Sinnti skrifum í baðinu og í lestinni

Magnús skrifaði Bráð samhliða því að sinna fjölskyldunni og vinnunni …
Magnús skrifaði Bráð samhliða því að sinna fjölskyldunni og vinnunni vel.

Magnús Þór Helgason gaf nýverið út sína fyrstu skáldsögu, bókin nefnist Bráð. Magnús segir krefjandi að skrifa bók samhliða því að reka heimili og vera í fullri vinnu, en allt gekk þetta upp enda tileinkaði Magnús sér skipulögð vinnubrögð. „Ég bý í Västerås í Svíþjóð ásamt konunni minni og þremur börnum og starfa sem ráðgjafi í innleiðingu kjarnakerfa banka. Það er dálítið púsluspil að sinna skrifum samhliða fjölskyldulífi og krefjandi vinnu án þess að nokkuð rask verði á,“ segir hann.

En hvernig fór hann að þessu? „Ég hafði ekki alltaf tök á því að skrifa í lestinni því oft þurfti ég að nota þann tíma fyrir vinnuna. Þá varð ég að reyna að finna lausan tíma fyrir þetta nýja áhugamál mitt, ástríðan fyrir skrifunum var orðin svo mikil. Ég og konan mín erum svo lánsöm að eiga þrjú yndisleg börn, strák og stelpu á skólaaldri og strák í leikskóla. Fjölskyldudagatalið er því ansi þéttsetið og við erum bæði í fullri vinnu. Íþróttaæfingar, sækja og skutla til vina, afmælisboð bekkjarfélaga og annað sem þarf að hafa með í skipulagningu hversdagslífsins. Við fjölskyldan reynum að gera eins mikið saman og hægt er þegar allir eru í fríi og helgarnar eru til dæmis heilagur tími sem við reynum að forgangsraða í þágu fjölskyldunnar. Ég sá fljótlega að ég vildi alls ekki fórna þessum dýrmæta tíma sem við verjum saman og ég byrjaði því að skoða hvaða tíma væri raunhæft að nota í skrifin. Þá kom í ljós að það voru nokkuð margar lausar hálftímaeiningar sem ég hugsanlega gæti notað án þess að stela of miklu af sameiginlegum tíma fjölskyldunnar. Þar að auki byrjaði ég að fara í svokölluð skáldböð,“ útskýrir Magnús.

Aðspurður hvað skáldaböð séu segir Magnús það vera vettvang fyrir hugmyndavinnu. „Ég grínast oft með það hérna heima að ég sé að fara í skáldbað í staðinn fyrir að fara í sturtu. Þann tíma get ég þá notað til að skrifa í huganum, setja upp senur, hugsa um samtöl og  búa til karaktera. Ég var nefnilega í baði þegar ég fór fyrst að fá hugmyndir að alls kyns spennuplottum og áhugaverðum karakterum. Ef ég þarf að fara betur yfir einhverja senu eða endurskoða karakter sem mér finnst ekki ganga upp þá hendi ég mér í bað. Hálftíma bað er því betri nýting á tíma en korters sturta. Þetta virkar vel fyrir mig. Það fer töluverður tími skrifanna í að spá og spekúlera. Þegar ég fer út að skokka í hálftíma, þá nota ég líka tímann og læt heilann vinna á meðan.“

Skrifar í stað þess að hanga í símanum

Svo eru það hálftímaeiningarnar sem Magnús notaðist líka við. „Hálftímaeining er sú minnsta tímaeining sem ég þarf við tölvu til að komast eitthvað áfram í handritunum. Þegar maður fer yfir líf sitt þá kemur í ljós að það er ansi mikið af hálftímaeiningum sem ekki eru nýttar. Oft hefur maður setið fyrir framan sjónvarpið með snjallsímann í hendinni án þess að gera neitt gáfulegt. Margir hálftímar á viku safnast saman í nokkra klukkutíma. Þetta er fljótt að fara upp í heilan vinnudag á viku eða jafnvel fleiri. Ég vinn vinnu þar sem ég skrifa mikið af tölvupósti og skjölum og því pikka ég mjög hratt á tölvuna. Oft næ ég því að skrifa mig gróflega í gegnum heilan kafla á hálftíma, hugmynd sem hefur kannski setið í kollinum á mér yfir daginn.“

Magnús hafði það sem reglu að skrifa ekki á meðan börnin voru vakandi. „Eins og ég nefndi áður þá er alltaf svolítið prógramm hjá okkur eftir vinnu. Æfingar, heimalærdómur, kvöldmatur og bara að sinna börnum, það er því alltaf nóg að gera þar til börnin fara að sofa. Þetta er þó sá tími á virku dögunum sem við erum saman, morgnarnir eru svo stuttir. Ég hef því haft það sem reglu að grípa helst aldrei í skrifin þegar börnin eru vakandi og síst um helgar þótt ég sé í fríi frá vinnu í tvo heila daga. Þegar börnin eru sofnuð þá tek ég hálftíma hér og hálftíma þar ef ég er í stuði. Eftir langan vinnudag er það meira slakandi fyrir mig að skrifa en til dæmis að lesa bók. Ég vinn sem ráðgjafi í bankabransanum og þar eru hlutirnir oft niðurnjörvaðir. Það er því gott að komast í algeran sköpunarham og tæma hugann eftir erfiðan dag í vinnunni, stundum er það ein hálftímaeining og stundum nokkrar. Svo eru lestarferðirnar bónus, ef ég þarf ekki að klára nein vinnutengd mál í lestinni þá næ ég oft hálftímaeiningu þar, stundum tveimur ef lestinni seinkar,“ útskýrir Magnús. Með þessu fyrirkomulagi náði Magnús að koma Bráð á markað á rúmu ári. „Já, það leið rúmlega ár frá því að ég byrjaði á Bráð og þar til bókin kom út núna í nóvember. Inni í því tímabili er útgáfuferlið sem er líklega helmingur þess tíma. Áður en ég byrjaði á Bráð var ég þó búinn að fikta við skrifin og vera að æfa mig í rúmlega eitt og hálft ár.“

Magnús fékk mikla útrás við að skrifa Bráð en hvernig kom það til, að hann fór að skrifa? „Þetta byrjaði eiginlega mjög óvænt þótt ég hafi löngu áður verið byrjaður að fá hugmyndir að sögum. Ég sat í lestinni í janúar 2014 og nennti ekki að vinna, eins og ég gerði gjarnan í lestinni. Ég var búinn að lesa jólakrimmana og hafði eiginlega ekkert að gera til að drepa tímann. Þá opnaði ég Word-skjal og bara byrjaði. Í fyrstu prófaði ég að skrifa einn kafla en þeir urðu síðan fleiri og fleiri. Fljótlega áttaði ég mig á því að skáldsaga í fullri lengd var að fæðast. Eftir að hafa búið erlendis í nokkur ár ég hafði ég ekki skrifað neitt að ráði á íslensku nema stöku tölvupóst, æfingin var því nauðsynleg og ég var orðinn spenntur að komast í lestina.“

Mælir með að skipta sjónvarpinu út fyrir áhugamálið

Eftir að hafa skrifað Bráð hefur Magnús lært ýmislegt og nú lumar hann á góðum ráðum fyrir þá sem vilja nýta tíma sinn betur. Hann mælir með að fólk hugleiði hvert dauði tími þeirra fer. „Það er skynsamlegt að reyna að nýta tímann í eitthvað uppbyggilegt. Ég sá sjálfur að það var alveg hellingur til af lausum tíma sem fór hvort sem er í að hanga í snjallsímanum eða horfa á sjónvarpið, þetta eru einir helstu tímaþjófarnir okkar í dag. Að skrifa skáldsögur meðfram vinnu og fjölskyldulífi er vel mögulegt, það sem gildir er að finna hið gullna jafnvægi sem fer eftir aðstæðum hvers og eins. Það sama á í raun við um öll áhugamál sem fólk vill stunda samhliða fjölskyldulífi og vinnu, þá er best að skipta út óuppbyggilegum tíma fyrir uppbyggilegan sem hægt er að nota í að sinna áhugamálunum, án þess þó að þurfa að verja minni tíma með fjölskyldunni.“

Það er útgáfan Óðinsauga sem gefur Bráð út.
Það er útgáfan Óðinsauga sem gefur Bráð út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál