„Er alger dellumanneskja“

Sigríður segist vera mikil dellumanneskja, sem á sér mörg áhugamál.
Sigríður segist vera mikil dellumanneskja, sem á sér mörg áhugamál. Ljósmyndari / Eggert Jóhannesson

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, eða Sigga Hagalín, er flestum landsmönnum vel kunn enda hefur hún lengi starfað sem fréttakona. Á dögunum kom út fyrsta skáldsaga Sigríðar, bókin Eyland, sem strax er farin að vekja mikla eftirtekt.

Smartland fór á stúfana og ákvað að kanna hvernig fyrsta jólabókaflóð leggst í Sigríði, og komst einnig að því að jólin eru dauðans alvara hjá þessum nýbakaða rithöfundi.

Hefur þú lengi verið með hugmyndina að bókinni þinni, Eyland, í maganum, eða er þetta eitthvað sem þú hristir fram úr erminni?

„Ég fékk hugmyndina fyrir meira en 10 árum, eiginlega í kjölfar árásanna á tvíburaturnana í New York. Mér fannst hún eitthvað svo augljós og beið alltaf eftir því að einhver rithöfundur skrifaði þessa sögu, en það gerðist aldrei. Svo safnaði hugmyndin utan á sig alls konar smáatriðum, eins og snjóbolti, og á endanum ákvað ég bara að skrifa hana sjálf.“

Hvert sækir þú innblástur?

„Innblásturinn að Eylandi er bæði sóttur í fréttir – eða bara atburði undanfarin ár – og í söguna. Mér hefur alltaf fundist heillandi hvað Ísland var fáránlega einangrað og harðbýlt og skrítið í gamla daga, og langaði til að skrifa um það. Svo sótti ég innblástur í alls konar sem ég hef áhuga á, tónlist, matargerð, garðyrkju, íslenska náttúru – nefndu það bara.“

Hvar og hvernig finnst þér best að skrifa?

„Ég hafði bara þrjá mánuði til að skrifa uppkastið að Eylandi, svo ég þurfti að setjast niður snemma á hverjum morgni og skrifa allan daginn. Það var dálítið skrítið að venjast því að skrifa svona og skrifa, þótt ég væri kannski ekkert sérstaklega skáldlega stemmd þann daginn og vissi ekkert hvað kæmi frá mér. En þetta reyndist mér ágætlega, jafnvel andlausustu dagarnir skiluðu mér einhverjum hugmyndum og köflum sem ég gat síðan unnið meira með þegar ég var í stuði. Þetta hentar mér best, að vinna hratt og undir pressu.“

Eyland er fyrsta skáldsaga Sigríðar.
Eyland er fyrsta skáldsaga Sigríðar. Kápa bókarinnar Eyland

Hvernig er að vera rithöfundur í desember?

„Ég veit það ekki! Ég hef aldrei prófað það áður! En þetta virkar ægilega gaman, að fara á alls kyns bókakvöld og kynningar til að lesa upp og tala um bókina.“

Hvernig líst þér á jólabókaflóðið í ár, er samkeppnin hörð?

„Mér sýnist þetta verða frábær bókajól, og er eiginlega djúpt snortin yfir því að fá að gefa út bókina mína í svona flottum félagsskap. Ég held að bókmenntir snúist meira um samlegðaráhrif en samkeppni.“

Hvað hlakkar þú mest til að lesa?

„Ég hlakka alveg óskaplega til að lesa Auði Övu, Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Sölva Björn Sigurðsson, Sjón, Árna Þórarinsson, Ljósin á Dettifossi eftir Davíð Loga Sigurðsson og Svarta víkinginn eftir Bergsvein Birgisson. Og þær eru miklu fleiri – þetta eru eiginlega vandræðalega margar flottar bækur.“

Hvað finnst þér skemmtilegt að gera í frístundum, þegar þú ert hvorki að lesa né skrifa?

„Ég á mér alveg óendanlega mörg áhugamál, er alger dellumanneskja og helli mér út í furðulegustu hluti. En mér finnst skemmtilegast að vera með fólkinu mínu, fjölskyldu og vinum. Helst á skíðum.“

Ert þú mikið jólabarn?

„Já. Jólin hjá mér eru dauðans alvara.“

Hvað finnst þér algerlega ómissandi yfir hátíðarnar?

„Að lesa góðar bækur. Helst uppi í rúmi, langt fram á nótt.“

Einhver lokaorð?

„Njótið jólaundirbúningsins! Minna Ajax, fleiri bækur!“

Sigríður Hagalín Björnsdóttir sendi á dögunum frá sér sína fyrstu …
Sigríður Hagalín Björnsdóttir sendi á dögunum frá sér sína fyrstu bók. Ljósmyndari / Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál