Er netið að rústa „núinu“?

Jóna Ósk Pétursdóttir, höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir, höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt. mbl.is/Rósa Braga

„Ég er mikið að velta því fyrir mér, og hef minnst á það í pistlum mínum, hvort við náum að lifa í núinu og njóta augnabliksins. Reyndar er ég handviss um að fjölmargir ná því ekki. En það sem er verra er: margir átta sig ekki einu sinni á því að þeir lifa ekki í núinu þar sem þeir hafa gleymt því hvernig á að njóta augnabliksins,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir í sínum nýjasta pistli.

„Undanfarnar vikur hef ég dvalið í landi tækifæranna þar sem nútímatækni er hvergi meiri og frí nettenging í boði nánast hvar sem er. Það eru því allir vel tengdir svo ekki sé nú talað um hversu vel útbúnir allir eru. Maður ætti því ekki að missa af neinu – eða hvað?

Fyrir nokkrum dögum var ég stödd í einum af þessum stóru amerísku skemmtigörðum sem sumir í minni fjölskyldu myndu helst vilja búa í. Þar er lífið eitt stórt ævintýri og allir hamingjusamir, enda er staðurinn kynntur og auglýstur sem hamingjusamasti staður jarðar. Engar áhyggjur, bara tóm gleði og gaman. En þar eins og annars staðar þarf maður að vera vakandi fyrir því að njóta augnabliksins og vera í núinu til að meðtaka alla þessa hamingju sem manni er lofað af stjórnendum garðsins.

Á ferð minni um garðinn þennan dag var augljóst að margir voru uppteknir af allt öðru en að njóta augnabliksins og skapa góðar minningar. Ég þarf nú varla að taka það fram að frí nettenging er út um allan garð, svo augljóst er að maður þarf ekki að missa af neinu á meðan dvalið er í hamingjulandinu. Ekki ætla ég að neita því að það var ósköp gott að geta aðeins kíkt á netið á meðan hangið var í klukkutímaröð til að komast í sum tækin,“ segir hún.

Það vakti athygli Jónu Óskar að sumir voru hreinlega í símanum allan tímann.

„Fyrir marga var þó ekki nóg að vafra aðeins um á netinu meðan beðið var í röð. Nei, sumir voru nefnilega afar uppteknir í tækjunum líka og í þeim ferðum sem í boði eru. Í einni ferðinni, sem er bátsferð í rólegri kantinum, sátu hjón með tvö börn beint fyrir framan mig. Þótt ferðin hafi verið róleg var samt margt að sjá og njóta. Móðirin fyrir framan mig virtist þó hafa miklu meiri áhuga á því að láta alla aðra vita hvað hún væri að gera og hversu hamingjusöm hún og fjölskyldan væru í hamingjulandinu sjálfu.

Í gríð og erg tók hún „selfies“ af sér og eiginmanninum sem síðan voru settar beint inn á Instagram og Facebook. Myndir af brosandi og auðvitað yfir sig hamingjusömum hjónum voru settar inn á samskiptamiðlana og með fylgdi texti um í hvaða tæki þau væru nákvæmlega núna. Síðan voru teknar myndir af börnunum og beint á Facebook með þær líka. Nei, ég get lofað ykkur því að ég var ekki svona forvitin. Ástæðan fyrir því hversu vel ég fylgdist með þessu er sú að ég einfaldlega mátti hafa mig alla við að lenda ekki sjálf inni á þessum „selfies“. Ég hef einfaldlega engan áhuga á því að lenda inni á slíkum myndum hjá ókunnugu fólki.

Þessi móðir er því miður ekkert einsdæmi. Fólk er orðið svo upptekið af því að láta alla vita hvað það er að gera öllum stundum. Myndir af mat eru til dæmis afar algengar og sumir þurfa að deila því með öðrum hvað þeir fá sér í hvert einasta skipti sem þeir fara út að borða. Matreiðslumenn og veitingastaðir eru ekki par hrifnir af þessu. Vinsæll veitingastaður í New York ákvað vegna kvartana viðskiptavina um þjónustu staðarins að skoða hvað hefði breyst á tíu árum. Ekki voru þeir með færra starfsfólk og þeir töldu sig ekki vera að bjóða verri vöru. Eftir að hafa skoðað myndbandsupptöku frá árinu 2004 og borið saman við myndbandsupptöku frá 2014 kom sannleikurinn í ljós.

Fyrir tíu árum kom fólk inn til að borða og var síðan farið aftur út eftir rétt rúman klukkutíma. En núna hefur þessi tími lengst um 50 mínútur því það eru allir svo uppteknir á netinu í símunum sínum og mega ekkert vera að því að panta. Svo þegar maturinn kemur loksins á borðið þarf að taka myndir af honum og setja á samskiptamiðlana. Allt tekur þetta sinn tíma!

Og á meðan við erum á fullu á netinu og á samskiptamiðlunum þýtur lífið hjá á ógnarhraða. Og þótt við höldum að við séum ekki að missa af neinu þá erum við sko heldur betur að því. Við erum að missa af augnablikunum sem veita okkur gleði og hamingju. Við erum að missa af núinu. Og til hvers?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál