„Við erum með fiðring í maganum“

Guðfinnur og Hildur taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár …
Guðfinnur og Hildur taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár með lagið sínu Fjaðrir. ljósmynd/ Kjartan Hreinsson

Hópurinn SUNDAY mun taka þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár. Meðlimir hópsins stefna á að komast alla leið á Eurovision-úrslitakvöldið í Vín í maí með laginu Fjöðrum. „Við setjum markið hátt og stefnum á að standa á sviðinu á úrslitakvöldinu í Vín. Við munum fara til Vínar með óbilandi trú á okkur og gera atriðið ennþá stærra og magnþrungnara ef okkur tekst að vinna hug og hjarta Íslendinga fyrst,“ segir Guðfinnur Sveinsson, annar höfundur lagsins Fjaðra.

Guðfinnur, eða Guffi, samdi lagið og textann ásamt söngkonunni Hildi Kristínu Stefánsdóttur. „Ég og Guðfinnur erum stofnmeðlimirnir, svo fengum við Loga Pedro með okkur í lið til að pródúsera lagið og fljótlega bættust svo í hópinn þau Helga Kristín dansari, Hildur Ólafsdóttir danshöfundur og Vignir hljóðfæraleikari. Við vildum búa til hóp sem væri ekki hljómsveit heldur hópur af fólki úr mismunandi listgeirum,“ segir Hildur.

Hildur og Guðfinnur hafa bæði ávallt haft gaman af Eurovision-keppninni. „Já, ég hef elskað þessa keppni síðan ég var lítil. Ég held að innst inni hafi mig alltaf dreymt um að standa á stóra sviðinu en það var ekki fyrr en í sumar sem mér datt í alvörunni í hug að vera með,“ útskýrir Hildur. „Og ef ég þarf að nefna eitt lag sem hefur helst náð að fanga athygli mína þá hlýtur það að vera Euphoria,“ segir Guffi.

Ekki týpískt ástarlag

„Fjaðrir fjallar um tvo fugla sem eru ástfangnir hvor af öðrum en skiljast að vegna utanaðkomandi aðstæðna. Það mætti segja að fuglarnir séu táknmynd fyrir einstaklinga og að textinn lýsi þeim átökum sem fylgja aðskilnaði einstaklinganna,“ segir Guffi aðspurður hvað lag þeirra fjallar um. „Lagið var samið á góðum sunnudegi í haust. Við Guffi vorum með ákveðnar pælingar um hvernig lag við vildum gera svo þetta kom frekar fljótt. Við vorum hrifin af því að nota fugla og fjaðrir sem myndlíkingu svo textinn yrði ekki of týpískur ástarlagatexti,“ segir Hildur.

Hildur og Guffi segjast ekki finna fyrir stressi. „Við erum með fiðring í maganum, en fyrst og fremst erum við spennt. Við erum búin að leggja mikinn tíma í undirbúning og erum ótrúlega stolt af því sem við erum með í höndunum,“ útskýra þau.

Sænska söngkonan Loreen er í uppháhaldi hjá tónlistarhópnum SUNDAY.
Sænska söngkonan Loreen er í uppháhaldi hjá tónlistarhópnum SUNDAY. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál