Nóg að gera fyrir þá sem eru duglegir og nenna að vinna

Harpa Finnsdóttir hefur getið sér gott orð sem förðunarfræðingur undanfarið.
Harpa Finnsdóttir hefur getið sér gott orð sem förðunarfræðingur undanfarið. Ljósmynd úr einkasafni

„Ég held ég hafi alltaf haft áhuga á förðun. Ég lærði í Airbrush and Makeup Shcool árið 2010 og fór eftir það að vinna í MAC sem var skóli í sjálfu sér. Ég útskrifaðist úr myndlist frá Listaháskóla Íslands núna í vor og hef mikinn áhuga á að sameina þetta tvennt. Í gegnum förðunina er hægt að skapa svo margt, búa til karaktera og alls kyns gervi,“ segir förðunarfræðingurinn Harpa Finnsdóttir.

Harpa hefur undanfarið getið sér gott orð og sá meðal annars um förðun í nýju tónlistarmyndbandi Major Lazer, sem nefnist „Cold Water“, en Justin Bieber og hin danska MØ syngja í laginu þótt þau hafi ekki komið fram í myndbandinu.

 „Mitt hlutverk var að mála dansarana og sjá til þess að förðunin og hárið héldist í lagi allan daginn. Ég fór á fund með leikstjóra og búningahönnuði og við ákváðum að hafa „lúkkið“ á þeim frekar náttúrulegt. Síðan hafði ég frekar frjálsar hendur og breytti „lúkkinu“ stundum aðeins á milli atriða. Myndbandið var tekið á nokkrum dögum, en á mörgum stöðum svo ég hafði lítinn tíma og varð að hafa mjög hraðar hendur. Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegt og yndislegt fólk sem stóð að þessu öllu. Útkoman er mjög flott,“ segir Harpa sem er ekki ókunnug kvikmyndabransanum, en fyrr í sumar starfaði hún við tökur á nýrri íslenskri kvikmynd sem nefnist Svanurinn. En hvernig var hefðbundinn dagur á setti?

 „Mitt hlutverk var að hjálpa þeim Guðbjörgu Huldísi sminku og Sylvíu Dögg Halldórsdóttur búningahönnuði. Þær eru báðar eru algjörir snillar og ótrúlega klárar. Okkar samstarf gekk vonum framar og ég væri alltaf til í að vinna með þeim tveimur, enda höfum við haldið áfram að vinna saman eftir myndina. Venjulegur dagur hjá mér var aðallega að vera á setti og sjá til þess að allir leikarar væru eins á milli atriða, bæði hvað varðar förðun, hár og fatnað. Einnig að skipta um „lúkk“ á milli atriða. Það þurfti líka að undirbúa næsta dag, eyða fötum sem áttu að líta út fyrir að vera notuð og fleira skemmtilegt í þeim dúr. Það kom mér á óvart hvað mér fannst gaman að vera partur af búningadeildinni. Þetta var mjög krefjandi og með því skemmtilegra sem ég hef gert. Töku- og leikaralið var alveg frábært. Gríma Valsdóttir er aðalleikkonan í myndinni. Hún er mjög ung en ótrúlega hæfileikarík stelpa. Hún var eiginlega í öllum atriðum í myndinni svo við urðum alveg perluvinkonur. Ég þurfti stöðugt að vera að laga fötin eða hárið og hún sýndi því alltaf svo mikinn skilning, enda mjög „pró“ þrátt fyrir ungan aldur,“ bætir Harpa við.

Harpa við tökur á tónlistarmyndbandinu „Cold Water“.
Harpa við tökur á tónlistarmyndbandinu „Cold Water“. Ljósmyndari / Árni Júl

Nóg að gera fyrir þá sem nenna að vinna

Spurð að því hvort það sé ekki hark að starfa í kvikmyndabransanum segir Harpa að það sé nóg að gera fyrir þá sem eru duglegir og nenna að vinna, það taki þó svolítinn tíma að komast inn í bransann. En hvað finnst Hörpu skemmtilegast við starfið?

„Hvað það er rosalega fjölbreytt og maður kynnist svo mörgum listrænum og áhugaverðum einstaklingum. Enginn dagur er eins. Það er líka svo gaman þegar gengur vel og maður fær fiðring í magann yfir lokaútkomunni. Bæði í leikhúsi og bíómyndum eru svo margar deildir og margir fagaðilar sem koma saman, og allar deildir eru jafnmikilvægar því ef það vantar eina þá gengur dæmið ekki upp,“ segir Harpa og bætir við að uppáhaldsverkefnin um þessar mundir séu Svanurinn og myndbandið við „Cold Water“.

 „Núna er það náttúrulega Svanurinn og tónlistarmyndbandið sem standa upp úr. Síðustu þrjú ár hef ég unnið í Borgarleikhúsinu og tekið þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum þar. Um helgina var ég að vinna í stuttmynd sem heitir Búi og Inga Lisa Middleton er að leikstýra. Þetta var mjög skemmtilegt en krefjandi verkefni og ég leitaði oft ráða hjá Dísu Bjarnþórsdóttur sem er yfir leikgervum í Borgarleikhúsinu, og er algjör reynslubolti. Ég þekki svo mikið af frábærum sminkum sem ég get leitað ráða hjá ef ég er í einhverjum flóknum verkefnum.“

Að sögn Hörpu er draumurinn að halda áfram að vinna við kvikmyndir, enda finnst henni gaman að taka að sér löng og krefjandi verkefni. Og þótt hún sé hæstánægð með að hafa nóg fyrir stafni, myndi hún ekki slá hendinni á móti svolitlum frítíma inn á milli verkefna.

 „Ég reyni að sinna myndlistinni í frítíma. Ég væri stundum til í að hafa aðeins meiri tíma á milli verkefna svo ég næði að gera meira af minni eigin myndlist, en maður þakkar auðvitað fyrir að hafa nóg að gera,“ segir Harpa að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál