Góðærisjeppinn var verstu kaupin

Björk Eiðsdóttir blaðamaður á Vikunni segir að það sé ekkert …
Björk Eiðsdóttir blaðamaður á Vikunni segir að það sé ekkert annað í stöðunni en að reyna að spara.

Björk Eiðsdóttir, blaðamaður á Vikunni, segir að sparnaður sé lífsstíll, ekki val í nútímasamfélagi.

Hvert er besta sparnaðarráðið?

„Þar sem matarinnkaup eru einn stærsti útgjaldaliðurinn hjá flestum er líklega besta sparnaðarráðið að borða minna og þá helst bara kjötfars þar sem hollusta er fáránlega dýr. En þar sem fæstir eru til í þetta er ýmislegt til ráða, t.d. að gera matseðil út vikuna og versla eftir honum. Þá kaupir maður ekki bara eitthvað þegar klukkuna vantar korter í sex og freistast þá síður í dýrar búðir og er skipulagðari. Nú er ég búin að taka mataræðið mikið í gegn og stór hluti af því er að skipuleggja daginn vel, vera með nesti fyrir öll millimál o.s.frv. og hef ég tekið eftir að slíkt skipulag kemur sér ekki bara vel fyrir kroppinn heldur líka budduna því þannig freistast maður ekki í að grípa í einhverja vitleysu.

Þar sem ég er sífellt að reyna að búa til tíma og minnka álagið fór ég að hugsa dagsskipulagið upp á nýtt og komst að þeirri niðurstöðu að þar sem allir fjölskyldumeðlimir fá heitan mat í hádeginu á virkum dögum sé það tóm vitleysa að fara að elda stórmáltíðir á kvöldin líka. Því hef ég oftast léttari máltíð á virkum kvöldum, súpur, ommelettur, skyr o.s.frv. og elda svo alvöru um helgar. Ekki bara minnkar þetta álagið á þessum brjálaða tíma þegar þarf að aðstoða með heimanám, baða, taka til, þvo þvotta, ganga frá, lesa, svæfa og allt það, heldur er þetta mun ódýrara!“

Í hvað eyðir þú peningum í vitleysu?

„Bókasafns- og stöðumælasektir eru mesti blóðpeningur þessa heims en ég styrki Bílastæðasjóð og bókasöfn Reykjavíkurborgar dyggilega og þið hin njótið auðvitað góðs af því. Og ef maður myndi aldrei kaupa sér Latte, fara í hádegismat með vinkonunum eða á barinn ætti maður örugglega meiri peninga sem myndi þá aftur bara fara í Bílastæðasjóð, bókasöfn og aðra vitleysu ... Svo það er um að gera að velja vitleysuna vel.“

Bestu kaupin?

„Tannhvíttunarefni!!! Langþráður draumur rættist um daginn þegar ég splæsti á mig sérsniðnum góm og tannhvíttunarefni frá fyrirtækinu Fallegt Bros en þessar lífsbreytandi græjur keypti ég á helmingsafslætti í gegnum Hópkaup.is og get bara ekki hætt að brosa.“

Verstu kaupin?

„Klárlega stæðilegur sjö manna jeppi sem ég fjárfesti í þegar ég bjó í Bandaríkjunum árið 2007. Þá var dollarinn vinur námsmannsins og skothelt að kaupa amerískan kagga og fara með hann heim. Nú ef of dýrt reyndist svo að reka hann mátti auðvitað selja hann, losna við erlenda lánið og ganga út með feitt seðlabúnt beint í lommen! Ári eftir að ég flutti heim varð hrun ... Þarf ég að segja meira? Ég fæ enn hroll við tilhugsunina um bílalán og mun aldrei falla í þá gryfju aftur! Aldrei! Karríguli jakkinn sem ég keypti í London um árið var heldur ekki góð hugmynd og mjög gott dæmi um sjálfsblekkingu á sögulega háu stigi.“

Sparar þú meðvitað?

„Leyfðu mér að hugsa ... Ég er sjálfstæð móðir þriggja barna á blaðamannslaunum. Sparnaður er lífsstíll - ekki val.“

Ef þú ættir milljón á lausu, hvað myndir þú kaupa?

„Ég myndi byrja á að kaupa þurrkara og bæta lífsgleðina með því að þurfa ekki að hengja á snúru, taka af snúru og þurrka mér með hörðum handklæðum. Því næst væri það utanlandsferð fyrir fjölskylduna, þar sem ég myndi þræða fataverslanirnar og ef það væri afgangur myndi ég fjárfesta í nýju sjónvarpi sem væri þá ekki á stærð við geimskip eins og mitt. Var þetta ekki örugglega milljón KRÓNA? Ég er pottþétt komin í skuld eftir þessa verslunarferð! En, þurrkari? Já!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál