Þetta eru bækurnar sem þú þarft að lesa

Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga eftir Sigrúnu Pálsdóttur er bók …
Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga eftir Sigrúnu Pálsdóttur er bók sem þú þarft að lesa.

Líf nútímakonunnar býður oft og tíðum alls ekki upp á slökun og hvað þá lestur góðra bóka. Ef við erum ekki í vinnunni þá erum við að skutla börnunum í tómstundir, að þrífa heima hjá okkur eða að kaupa í matinn. Svo þurfum við líka að hreyfa okkur, rækta vini okkar og fjölskyldu og huga að því að allt sé í réttum skorðum í tilverunni. Í öllum glundroðanum situr það algerlega á hakanum að eyða tíma með sínu innra sjálfi, liggja uppi í sófa og ná sér í andlega næringu. En það er engu að síður mjög mikilvægur hlutur sem ætti alls ekki að hunsa.

Um leið og konan gefur sér tíma til að lesa finnur hún vel hvernig hún nær að slaka á í öllum líkamanum, hvernig hugurinn hvílist og stemningin eykst innra með henni (það er að segja ef hún er að lesa réttu bækurnar).

Á dögunum gaf ég mér tíma og las nokkrar bækur í einum rykk því ég var í sumarfríi. Hver og ein bók býr yfir töfrum þótt þær séu ákaflega ólíkar. Á listann bætti ég líka bókum sem ég hef lesið í gegnum tíðina og fundist afbragðsgóðar.

Bókin Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur er ein …
Bókin Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur er ein af mínum uppáhaldsbókum. Karitas án titils er dramatísk og áhrifamikil örlagasaga ungrar stúlku í upphafi 20. aldar, saga um drauma og þrár, óvænta hamingju, óbærilega sorg og miklar ástríður. Um leið er af einstöku innsæi brugðið upp mynd af lífi og hlutskipti kvenna fyrr og síðar. Karitas Jónsdóttir elst upp í stórum hópi föðurlausra systkina. Móðir þeirra vill koma þeim öllum til mennta og þau þurfa að leggja hart að sér. En Karitas er margt til lista lagt og hana dreymir um öðruvísi tilveru. Fyrir tilviljun kynnist hún óvenjulegri konu með trönur og upp frá því tekur líf hennar að hverfast æ meir um tvö máttugustu öfl tilverunnar, listina og ástina.
Óreiða á striga er framhaldið af Karitas án titils eftir …
Óreiða á striga er framhaldið af Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Þegar þú ert búin/n að lesa Karitas þá skaltu lesa þessa. Í vetur verður Karitas sett upp á sviði Þjóðleikhússins og þá væri sniðugt að vera búin/n að lesa bækurnar.
Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur er bókin sem þú þarft að …
Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur er bókin sem þú þarft að lesa ef þú ert ekki búin/n að því nú þegar. "Viltu ekki fara frá þessum manni? Setningin skellur á hlustunum; hún heyrir hvað amma segir en hverju á hún að svara? Ef þér er alveg fyrirmunað að hugsa um sjálfa þig, viltu þá gera það fyrir mig að hugsa um skáldsöguna þína," segir í Ósjálfrátt. Dag einn vaknar Eyja í sjávarþorpi vestur á landi, nýgift drykkfelldum karli sem er tuttugu árum eldri en hún. Þau búa á rauðu svæði, örfáum skrefum frá rústunum þar sem snjóflóð féll skömmu áður og hreif með sér nítján mannslíf. Röskar konur taka höndum saman til að koma ungu konunni frá eiginmanninum og í annað land, í samfloti með skíðadrottningu sem á ekki til orðið uppgjöf í orðaforða sínum. Löngu síðar skrifar Eyja sig aftur á sama stað til að reyna að skilja fortíðina, skáldskapinn í lífinu, fjölskyldu sína og þýðingu þess að vera skáldkona. En fyrst og fremst allar sögurnar sem lífið gefur okkur og sem við megum ekki láta gleymast.
Engan þarf að öfunda eftir Barbara Demick er bók sem …
Engan þarf að öfunda eftir Barbara Demick er bók sem þú verður að lesa. Í þessari mögnuðu verðlaunabók fléttast saman frásagnir sex flóttamanna frá Chongjin, þriðju stærstu borg Norður-Kóreu. Frásagnir af ólýsanlegum hryllingi, ofbeldi og kúgun, hungri og óréttlæti, samviskubiti þeirra sem komust undan og lifðu af, þrautseigju og lífsvilja þeirra sem neituðu að gefast upp – en umfram allt sögur úr daglega lífinu í landi sem hingað til hefur verið sveipað leyndarhjúpi.
Hljóðin í nóttinni eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur.
Hljóðin í nóttinni eftir Björgu Guðrúnu Gísladóttur. "Eina nóttina vaknaði ég og kallaði á mömmu en það kom ekkert svar. Ég fór fram úr og inn í eldhús, þar var enginn. Samt var eins og einhver hefði verið þarna nýlega; tóbaksfnykur í loftinu, öskubakkinn fullur af stubbum sem sumir voru með varalit, flaska á borðinu með einhverjum vökva," segir í bókinni. Átakanlegar örlagsögur sem mótuðu líf lítillar stúlku og foreldra hennar á sjöunda áratug síðustu aldar. Hörð lífsbarátta í eymd og niðurlægingu í Höfðaborginni í Reykjavík. Og sársaukafullt uppgjör við margt af því ljótasta sem lífið hefur upp á að bjóða. Hljóðin í nóttinni er í senn saga um hyldjúpa sorg og óbilandi lífskraft. Saga sterkrar konu sem brýtur af sér hlekki fortíðarinnar og horfist í augu við það fegursta – en líka það hryllilegasta – í lífinu.
Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga. Haustið 1940 lögðu tveir ungir …
Sigrún og Friðgeir - Ferðasaga. Haustið 1940 lögðu tveir ungir íslenskir læknar, hjónin Friðgeir Ólason og Sigrún Briem, af stað áleiðis til Bandaríkjanna í sérnám. Eftir fjögurra ára vist þar og í Kanada snúa þau aftur til Íslands; hann með doktorspróf frá Harvard, hún rétt búin að ljúka kandídatsári sínu með vinnu á barnaspítölum. Dvölin í Ameríku hafði verið ævintýri líkust og svalað miklum metnaði þeirra en það sem öllu hefur breytt og mótað þau meira en nokkur önnur reynsla á þessu langa ferðalagi er fæðing og uppvöxtur þriggja barna þeirra. Sigrún og Friðgeir eru sannarlega tákn um bjartar vonir íslenskra læknavísinda þegar þau stíga um borð í Goðafoss haustið 1944 en þau eru líka foreldrar, sannfærð um hvert mikilvægasta hlutverk þeirra er og verður í náinni framtíð. Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir marga ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld, en inn í hana sogast líka nánast óteljandi atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Í bókinni segir meðal annars frá kynnum Sigrúnar og Friðgeirs af fátækt og ofbeldi í stórborgum landsins, s.s í Harlem-hverfi New York-borgar, dægurmenningu og uppgangi valdamikilla stofnana og fyrirtækja í bandarísku samfélagi, auðsöfnun og hinum síauknu áherslum á framfarir á sviði vísinda og tækni. Því líf þeirra hjóna í Ameríku var ekki bara bundið heimi læknavísinda, heldur snerist um heimilisrekstur, framboð nýrra heimilistækja og eftirspurn eftir heimilishjálp í stríði. Og saga þeirra flækir svo sannarlega þá mynd sem dregin hefur verið upp af hlutverki húsmæðra á fimmta áratugnum í Bandaríkjunum, viðhorfum til svartra vinnukvenna, samskiptum kynjanna og hlutverki feðra í barnauppeldi. Sigrún og Friðgeir – Ferðasaga byggir á bréfum og dagbókum sem þau hjón héldu frá því að þau sigldu til Bandaríkjanna haustið 1940 og þar til þau sneru heim til Íslands frá New York haustið 1944. Höfundur notar einnig fjölda ljósmynda til að draga upp senur og dýrmæt augnablik í lífi fjölskyldunnar en frásögnin af atburðarrásinni um borð í Goðafossi eftir að tundurkeyti frá þýskum kafbát skellur á honum er hér einnig sögð frá nýju sjónarhorni með Sigrúnu og Friðgeir, og börn þeirra þrjú í brennidepli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál