að svefnvandamál geti orsakað hegðun hjá börnum sem gjarnan er skrifuð á óþekkt.

„Það er þessi pirringur sem gerir foreldrum erfitt fyrir og allri fjölskyldunni. Svo auðvitað getur það haft heilmikil áhrif á foreldrana ef barnið getur ekki sofið eitt og sefur alltaf uppi í hjá þeim. Svefnvandamál barna geta auðveldlega truflað svefn foreldranna.“

Erla bendir þó á að foreldrar geti gert ýmislegt til að stuðla að góðum nætursvefni barna sinna.

„Númer eitt, tvö og þrjú er að hafa reglu og rútínu. Að börnin fari alltaf að sofa á sama tíma og vakni á svipuðum tíma. Líka um helgar. Gott er að reyna að koma þeim í ró einum til tveimur tímum fyrir háttatíma. Slökkva þá á snjalltækjum og sjónvarpinu. Fara frekar í heitt bað, lesa saman eða hlusta á rólega tónlist til að róa líkama og sál. Börn eru auðvitað mjög athafnasöm og mikið að gerast hjá þeim. Þau eru kannski að horfa á teiknimyndir sem eru litríkar, eða spila tölvuleiki, og það er ekki gott að vera í þannig áreiti rétt áður en maður leggst á koddann. Mataræðið skiptir auðvitað miklu máli. Það þarf að passa að börn borði hollan mat, borði reglulega og séu ekki að innbyrða mikinn sykur eða neyta koffíns. Sum börn drekka gosdrykki og unglingar eiga það til að drekka orkudrykki sem geta haft mjög slæm áhrif á svefninn,“ segir Erla.

„Síðan þarf að reyna að gera svefnumhverfi barnsins huggulegt og umvefjandi, svo að barnið fyllist ró og vellíðan þegar það leggst upp í rúm. Í fyrsta lagi að þar sé þægileg birta, við viljum hafa dimmt á nóttunni, en ef barnið er myrkfælið er auðvitað hægt að vera með dauft næturljós eða öryggishlut eins og ákveðinn bangsa. Eitthvað sem veitir barninu öryggiskennd þegar það fer að sofa. Það þarf einnig að passa upp á að það sé ekki mikil óreiða í svefnherberginu. Hjá fullorðna fólkinu mælum við með því að svefnherbergið sé eingöngu notað fyrir svefn, það er auðvitað öðruvísi hjá börnunum vegna þess að þetta er gjarnan líka þeirra leikstaður. Þá þarf maður að passa að það sé ekki dót á gólfunum og ekki mikið áreiti sem kallar á börnin. Raftæki ættu ekki að vera í svefnherberginu og það er ekki heppilegt að láta barnið sofna út frá sjónvarpi. Frekar ætti að gera svefninn að gæðastund, þar sem foreldri og barn lesa saman, syngja lög, fara með bænir eða eitthvað slíkt til að gíra sig niður. Það er einnig gott að hvetja barnið til að sofa í sínu eigin herbergi þegar það er orðið nógu gamalt. Það er ekki góð lausn að leyfa börnum að sofna í rúmi foreldranna og færa það síðan til um kvöldið. Það er heldur ekki heppilegt að barnið sé að skríða upp í til mömmu og pabba á nóttunni. Við viljum að barnið læri að sofa í sínu eigin herbergi og að því líði vel þar. En númer eitt, tvö og þrjú er regla, rútína og heilbrigður lífsstíll. Að barnið hreyfi sig og það nærist vel. Þetta á auðvitað jafnt við um fullorðna sem börn, en börn hafa enn meiri þörf fyrir regluna en við.“

Skammgóður vermir að leyfa börnum að vaka fram eftir

Erla segir sjaldgæft að ung börn sofi út um helgar, þótt þau fari seinna að sofa á kvöldin. Það sé því óráðlegt að leyfa barninu að vaka fram eftir í von um að þau sofi örlítið út daginn eftir.

„Þau eru yfirleitt bara vöknuð snemma og eru því oft eirðarlausari og pirraðri um helgar. Þá er líka kannski meiri óregla og algengara að þau fái sykur. Það verður því að passa að þótt maður sé í fríi er það ekki endilega barninu fyrir bestu að fá að vaka út í eitt eða að maður slaki á öllum reglum. Eldri börn og unglingar þola auðvitað betur að vaka lengur um helgar og þau sofa þá frekar út í fríum. Ég er helst að hugsa um börn á grunnskólaaldri og yngri,“ bætir Erla við. Hún leggur þó einnig mikla áherslu á að unglingar fái nægan svefn.

„Nýleg rannsókn leiddi í ljós að íslenskir 15 ára krakkar sofa í sex tíma á virkum dögum, en þetta eru börn sem þurfa að sofa í níu til tíu tíma á nóttu. Við þurfum að passa upp á þetta og vera meðvituð um að unglingar þurfa lengri svefn en við,“ segir Erla og bætir við að foreldrar átti sig stundum ekki á því hversu lítið unglingarnir þeirra sofa.

„Gjarnan eru krakkarnir með snjallsíma sem þeir nota sem vekjaraklukku, en eru að horfa á þætti og spjalla við vini langt fram eftir nóttu. Eins og ég segi; gamla góða vekjaraklukkan er fín og ég mæli með því að hafa einhvern stað á heimilinu þar sem allir símar eru settir að kvöldi. Það hefur reynst vel heima hjá mér, en klukkan níu setja allir snjallsímana í hleðslu. Við höfum ekkert með þá að gera yfir blánóttina.“

En ef allt bregst, hvert eiga úrvinda foreldrar, sem ekki ná að vinda ofan af svefnvanda barna sinna, að leita?

„Arna Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, hefur sinnt þessum aldurshópi. Sjálf hef ég mest sinnt fullorðna fólkinu, en ég hef tekið að mér unglinga við og við vegna þess að þar hefur verið fremur mikið úrræðaleysi. Ef grunur er um kvíða, eða önnur undirliggjandi vandamál sem geta skýrt vandann, er best að leita til barnasálfræðings. Það gæti vel verið að kvíði orsaki svefnvandann, sérstaklega ef barnið er líka kvíðið yfir daginn. Ef vandinn er líkamlegur, til dæmis ef barnið hrýtur mjög mikið, þarf að fara með það til heimilislæknis,“ segir Erla.

Svefnvenjurnar hafa batnað með hverju barni

Erla á sjálf fjögur börn og því gjarnan mikið líf og fjör á heimilinu. En skyldi alltaf hafa gengið smurt að koma börnunum í bólið.

„Nei, alls ekki alltaf,“ játar Erla og hlær. „Þetta hefur þó batnað með hverju barni, ef maður getur orðað það þannig. Ég hef lært mikið og þroskast sjálf síðan ég átti mitt fyrsta barn 21 árs. Þá var ég að svæfa og þetta tók langan tíma. En yngsti minn, sem er þriggja ára, hefur alltaf lagst upp í rúm kl. 19.30 og sofnað eins og klukka. Ég held að það hafi með þessa festu og rútínu að gera. Svo á ég eldri börn og þar er aðeins meiri slaki. Á meðan við vorum í sumarfríi fengu þessir sem eru 11 og 13 ára til dæmis að vaka fram eftir á kvöldin, og sváfu þá lengur á morgnana. Ég reyni auðvitað að halda allri svona óreglu í lágmarki því ég veit hversu miklu máli þetta skiptir. Þá sérstaklega að þeir fái nægan svefn. Ég reyni að fylgja þessum meginreglum, en auðvitað getur það alveg raskast til eins og á öllum heimilum,“ segir Erla létt í bragði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál