Óþolandi athugasemdir í garð einhleypra

Björg Magnúsdóttir.
Björg Magnúsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Björg Magnúsdóttir, pistlahöfundur á Smartlandi og ein eftirsóttasta piparmey landsins, er orðin dálítið þreytt á athugasemdum fólks í garð einhleypra. Þegar hún keypti sína fyrstu íbúð á dögunum átti hún skrautlegt samtal við þjónustufulltrúann sinn í bankanum:

Þjónustufulltrúi: Já, ertu sem sagt bara ein? (leggur áherslu á „bara“).

Ég: Já (bíð smá). Ég vil nú reyndar ekki meina að það sé eitthvað „bara“ (að reyna að slá á létta strengi).

Þjónustufulltrúi: Já, ókei (verður skrýtinn í framan). Það reyndar breytir stöðunni aðeins (klikkar fullt í tölvunni. Ég sé ekki á skjáinn út af þessu dóti sem varnar því að viðskiptavinir banka sjái á skjái hjá þjónustufulltrúum. Reyni samt).

Ég: Bíddu af hverju? (einlæglega hissa. Mögulega komin í smá vörn).

Þjónustufulltrúi: Nei, ég meina, ef þið væruð tvö að fara saman í gegnum greiðslumat væri þetta náttúrlega allt annað, sko (smá vandræðalegur, klikkar meira og horfir stíft á skjáinn).

Ég: Já, ókei. En ég ætla að vera með leigjanda í öðru herberginu þannig að ég er í raun ekki „bara“ ein að borga af þessari íbúð (legg áherslu á „bara“. Komin í aðeins meiri vörn).

Þjónustufulltrúi: Við getum ekki tekið leigutekjur með tekjum inni í greiðslumatinu (lítur frá skjánum og á mig. Einlæglega leiður. Held ég).

Ég: Nú? (einlæglega hissa).

Þjónustufulltrúi: Það er bara allt annar og ótryggari pakki sko. Leigutekjurnar (mögulega pínu meira vandræðalegur. Held ég).

Ég: Já, ókei (smá bið). Þú ert sem sagt að segja mér að ef ég væri með mann hérna við hliðina á mér þá myndi ég fljúga í gegnum greiðslumatið? En ekki af því að ég ætla „bara“ að vera með leigjanda? (orðin smá pirruð).

Þjónustufulltrúi: Já, það væri náttúrlega allt annað ef þið væruð tvö (ég horfi stíft á hann horfa á skjáinn. Hann lítur á mig) heldur en þú „bara“ ein.

Þrátt fyrir allt komst hún í gegnum greiðslumat þótt hún væri „bara“ ein. Þegar hún flutti inn í íbúðina byrjaði ballið aftur:

Nágranni: Velkomin! (brosandi).

Ég: Takk (brosandi).

Nágranni: Og ertu með mann eða börn eða eitthvað svoleiðis? (forvitinn).

Ég: Nei (áfram brosandi).

Nágranni: Já, þig vantar allt svoleiðis? (hlæjandi).

Ég: Já, svo er víst (hlæjandi líka. Pínu að fá ógeð á því að allir haldi að allir aðrir þrái fjölskyldulíf).

Nágranni: Já, það er ágætt að vera bara einn (smá eins og hann væri að telja í mig kjark).

Ég: Einmitt (brosandi að hugsa um þjónustufulltrúann og tryggingasölumanninn).

Ég veit alveg að enginn af þessum mönnum sem ég hef dílað við á síðustu vikum ætlaði sér að dissa það að ég væri ein. En þeir spurði samt allir hvort ég væri „bara“ ein. Það var þessi tónn eins og þetta væri ekki alveg komið. Það vantaði eitthvað. Ég ætti ekki að vera „bara“ ein. Eins og maður segir: „ætlaru bara að fara í þessu?“ eða „er bara ein sneið eftir?“ Þeir skutu allir þessu fjögurra stafa orði að mér, orði sem við notum til þess að leggja áherslu á að eitthvað sé rýrt eða mætti vera meira. Ætti að vera meira.

Og auðvitað er það alveg rétt hjá þeim, þannig. Ein manneskja er ekkert sérstaklega mikið miðað við alheimsframboðið. Ekkert sérstaklega fjölmennt. Það þýðir samt ekki að það sé ekki nóg að vera ein eða einn. Það þýðir heldur ekki að við eigum að gera ráð fyrir því að allir vilji vera tveir eða fleiri. Og sannarlega ættum við ekki að letja einstaklinga til þess að vera einir með sjálfum sér með því að spyrja í sífellu hvort þeir séu „bara“ einir. Það er að minnsta kosti mín reynsla að það sé meira en nógu stórt verkefni að vera ein manneskja. Heil manneskja! Og að því fylgi sannarlega ekkert „bara“.

HÉR er hægt að lesa pistla Bjargar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Anna Dóra Gunnarsdóttir: Bara
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál