Flutti til Balí og hjálpar fólki að finna hamingjuna

Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir flutti til Balí fyrir tæpu ári síðan.
Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir flutti til Balí fyrir tæpu ári síðan.

„Fyrir rúmlega 20 árum sá ég myndir frá Balí og það var eitthvað svakalega ævintýralegt og seiðandi við þennan stað sem gjörsamlega heillaði mig. Þá átti ég tvö yndisleg lítil börn og var upptekin af því að vera mamma. Svo þetta var aðeins of langt í burtu og framandi. Ég hefði ekki trúað því þá ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að búa hérna, enda hafði ég ekki einu sinni hugmynd um hvar þetta töfrandi og rómantíska Balí væri. En lífið er svo yndislegt. Ég gleymdi myndunum sem frænka mín hafði sent mér og áttaði mig ekki á því fyrr en ég stóð hér í þessari paradís að ég væri komin hingað, aðeins 12 árum seinna,“ segir Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir sem alltaf er kölluð Ósk.

Árið 2008 ákvað hún að dvelja á Balí um hálfs árs skeið með það markmið að kafa með Nemo og félögum, kynna sér Hiduisma, stunda jóga og læra allskonar spennandi hluti.

„Áður en ég vissi af var ég búin að búa til Happy Yoga-prógrammið, bauð upp á andlegt ferðalag til Balí, var með fullt af fólki í vinnu við að hanna hálsmen fyrir Einstök börn, og hugleiddi í Asrham eins og vinkona mín í Eat Pray Love. Lífið hér var einn samfeldur draumur í dós og eins og svo margir upplifa sem hingað koma þá er orkan hérna þannig að maður tengist hjartanu og einhverju yfirnáttúrlega góðu sem mann langar ekki að fara frá. Friður, vellíðan og dillandi hamingja er flögrandi inni í manni allan daginn. En þú verður bara að koma til að prófa þetta því það er ekkert hægt að lýsa þessu,“ segir hún.

Á Balí er fallegt.
Á Balí er fallegt.

Eftir að hún kom heim úr þessu ferðalagi til Balí 2008 var hún upptendruð og með hugann fullan af hugmyndum sem hana langaði til að framkvæma. Það var svo margt í gangi að hún vissi hreinlega ekki hvar hún ætti að byrja.

„Eitt fallegt sumarkvöld í júlí skellti ég mér á myndina „Mamma mía“ og sat næsta dag inni á skrifstofu hjá Gunnari í Laugarásbíói og sannfærði hann um að Íslendingar myndu syngja í bíó. Þrátt fyrir að hann hafi haft litla trú á því, þá héldum við 10 sing-a-long sýningar sem slógu heldur betur í gegn enda hafði landinn mikla þörf fyrir gleði og eitthvað ánægjulegt. Eftir því sem ég sá betur hversu illa fólki leið á þessum tíma ákvað ég að byrja að senda örvandi póst til allra á póstlistanum mínum og hjálpa fólki að líða betur. Þannig varð til hið geysivinsæla fjar-námskeið How 2 Feel Good sem mörg fyrirtæki hafa nýtt sér til að efla starfsandann og bæta afköst en námskeiðið er í raun hamingjuaukandi, auðveldar og skemmtilegar aðferðir sem allir geta gert. Lífið mitt hefur snúist um það að skapa þerapíu, námskeið og allskonar leiðir til að hjálpa fólki að láta lífið rætast, njóta lífsins og framkvæma draumana sína.“

Ósk í sundlauginni á Balí.
Ósk í sundlauginni á Balí.

Í fyrra ákvað Ósk að láta drauminn sinn rætast og flutti búferlum til Balí. Hún er B manneskja og segist elska að láta sér líða vel og hafa gaman. Hún vill hlæja í jógatímum og brosa í hugleiðslu. Í dag notar hún Skype til að hjálpa fólki að líða betur og ekki skemmir tímamismunurinn fyrir þessari B manneskju sem hún er.

„Það er ekki hægt að hugsa sér betra starf en að gera lífið hjá fólki betra og ekki spillir að ég svefnpurkan byrja að vinna kl. 16.00 með einstaka undantekningum. En ég vinn aðallega við að kenna þerapíuna mína „Lærðu að elska þig“ og vinn með fólk alls staðar í heiminum í einkatímum á Skype. Í þerapíunni öðlast fólk meira sjálfstraust, áttar sig á hvað það elskar mest að gera, byggir upp jákvætt hvetjandi hugarfar, skilning á hvernig við sjálf og alheimslögmálin virka í lífinu okkar, auka sjálfsvirðingu, losna við kvíða, verki og þunglyndi svo eitthvað sé nefnt. Sjálf fer ég í göngutúra úti í náttúrunni, hlusta á mannbætandi bækur og ligg í sundlauginni eða fer í blessun hjá Guru til að undirbúa mig fyrir tímana,“ segir hún.

Hún segir að hún hafi langt í frá verið aðgerðalaus síðan hún flutti til Balí og segir nóg að gera hjá sér.

„Ég byrjaði á að fljúga hingað með undurfagran hóp af yngismeyjum sem ég hugsa svo oft um því það var eitthvað einstakt sem átti sér stað í þeirri ferð. Bændaferðir buðu þá upp á ferðina mína „Balí, hugur, líkami og sál“. Ferðirnar sem ég býð upp á núna kalla ég „Eina Retreat Ósk“ sem er sérsniðin endurnæring fyrir einstaklinga eða hópa og þeir sem hafa komið hafa gjörsamlega svifið heim, spenntari og öflugri en nokkru sinni.“

Ferðirnar hennar Óskar hafa verið vinsælar hjá íslenskum konum sem vilja fá örlítið meira út úr lífi sínu.

„Ég hef tekið á móti frábæru fólki á allskonar ferðalögum sem veitir mér tækifæri til að sýna og skoða allt sem eyjan hefur upp á að bjóða. Uppáhaldsfrænka mín, Alla Sigga, sem hafði sent mér hinar áhrifaríku myndir, kom og bjó hér með mér í fjóra mánuði. Hópur af mögnuðum stelpum var á námskeiðinu okkar Sigrúnar Lilju í Gyðju síðastliðið haust sem við köllum Empower Women Retreat in Bali. Við erum við að fylla tvö retreat námskeið í vor með bilað skemmtilegum skvísum sem eru væntanlega að reyna að ímynda sér hvernig Balíferðin þeirra verður. Stelpurnar sem komu í haust eru heldur betur að breyta og bæta líf sitt og ég fæ nú bara tár í augun þegar ég les hjá þeim hvað þær eru að gera flotta hluti. Þvílíkt þakklæti sem hríslast um innra með mér þegar ég hugsa til þeirra og bara allra sem hafa komið hingað til mín því það er svo magnað að sjá fólk lifna við og stækka.“

Ósk segir að Balí bjóði upp á endalausa möguleika.

„Það er svo margt hægt að gera hér og af því að þessi paradís er svo ódýr þá ligg ég á nudd bekk og í blómabaði minnst einu sinni viku. Það er líka hægt að læra allt hérna á svona örnámskeiðum og ég hef farið í silfursmíði, dans, kokkanámskeið og fleira spennandi. Ég elska að taka þátt í seremóníum sem eru mjög sérstök fyrirbrigði hér og hef verið svo heppin að ramba innbá tvær serimóniur sem eru haldnar á 100 ára fresti. Svo finnst mér geggjað að skoða þessi yfirnáttúrlega flottu hótel og villur hérna. Og einmitt þess vegna erum við Sigrún Lilja að byrja með VIP Deluxe-ferð hingað fyrir þær konur sem vilja vera í drottningarfílingi, þetta verður svona dýpra og persónulegra námskeið og sérstaklega flott fyrir nokkrar vinkonur eða vinnuhópa.“

Líf Óskar hefur umturnast eftir að hún flutti til Balí.

„Áður en ég flutti hingað má segja að ég hafi verið að vinna, borða sofa. Ætli ég sé ekki þessi týpíski íslenski vinnuþjarkur sem byrjaði mitt andlega ferðalag af því ég krassaði á vegg með ótal líkamleg vandamál sem ég smátt og smátt skildi að voru öll sprottin frá þeirri tilfinningu að elskaði ekki sjálfa mig, þótti ekki vænt um mig, fannst ég ekki skipta máli og að ég hefði ekkert til brunns að bera. Ég var einfaldlega aldrei nógu góð.

Árið 1998 urðu algjör þáttaskil í mínu lífi, þá þurfti ég að endurskoða hug minn og lagði af stað í eitt skemmtilegasta (andlega) ferðalag sem ég hef farið í og er reyndar ennþá í þessari heimsreisu. En gamall vani er lengi að hverfa og ég fann sjálfa mig vera að brenna upp aftur, komin í vinna, borða, sofa rútínu sem er mér svo eðlileg. En núna leyfi ég því ekki að klára mig heldur pakkaði niður og flaug í meiri næringu og tilbreytingu, hér eru engir tveir dagar eins og vinnutíminn töluvert styttri nema þegar ég er með fólk í einka-djúpnæringu og gyðju-retreati, þá fer mín sko á fætur með sólargeislunum og nýtur hverrar mínútu í dýrmætum félagsskap.“

Ósk segir að það sé miklu aðveldara að lifa í jafnvægi á Balí en á Íslandi.

„Ég finn mikinn mun á því hversu öflugri ég er og tengdari innsæinu mínu sem er nauðsynlegt í mínu starfi.

Hér tekst mér að smella inn skemmtilegheitum á hverjum degi, upplifa eitthvað spennandi, ferðast um eyjuna, prófa nýja hluti og að vera sífellt að læra sem er mér ofboðslega mikilvægt. Ég byrja alla daga á hugleiðslu, teygjum og uppáhalds morgunkaffinu mínu, svo er göngutúr eða hjólaferð eitthvað út í buskann. Inni á milli einkatímanna á Skype, sit ég í kvöldmat með fjölskyldunni á Íslandi og fæ að vera með í öllum boðum, jii ég er ólýsanlega þakklát fyrir tæknina sem gerir mér kleift að búa hvar sem er í heiminum og vera í góðu sambandi við þau. Svo er ég er svo heppin að María Birgit dóttir mín býr í Ástralíu og kíkir reglulega í heimsókn. Þá leigjum við skúter og tröllum um allt enda er hún orðin svakalega fær að reiða mömmuna sína í þessari snarklikkuðu asísku vinstri umferð.“

Hin börnin hennar tvö, Luigi Árelíus og Hulda, búa annars vegar á Íslandi og hinsvegar á Ítalíu.

„Ég þarf ekkert að hafa áhyggjur af því að vera ekki hjá mínum yndislegu börnum, það er einfaldlega ekki hægt. Fyrir mér á lífið að vera skemmtilegt fullt af ævintýrum og hamingju en það er auðvelt að finna gleði og vellíðan þegar maður fylgir hjartanu sínu, ég geri bara það sem ég elska og elska að gera það sem ég geri.“

Þeir sem vilja vita meira geta farið inn inn á vefinn hennar Óskar.

Með innfæddum á Balí.
Með innfæddum á Balí.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál