Tók á móti ástinni með stirnað bros

Sif Jóhannsdóttir skrifar frá Kaliforníu.
Sif Jóhannsdóttir skrifar frá Kaliforníu.

„Eiginmaðurinn þurfti að bregða sér af bæ í síðustu viku. Ég var grasekkja með börn og buru í 6 nætur. Tilstandið svo ógurlegt við þetta að mamma þurfti að fljúga alla leið frá Íslandi til að passa mig og dæturnar.

Það skal tekið fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég er í þessu hlutverki en það var langt síðan síðast. Næstum ár. Og ég var algjörlega búin að gleyma vanköntum mínum, frekar óþægilegt að vera minnt svona rækilega á það. Það eru nefnilega ákveðnir hlutir sem ég ákvað í mínu hjónalífi að læra ekki/gera ekki. Sem getur komið sér illa þegar menn bregða sér af bæ og skilja mig eftir á eigin vegum,“ segir Sif Jóhannsdóttir í sínum nýjasta pistli.

Hér eru dæmi um hluti sem ég harðneita að gera:

1. Taka bensín. Í alvöru, er til eitthvað leiðinlegra en að taka bensín?

2. Ljósaperur. Af hverju að hætta á raflost þegar ég get fórnað eiginmanninum á altari rafmagnsins.

3. Kattasandurinn. Segir sig sjálft.

4. Peningamál. Hef ekki aðgang að heimabankanum okkar vegna þess að ég nenni því ekki. Sagði eiginmanninum að ég myndi bara eyða þangað til að hann/bankinn settu stopp á mig. 

5. Grilla. Ég kann ekki að kveikja á grillinu. Sem hefði ekki komið að sök á Íslandi í október en hér hefði ég getað grillað hverja stórsteikina á fætur annarri ef ég kynni á gripinn.

6. Taka heita hluti út úr bökunarofninum. Vísa í sömu ástæðu og með ljósaperurnar, af hverju að brenna mig þegar aðrir möguleikar eru í stöðunni. Mér til réttlætingar þá er ég klunni. Og eiginmaðurinn er það ekki. Hann er með svo stöðuga hendi að hann gæti verið skurðlæknir.

7. Tæknihlutir, internet, tölvur o.fl. Ef þetta virkar ekki þá arga ég af pirringi út í eiginmanninn. En ég veit ekki hvernig ég kveiki eða slekk á þessu drasli og ef eitthvað bilar, þá er ég í vondum.

Sif segir að vankantar hennar rifjist upp þegar nálgast brottför eiginmannsins og hún fyllist kvíða. 

„Ekki bara fyrir dögunum sem hann er í burtu og ég þarf að taka á honum stóra mínum heldur átta ég mig á því að ef eitthvað hræðilegt kæmi fyrir og hann myndi tefjast, nú eða guð forði okkur bara ekki koma til baka, þá vandast málin heldur mikið. Sambandslaus við umheiminn, með brunasár og úfið hár eftir raflost myndi ég þurfa að tæma kattasandinn. Og ekki kæmist ég neitt á bensínlausum bíl.

Svo hélt þessi elska úr landi og allt þetta sem ég óttaðist mest plagaði mig minnst. Ormarnir hinsvegar tóku upp á því að vera óalandi og óferjandi allan tímann á meðan. Reyndust óhuggandi af söknuði eftir pabbanum á krítískum stundum og svo hamingjutrylltar þess á milli að þær gátu ómögulega sofnað þegar að háttatímanum kom. Í nótt tók svo steininn úr. Upp úr þrjú vaknaði ég við að yngra afkvæmið hafði pissað í rúmið mitt. Meðan ég reyndi að henda þurru laki á aftur kom eldra afkvæmið hlaupandi og tróð sér upp í rúmið einnig. Þá vaknaði kötturinn til lífsins, mætti á svæðið í miklum drápsham og tók til við að drepa tær af miklum móð. Hann hafði nýlokið við að gera stykki sín í kassann og kúkalyktin af honum var kæfandi (hann á svona yfirbyggt klósetthús). Þetta var um þrjúleytið í nótt. Klukkan sex í  morgun hafði mér loks tekist að svæfa börn og kött aftur en náði sjálf ekki nema stuttri kríu áður en klukkan rak mig af stað. Kemst ég þá ekki að því að nýju rúmfötin frá því um nóttina voru öll út í kattakúk. Hann hafði þá haft með sér eina væna klessu úr kassanum og klínt í allt rúmið svo þarna sváfum við, með þornað hland á okkur því ég nennti ómögulega að sturta liðið um miðja nótt og umvafin kattaskít. Morgunverkin voru því að sturta misþreytta orma og þvo fleiri þvottavélar en ég kæri mig um að ræða.

Huggun harmi gegn að eftir að ég var búin að koma dætrunum í skólann keyrði ég á bensíngufunum einum saman (nei, ég tek ekki bensín!) út á völl og tók á móti ástinni með stirðnað bros á vör, tilbúin með uppsöfnuð umkvörtunarefni vikunnar á vörunum.

Eins gott það sé langt í að hann bregði sér aftur af bæ!“

Sif Jóhannsdóttir.
Sif Jóhannsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál