Af hverju þurfum við endalausar „selfies“

Árelía Eydís Guðmundsdóttir.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„„Ferðalög eru til þess að maður kunni betur að meta sitt eigið föðurland ...“ sagði hann um leið og hann bauð mér samlokuna sína. Hann settist við hliðina á mér í flugvélinni, við vorum bæði á leið til Portúgals, hann í síðum appelsínu gulum kyrtli en ég í rósóttum buxum. Minn heittelskaði sofnaði fljótt mér á hægri hönd en ég var svolítið forvitin um munkinn. Um leið og samlokan var borin í okkur gafst okkur tækifæri til að spjalla saman. Hann er Tékki sem er búinn að vera búddamunkur í fimmtán ár. Hefur búið í klaustrum í Bretlandi, Taílandi og er núna á leið til Portúgals,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir í sínum nýjasta pistli:

Við ræddum saman um lífið í klaustrinu og lífið yfirhöfuð. Hann sagði mér að hver þrá sem kviknaði með okkur slokknaði af sjálfu sér aftur, ég samþykkti það um leið og ég saup á hvítvíninu. Við töluðum um hugleiðslu og ég sagði honum að ég ætti í erfiðleikum með að finna tíu mínútur á dag. Hann horfði á mig og sagði að fólk færi í sturtu á hverjum degi svo það hlyti að geta hugleitt. Ég hugsaði með mér að hann ætti kannski að vera með nokkur börn, argan eiginmann og kött í kringum sig og þá myndi hann skilja mig en ég sagði ekkert, bara brosti. 

Við töluðum um menningu okkar sem einkennist af „fá strax, núna“. Hann sagði að maður mætti sjálfum sér þegar maður biði eftir einhverju. Þolinmæði þjálfaði mann í að skilja sig.

Daginn eftir sat ég fyrir utan kastala sem minn heittelskaði vildi skoða að innan (ég er ekki alveg þessi skoða að innan kastala týpa ...) Ég settist niður og naut þess að heyra gjálfrið í sjónum, finna fyrir sólinni á andlitinu og heyra og sjá fólk af mismunandi þjóðernum. Ég sá fyrir mér portúgalskar konur bíða eftir sjómönnum sínum í gegnum aldirnar, stór og mikilfengleg skip sigla inn. Þá tók ég allt í einu eftir því að fólk gekk um með stangir þar sem það hafið fest myndavél eða síma og var að upplifa veröldina í gegnum mynd af sjálfu sér á stöng. Mér varð hugsað til munksins í flugvélinni, okkur veitir ekki af því að hitta okkur fyrir sjálf án þess að taka mynd. Ég horfði á þetta fyrirbrigði og velti fyrir mér af hverju við þurfum stöðugt að vera að taka af okkur „selfies“ og hvað það þýðir. 

Þá birtist annar skemmtilegur samferðamaður og settist við hlið mér. Hann heitir Robert og er frá Mósambík, hann sagði mér að fólk í Afríku væri mun hamingjusamara en fólk á Vesturlöndum. Mér fannst það merkilegt. Þegar maður bíður þá hittir maður ekki bara sjálfan sig fyrir heldur líka nýtt fólk sem kennir manni eitthvað. Ef maður fylgist bara með sjálfum sér á stöng þá gæti maður misst af því að hitta munka og Mósambíkmenn.

Ég mæli með því að bíða soldið, það er ótrúlega notalegt að upplifa heiminn og hitta aðra og ekki síst sjálfan sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál