Glöð að vera bara venjuleg „Gugga“

Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Mér finnst alltaf jafn óviðeigandi þegar tónlistarmenn nota líkamann til að koma list sinni á framfæri. Ég t.d. skil ekki þá áráttu að þurfa að vera hálfnakinn á sviði að flytja tónlist? Hvað er það eiginlega? Hefur söngvarinn, eða söngkonan, kannski áhyggjur af því að sönghæfileikarnir séu ekki nægilega miklir og betra sé að dreifa athyglinni með rassaköstum og skoppandi brjóstum?

Ég hamast alveg við að reyna að skilja það þegar ungstirni eins og Miley Cyrus mætir hálfnakin á svið og glennir sig síðan eins og hún eigi lífið að leysa. Sem betur fer eru samt margar af þessum ungu öllu dannaðri og er t.d. Taylor Swift góð fyrirmynd í þeim efnum. Hún er alltaf flott og fullklædd og laus við allan glennugang. Þetta er stelpa sem selur tónlistina sína í bílförmum sem sýnir að stúlkur þurfa ekki að koma fram naktar til að njóta velgengni. Hvað þá fullorðnar konur sem maður myndi halda að þroskuðust með árunum og kæmu sér í fötin,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir pistlahöfundur og höfundur bókarinnar, Frábær eftir fertugt, í sínum nýjasta pistli.

Hún segist vera löngu hætt að kippa sér upp við takta Madonnu.

„Maður er löngu orðinn vanur henni Madonnu. Hún hefur alltaf haft ákveðna sýniþörf og verið mikið fyrir það að ögra. En að kona sem komin er fast að sextugu, og verandi fjögurra barna móðir, skuli ekki vaxa upp úr þessari eilífðaruppreisn. Ég myndi ekki nenna því að haga mér eins í dag og þegar ég var fimmtán eða sextán ára. Samkvæmt móður minni vaknaði ég nefnilega einn daginn þegar ég var rúmlega fimmtán ára með þvílíkt „attitude“. Á ég víst að hafa umturnast í ungling í uppreisn á einni nóttu. Sem betur fer eldist maður og þroskast, og guð minn góður hvað ég er þakklát fyrir það. Ég var nú samt alltaf fullklædd og hafði enga þörf fyrir að sýna mikið hold. En auðvitað átti maður sín tískuslys sem ég hef engan áhuga á að endurtaka. Engu að síður finnst mér sumt enn töff, skemmtilegt og gott sem ég gerði og klæddist á þessum aldri. Samt færi ég aldrei aftur tilbaka. Ekki séns! Nú er ég á allt öðru stigi lífsins, eins og flestar konur á mínum aldri, og er bara ansi hreint ánægð með það. Nákvæmlega þess vegna skil ég alls ekki hana Madonnu – þessa 56 ára gömlu konu sem augljóslega nær ekki að þroskast frá uppreisninni.“

Jóna Ósk efast um að það hafi gert Jennifer Lopez gott að vera valin fallegasta kona í heimi 2011 af People Magazine.

„Nú svo er það latneska dívan mín hún Jennifer Lopez. Ég er ekki viss um að það hafi nú gert henni neitt gott að vera valin fallegasta kona í heimi af People Magazine árið 2011. Síðan þá hefur hún orðið fáklæddari og fáklæddari með hverju árinu. Hún greinilega hamast við að halda í eitthvað sem ég veit ekki hvað er, alla vega held ég að þetta sé tómur misskilningur hjá henni. Það keyrði nú samt um þverbak á nýliðinni verðlaunahátíð American Music Awards þar sem hún mætti hálfnakin á sviðið og skók sig alla eins og hún væri aðalnúmerið á vinsælum súlustað. Þvílíkar glennur og kynæsandi tilburðir hjá þessari tveggja barna móður. Og svo er hún líka miðaldra. Já Jennifer Lopez er miðaldra stórglæsileg kona sem keppist við að haga sér eins og sér helmingi yngri söngkonur. Þarf þessi flotta 45 ára kona virkilega á þessu að halda? Hvernig væri að bera aðeins meiri virðingu fyrir sjálfri sér? Eða er kannski miðaldrakrísan að gera út af við þessar miðaldra stjörnur?

Mikið er ég glöð að vera bara svona venjuleg „Gugga“ og þurfa ekki að vera í stöðugri baráttu um athygli við mér helmingi yngri konur. Það hlýtur að vera erfitt að keppast endalaust við það að halda í æskuna og gefa sjálfri sér ekki tækifæri til þess að eldast af virðuleika og njóta þess sem hærri aldur og aukin viska hefur upp á að bjóða. Ég er alla vega afskaplega sátt við minn staði í lífinu nákvæmlega núna. Það hafa nefnilega öll skeið lífsins sinn sjarma. Svo kæra Jennifer, og allar hinar, í guðanna bænum haldið ykkur í fötunum!“

Jóna Ósk Pétursdóttir.
Jóna Ósk Pétursdóttir. mbl.is/Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál