„Búin að taka allt í gegn, þrífa og græja“

Vigdís Hauksdóttir er mikið jólabarn.
Vigdís Hauksdóttir er mikið jólabarn. Ljósmyndari / Styrmir Kári

Fyrrverandi þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir mun á miðviku- og fimmtudag bretta upp ermar og kenna landanum hvernig best er að bera sig að við jólaskreytingarnar. Vigdís er ekki ókunn blóma- eða jólaskreytingum enda starfaði hún í Blómaval á árum áður. Fyrir nokkrum árum var hún síðan beðin að kenna á námskeiði sem verslunin stendur fyrir á aðventunni, og hefur hún gert það á hverju ári síðan.

„Mér fannst þetta svo spennandi að ég ákvað að taka þátt, og nú þegar þessi dagur nálgast kemst ég í þetta skemmtilega jólaskap og aðventufíling. Og það hentar mér mjög vel því ég er sjálf mikið jólabarn,“ segir Vigdís og bætir við að nú megi endilega fara að snjóa svo það fari nú að verða aðventulegt.“

Vigdís segir að það séu miklar sveiflur í jólatískunni, eins og öðru, og aðallega þá litunum sem notaðir eru í skreytingarnar.

„Hér á landi, eins og í Skandinavíu, eru náttúrulegar skreytingar mjög vinsælar, könglar, lifandi epli, greni, fura og bland af því. Bæði í aðventuskreytingum, jólaskrauti, hurðakrönsum og slíku. Það er alltaf klassískt. Svo eru litir með sem breytast ár frá ári, segir Vigdís og bætir við að í ár sé hvítt og silfur afar móðins.

 „Svo fyrir þá sem eru með stór og flott eikarborð þá er kopar flottur, en hann var líka svolítið í fyrra. Við erum einnig aðeins að notast við túrkís og bláan lit. Silfur og hvítt er alltaf svolítið vinsælt, sérstaklega ef það er mikil rigningartíð á aðventunni. Þá færir fólk snjóinn inn til sín.“

Vigdís segir að náttúrulegt jólaskraut sé alltaf vinsælt.
Vigdís segir að náttúrulegt jólaskraut sé alltaf vinsælt. Ljósmynd / Getty Images

En skyldi Vigdís vera farin að skreyta heima hjá sér?

„Ég hef notað tímann vel eftir að ég hætti á þingi, er búin að taka allt í gegn, þrífa og græja. Nú bíð ég eftir því að fara að setja smá jólaskraut upp. Ég byrja mjög rólega, en ég hugsa að ég fari nú eitthvað af stað næstu helgi,“ segir Vigdís, og bætir við að hún hrífist sjálf mest af náttúrulegum jólaskreytingum.

„Ég hrífst ekki með tískustraumum. Ég er íhaldssöm og vil hafa þetta sem mest náttúrulegt, mosa, góða eplalykt og góða furulykt. þegar það svo gefur sig, eplin skorpna og furan þornar skipti ég því út og fæ nýja lykt. Svo er ég líka alltaf með lifandi jólatré. Þannig að ég er klassísk og finnst þetta alltaf fallegast.“

Vigdís sér fram á hugguleg jól í ár, enda hefur hún nú tíma til að njóta hátíðanna af heilum hug.

„Í desember ætla ég að njóta þess, í fyrsta skipti í fleiri ár, að vera ekki í fastri vinnu og hafa ekkert sérstakt á prjónunum. Ég var í blómunum hérna áður fyrr og þá var alltaf brjálað að gera í jólaskreytingum í desember. Svo fór ég í lögfræðinám og þá fór desember í prófalestur. Svo fór þingið í það að vera með næturfundi og fjárlagagerð. Nú er ég loksins að komast í stóra jólafríið sem ég hef ekki komist í undanfarin 20 ár. Ég ætla að njóta aðventunnar, labba Laugaveginn, og njóta jólaandans án þess að vera í einhverju stresskasti eða vera með þungar atvinnubyrðar á herðunum,“ játar Vigdís glettin og mælir með því að fólk reyni frekar að njóta lífsins, í stað þess að tapa sér í verslunarstússi.

„Njótið aðventunnar frekar, fáið ykkur kaffibolla og röltið í bæinn í stað þess að tapa ykkur í einhverju verslunarstússi. Farið upp í Heiðmörk, finnið ilminn af furunum, tínið köngla og njótið þess að vera með fjölskyldunni. Og kaupið mandarínur,“ segir Vigdís að endingu, enda ómögulegt að halda jól án þeirra.

Jólaskreytingarnámskeiðin fara fram í Blómavali í Skútuvogi, 16. og 17. nóvember. 

Kanill og greni kemur með lyktina af jólunum.
Kanill og greni kemur með lyktina af jólunum. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál