Dreymir um að vinna í gróðurhúsi og elskar að taka til

Helga Lilja starfrækir tískumerkið Helicopter, en hún er búsett í …
Helga Lilja starfrækir tískumerkið Helicopter, en hún er búsett í Berlín. Ljósmyndari Denise Bodden

Helga Lilja Magnúsdóttir ætlaði sér alls ekki að verða fatahönnuður þegar hún var lítil, en hana klæjaði hins vegar alltaf í fingurna þegar hún heimsótti Blómaval og dreymdi um að vinna í gróðurhúsi. Örlögin höguðu því þó þannig að Helga ákvað að nema fatahönnun. Í dag hannar hún undir nafninu Helicopter, á milli þess sem hún dansar ballett, fer í fjallgöngur og borðar góðan mat í Berlín þar sem hún er búsett.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil? Hefur þú kannski alltaf ætlað að leggja fyrir þig fatahönnun?

„Nei, ég hef sko alls ekki alltaf ætlað að vera fatahönnuður. Þegar ég var lítil dreymdi mig um starf í blómageiranum. Ég sá stelpur sem unnu í kringum blóm og í blómabúðum í hillingum og kitlaði í puttana þegar ég fór með mömmu í Blómaval. Mig kitlar enn þá jafnmikið í puttana og magann þegar ég er í blómabúðum, mig langar enn þá að vera blómakona og vinna í gróðurhúsi.“

Helga hugsar mikið í myndum, en sniðin koma síðan jafnan …
Helga hugsar mikið í myndum, en sniðin koma síðan jafnan í kringum myndirnar. Ljósmyndari Denise Bodden

Hvaðan færð þú innblástur?

„Ég fæ innblástur úr umhverfinu mínu og straumum lífsins. Til að byrja með vann ég mikið með fjölskyldutengsl og íslenska náttúru en upp á síðkastið hafa tilfinningar og breytingar í lífinu kveikt í mér. Það er gott að vinna út frá því hvernig manni líður hverju sinni, það er svo heiðarlegt við mann sjálfan.“

Hvaða efnivið finnst þér skemmtilegast að vinna með?

„Mér finnst langskemmtilegast að vinna með prent. Viscose jersey-efni prentuð með mínum prentum er það sem skemmtir mér mest. Þegar ég er að byrja á nýrri línu hugsa ég allt í myndum, prentum og sniðin koma í kringum myndirnar sem ég horfi á með lokuð augun.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið þitt?

„Mér finnst langskemmtilegast að vinna prentin eftir að hugmyndin að línunni hefur náð einhverri fótfestu.“

Hönnun Helgu Lilju er seld í fjórum löndum.
Hönnun Helgu Lilju er seld í fjórum löndum. Ljósmyndari Denise Bodden

Er erfitt að starfa við fatahönnun á Íslandi, þar sem markaðurinn er fremur lítill?

„Ég veit ekki hvernig ég á að svara þessari spurningu, því að þó að ég hafi flutt frá Íslandi þá starfa ég samt mest þar. Það er erfitt að fara frá Íslandi, ég get svarað því alveg óhikað, markaðurinn alls staðar annars staðar er tormeltur en eins og er er Helicopter selt í fjórum löndum og gengur vel.“

Átt þú þér einhver átrúnaðargoð, hönnuði eða aðra listamenn sem þú lítur upp til?

„Bernhard Willhelm og Henrik Vibskov hafa alltaf verið í svakalegu uppáhaldi. Hönnuðirnir sem eru með mér í Kiosk á Laugavegi eru líka þvílíkur rjómi að leitun er að öðru eins.“

Hverju myndir þú aldrei klæðast á almannafæri?

„Crocks-skóm.“

Hver er eftirlætis maturinn þinn?

„ARG ég veit það ekki! Ég ELSKA MAT!!“

Helgu Lilju finnst gaman að leika sér með prent.
Helgu Lilju finnst gaman að leika sér með prent. Ljósmyndari Denise Bodden

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki að stússast í fötum og tísku?

„Dansa ballett, fara í fjallgöngur og á skíði og á hestbak. Lesa og vera í góðu veðri. Drekka bjór með vinum mínum og hlæja. Svo er það alveg nýtt hjá mér að ég er fanatíker þegar það kemur að hreingerningum, mér finnst þær í alvörunni skemmtilegar. Heima hjá mér það er að segja.“

Hvað gerir þú til að slaka á þegar þú ert búin að vinna yfir þig?

„Les bækur á morgnana meðan ég drekk kaffibollann minn og fer í jóga ef ég hef ekki tíma til að fara í stutta heimsókn til Bryndísar vinkonu minnar í Innsbruck að renna mér í Ölpunum.“

Hvernig hljómar uppskrift þín að fullkomnun degi?

„Byrja á fá mér egg og beikon og lesa svo tvo kafla með kaffibollanum. Vinna í svona þrjá tíma og fara svo á Hamburger Bahnhof (safn hér í Berlín), hjólandi í góðu veðri og enda á vínbarnum í götunni minni og fá mér boeuf bourguignon og gott rauðvín. Þetta er að minnsta kosti nákvæmlega það sem ég hefði mest viljað gera akkúrat í dag. En það er mjög breytilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál