Saknar þess að sjá sjóinn á hverjum degi

Brynja þeysist um London á línuskautum.
Brynja þeysist um London á línuskautum. Ljósmynd/Aðsend mynd

Brynja Guðmundsdóttir er 21 árs og starfar sem fyrirsæta hjá Nevs Model Agency í London. Hún flutti til London í október og segir fyrirsætubransann geta verið erfiðan á tímum. Við fengum að spyrja Brynju nokkurra spurninga um lífið og tilveruna í London

Hvernig er að búa í London?

„Það fer mjög mikið eftir árstíðum finnst mér. London er æðisleg um sumar. Þegar allt er grænt og þú getur verið úti í stuttbuxum og hlýrabol. Það er svo mikið af fallegum görðum til að slaka á í út um allt með tjörn og fullt af mismunandi trjátegundum og blómum. Á veturna getur London verið svolítið grámygluleg. Leiðinlegt veður, allir einhvern veginn uppteknir, strunsa fram hjá manni og þá er allt öðruvísi fílingur en á sumrin. Mér finnst líka mjög erfitt að fá aldrei að sjá sjóinn, sérstaklega þegar maður var alinn upp á Íslandi og sá sjóinn á hverjum degi.“

„Svo finnst mér flest húsin hérna vera alveg hrikalega ljót en þau eru flest búin til úr múrsteinum og oft eru alveg heilu lengjurnar af húsum nákvæmlega eins, hljómar kannski einkennilega en það hefur áhrif á upplifunina á borginni. Svo þó að allt sé til alls í London og meira en það þá er það oft hinum megin í borginni og stundum þarf ég að ferðast samtals 3 klukkustundir á dag bara inni í borginni. En lestarkerfið er mjög þægilegt og maður þarf kannski að finna upp á einhverju sniðugu til að nýta tímann sem maður eyðir í lestinni.“

Brynja segir fyrirsætubransann geta verið erfiðan í London.
Brynja segir fyrirsætubransann geta verið erfiðan í London. Ljósmynd/Aðsend mynd

Er fyrirsætubransinn erfiður þarna úti?

„Hann getur verið það já. Maður getur ekki verið mjög viðkvæmur og unnið við þetta. Manni líður stundum svolítið eins og það sé alltaf eitthvað verið að dæma mann og eins og það eina sem maður hefur sé útlit. Svo fæ ég alltaf að vita kvöldið fyrir hvað ég á gera daginn eftir. Sem gerir það að verkum að það er erfitt að skipuleggja dagana og vikurnar. Svo dettur maður stundum í það að hugsa aðeins of mikið um útlitið þar sem vinnan manns gengur út á það. En maður verður bara að passa sig að gera ekki of mikið af því og muna að þó að einhver einn segi nei þá þýðir það alls ekki að enginn vilji fá þig í vinnu heldur frekar að þú ert ekki það sem sá er að leita að einmitt þá stundina. En annars eru flestir mjög vingjarnlegir, bæði fólkið sem fær mig í vinnu og fólkið á umboðsskrifstofunni sem ég vinn fyrir er algjört æði. Mér finnst líka eins og þessi bransi sé búinn að breytist svolítið síðustu árin. Þú þarft ekki endilega að vera örmjó og 180 cm á hæð, finnst vera meiri fjölbreytni núna og fólk er oft meira að leitast eftir stelpum sem hafa sterkan persónuleika.“

Hver eru þín helstu áhugamál? 

„Ég elska að vera úti í náttúrunni, fara í fjallgöngur, út á línuskauta, í frisbí og göngutúr. Ég hef einnig mikinn áhuga á tísku, ég get skoðað föt, skó, fylgihluti endalaust á netinu. Ég elska líka að finna einfaldar góðar og hollar uppskriftir og betrumbæta að eigin hætti. Svo hef ég líka gaman af því að skapa, sama hvað það er.“

Verkefni Brynju.
Verkefni Brynju. Ljósmynd/Aðsend mynd

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

„Fer algjörlega eftir skapi en yfirleitt frekar afslappaður, en það sem grípur augað oftast er eitthvað sem er öðruvísi og sker sig úr eða eitthvað sem er mega þægilegt.“

Fyrir hverju fellur þú yfirleitt?

„Jökkum og sólgleraugum. Elska baggy jakka og stór edgy sólgleraugu.“

Hvað gerir þú til að verðlauna þig? 

„Kaupi mér eitthvað töff eða fer í brunch á einhvern næs vegan-stað.“

Hvað er það seinasta sem þú keyptir þér og elskaðir? 

„Reebook rósagull-strigaskórnir mínir.“

Sólgleraugu eru í miklu uppáhaldi hjá Brynju. Þessi eru frá …
Sólgleraugu eru í miklu uppáhaldi hjá Brynju. Þessi eru frá Quay. Ljósmynd/Aðsend mynd

Hlutur sem er þér ómissandi?

„Sólgleraugu! Er alltaf með alla vega eitt stykki meðferðis.“

Uppáhaldsborg? 

„Örugglega San Francisco eða LA. Elska Kaliforníu.“

Seinasti veitingastaður sem vakti hrifningu þína?

„Skriðuklaustur. Kom mér mjög svo á óvart en ég fór hringinn í kringum Ísland í sumar og stoppaði á Skriðuklaustri fyrir austan og þau buðu upp á vegan-hlaðborð. Ótrúlega heimilislegt og maturinn var einn besti sem ég hef fengið.“

Uppáhaldsskart eða -aukahlutur? 

„Sólgleraugu enn og aftur. En til að vera nákvæmari þá örugglega Quay-sólgleraugun sem ég keypti mér í sumar.“

Brynja saknar stundum Íslands.
Brynja saknar stundum Íslands. Ljósmynd/Aðsend mynd

Snyrtivara sem þú gætir ekki verið án? 

„Steinefnabaugafelarinn minn. Set hann oftast á mig, bretti á mér augnahárin og labba út. Er ekki mjög góð í að mála mig og á ekki mikið af snyrtivörum þannig að ég hef þetta oftast svona einfalt, nenni svona einhvern veginn aldrei að læra á þetta allt saman. En ég elska líka varaliti og set alltaf varalit á mig ef ég fer eitthvað út á kvöldin.“

Uppáhalds-smáforrit? 

„Instagram myndi ég segja, ég eyði langmestum tíma þar. Að skoða allt milli himins og jarðar og svo sjá um mitt eigið Instagram. Það getur verið mjög mikilvægt að það sé í toppstandi þar sem Instagrammið manns er oft skoðað í sambandi við vinnuna.“

Hvað er á óskalistanum þessa stundina?

„Kjóll, ný chunky stígvél eða silkijakki.“

Hægt er að fylgjast með ævintýrum Brynju á Instagram undir notandanafninu @BrynjaQla.

Uppáhalds borgir Brynju eru San Francisco og LA.
Uppáhalds borgir Brynju eru San Francisco og LA. Ljósmynd/Aðsend mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál