Ætlar þú að vera ofurkonan sem klárar batteríin?

Ofurkonan á auðvelt með að fara yfirum í desember.
Ofurkonan á auðvelt með að fara yfirum í desember.

„Fyrir nokkru hélt ég fyrirlestur fyrir stjórnendur í mjög fjölmennri kvennastétt. Fyrirlesturinn fjallaði um eitt af hugðarefnum mínum: Ekki láta vinnuna brenna þig upp. Þar sem ég hef sjálf nokkrum sinnum unnið yfir mig, síðast fyrir tæpum fimm árum með það alvarlegum afleiðingum að líf mitt lá við, vil ég endilega vara fólk, þá einkum konur, við að gera slíkt hið sama og læra að þekkja einkennin, áður en skaðinn er skeður. Innst inni skynjaði ég alveg hvað var að gerast hjá sjálfri mér, en náði ekki að snúa ferlinu við fyrr en ég hætti að djöflast eins og hamstur í hjóli. Með hörku og þrautseigju, endalausri leit að náttúrulegum lausnum, með því að fara jafnsnemma að sofa á kvöldin og lítil börn og með því að vera tilbúin til að vinna að bata, alveg sama hvað, tókst það,“ segir Guðrún Bergmann í sínum nýjasta pistli. 

„Mér hefur tekist að öðlast góða heilsu og líkamlegan styrk á ný. Ég geri mér jafnframt grein fyrir að heilsan er nokkuð sem þarf að sinna daglega. Í mínu tilviki snýr það jafnt að fæðunni sem ég borða, bætiefnunum sem ég tek inn og líkamsræktinni minni. Rannsóknir hafa sýnt að vöðvar taka að rýrna eftir 76 tíma æfingarleysi. Við þurfum því að vera vakandi fyrir þessum þáttum svo lengi sem við lifum, ef við viljum vera virkir þátttakendur í lífinu.“

Guðrún bendir á að framundan sé annasamur tími og kvenpeningurinn þurfi að gæta sín. 

„Framundan er einn mesti yfirvinnutími ofurkvenna, sem auk þess að sinna eigin starfi, uppeldi barna, rekstri heimilis og öllu sem að því snýr ætla líka að kaupa flottustu jólagjafirnar, pakka þeim óaðfinnanlega inn, skreyta heimilið svo það myndi sóma sér vel sem fyrirmynd annarra, baka kökur, búa til konfekt, föndra og finna ómótstæðilegan kjól, hafa tíma til að lakka neglurnar, laga hárið og vera með fullkominn andlitsfarða á aðfangadagskvöld.“

Hún talar af reynslu þegar jólaundirbúningur og jólastress er annars vegar. 

„Ég held ég hafi snemma verið í þessum ofurkvennahópi og því var útbruninn fyrir fimm árum bara afleiðing af einhverju sem hófst fyrir langalöngu. Talandi af reynslu veit ég að það er einmitt í svona bilunarferli eins og í jólaundirbúningi ofurkonunnar sem konur geta brennt sig upp, ekki síst vegna innri spennu. Ég lærði seint af reynslunni, en kannski verða þessi orð mín til þess að einhver tekur ákvörðun um að slá strax af kröfunum, leggja minna upp úr því hvernig gjöfunum er pakkað inn, baka færri sortir, nota bara kjólinn frá í fyrra, en ná sér í staðinn í lengri nætursvefn og slaka meira á með þeim sem skipta mestu máli í lífinu.“

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. Ljósmynd/Cenk Unver
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál