„Hefur verið karlaklúbbur í gegnum tíðina“

Lovísa Lára Halldórsdóttir lauk nýverið tökum á sinni fyrstu kvikmynd …
Lovísa Lára Halldórsdóttir lauk nýverið tökum á sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Ljósmynd / Lovísa Lára Halldórsdóttir

Lovísa Lára Halldórsdóttir hefur alla tíð verið áhugasöm um kvikmyndir, en hún segir áhugann þó hafa kviknað af alvöru í kringum 12 ára aldurinn þegar systir hennar fór að halda hryllingsmyndakvöld.

Þá leigðum við nokkrar hrollvekjur og vöktum alla nóttina að horfa. Við horfðum jafnt á klassískar hrollvekjur eins og Halloween, Psycho og Nosferatu, alveg niður í verstu B-myndirnar; Frogs, Trolls 2 og auðvitað Frostbiter. Eftir þessi kvöld fór ég virkilega að hugsa um það hvernig bíómyndir eru gerðar. Fljótlega eftir það fékk ég áhuga á handritaskrifum, mér datt hins vegar aldrei í hug að ég gæti orðið leikstjóri, þar sem í mínum huga voru leikstjórar alltaf gráhærðir karlmenn,“ segir Lovísa en hún vann í tískugeiranum, meðal annars sem stílisti og förðunarfræðingur, áður en hún hóf nám í kvikmyndaskólanum.

 „Mér fannst það þó aldrei eiga almennilega við mig. Þegar ég byrjaði í kvikmyndaskólanum þá fannst mér ég vera komin „heim“ þannig að núna kemur ekkert annað til greina.“

Lovísa Lára lauk nýverið tökum á sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd, Týndu stelpurnar, en hvernig kom það til að hún réðst í gerð myndarinnar?

„Ég var búin að vera með hugmyndina um þetta handrit í hausnum í nokkur ár, var búin að hripa eitthvað niður en var ekki með nein sértök plön. Svo á dimmu sunnudagskvöldi fæ ég einhvern svakalegan innblástur um það hvernig ég geti tekið upp og gert þessa mynd án þess að þurfa mikið fjármagn og þannig tengt hana við það sem er að gerast í samfélaginu í dag. Ég fékk með mér í lið teymi af ótrúlega flottu kvikmyndagerðarfólki sem hafði trú á verkinu og vildi hjálpa, og í rauninni gerðist þetta mjög hratt út frá því,“ segir Lovísa, sem kannast ekki við að það sé bras að starfa við kvikmyndagerð hér á landi.

Týndu stelpurnar er fyrsta kvikmynd Lovísu í fullri lengd, en …
Týndu stelpurnar er fyrsta kvikmynd Lovísu í fullri lengd, en hún hefur áður gert stuttmyndir. Kynningarplakat myndarinnar

 „Það fer reyndar eftir því hvað þú vilt gera í bransanum. Það eru mörg verkefni í gangi hér og tæknimenn og fólk í framleiðsluaðstoð (e. production assistant) á til dæmis auðvelt með að koma sér á sett. En leikstjórar og handritshöfundar þurfa að sækja styrki og það eru mjög margir að sækja um sömu styrkina, það gerir þetta svolítið erfitt. Þá þarf maður bara að vera duglegur og úrræðagóður.“

Kvikmyndabransinn hefur lengi verið gagnrýndur fyrir það hversu hversu fáar konur starfa innan hans, en er erfiðara fyrir konur að koma sér á framfæri í kvikmyndaiðnaðinum?

„Já, það er það. Þessi bransi hefur verið karlaklúbbur í gegnum tíðina. Ég hef til dæmis fengið „komment“ um að ég geti ekki leikstýrt, einfaldlega því ég er kona. En, sem betur fer, er þetta að breytast. Á næsta ári koma út nokkrar myndir eftir konur, og með konur í aðalhlutverkum. Það er virkilega gaman að sjá. Þá er bara að vona að þetta haldi áfram að þróast í þessa átt,“ segir Lovísa.

Eins og áður sagði kviknaði áhugi Lovísu á kvikmyndagerð eftir að hún fór að horfa á hryllingsmyndir af miklum móð, en hvað er það við slíkar myndir sem heillar?

„Það þarf ekki mikinn pening til þess að gera hrollvekju sem hefur áhrif á fólk. Hvort sem það öskrar, grætur, hlær eða hneykslast. Sumar bestu hryllingsmyndirnar voru gerðar með svakalega litlu fjármagni, lélegum leikurum, gervilegu blóði en þær eru samt æðislegar. Það eru einhverjir töfrar í hryllingsmyndum. Það er líka eitthvað við að vera í öruggu umhverfi og upplifa hræðslu og spennu,“ játar Lovísa Lára og bætir við að fyrirmyndir hennar í kvikmyndagerð séu Andrea Arnold, David Cronenberg og Lukas Moodysson. „Svo horfi ég einnig mikið upp til íslensku kvikmyndagerðarkvennanna sem eru að gera myndir, til dæmis Kristínar Jóhannesdóttur.“

Lovísa er með mörg járn í eldinum, en um þessar mundir vinnur hún að heimildamynd, auk þess sem hún er strax farin að undirbúa handrit að næstu kvikmynd. En hvað ráðleggur hún ungum stúlkum sem hafa áhuga á að spreyta sig í kvikmyndagerð?

 „Bara að gera myndir. Ekki bíða eftir leyfi eða viðurkenningu. Ekki vera hræddar við að gera mistök. Það þarf ekki allt að vera fullkomið. Við (stelpur) megum líka gera lélegar myndir.“

Lovísa Lára hefur áður gert stuttmyndir, til að mynda Creep sem skartar Ágústu Evu Erlendsdóttur í aðalhlutverki.

Kolfinna Þorgrímsdóttir og Sonja Rut Valdin fara með aðalhlutverkin í …
Kolfinna Þorgrímsdóttir og Sonja Rut Valdin fara með aðalhlutverkin í Týndu stelpunum. Ljósmyndari / Stefán Birgir Stefánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál